Tíkallakassi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Finnskur tíkallakassi

Tíkallakassi (finnska: pajatso eða jasso, úr þýsku bajazzo; þangað úr ítölsku pagliaccio, „trúður“) eru spilakassar fyrir fjárhættuspil sem urðu til í Finnlandi á 3. áratug 20. aldar. Þeir þróuðust út frá þýskum spilakössum sem gengu út á að hitta kúlu ofan í hatt trúðsfígúru og losa þannig peninga niður í skúffuna neðst. Vélunum svipaði til bandarískra allwin-véla og japanskra pachinko-bretta. Í finnsku útgáfunni eru átta til tíu samsíða lóðréttar rennur sem geyma peninga bak við gler. Peningur af sömu tegund (íslenskur tíu króna peningur var notaður á Íslandi sem dæmi) er settur í rauf á hlið kassans og síðan er honum skotið til hliðar með því að slá með fingri á málmhring sem stendur út úr hliðinni og reynt að hitta ofan í einhverja rennuna og losa þannig peninga ofan í skúffuna neðst. Miserfitt er að hitta ofaní rennurnar. Efst eru grannir listar sem beina peningnum í einhverja átt og gera það að verkum að líklegra er að hitta milli rennanna (og tapa þannig peningnum) en ofan í þær. Með sérstakri lagni er samt hægt að „sigra vélina“.

Tíkallakassar voru framleiddir af finnska ríkisfyrirtækinu Raha-automaattiyhdistys sem hafði einkaleyfi á þeim frá 1938. Fyrstu útgáfur tíkallakassa voru vélrænar en rafrænar útgáfur komu á markað árið 1982. Tíkallakassar voru reknir af Rauða krossinum á Norðurlöndunum í fjáröflunarskyni frá því á 4. áratugnum. Á Íslandi fékk Rauði krossinn leyfi fyrir þessum spilum árið 1972 sem var upphafið að spilakassarekstri samtakanna[1].

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Jón Baldvin Halldórsson (15. janúar 1983). „Rauðakrosskassarnir“. DV. bls. 10.
  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.