Syðra-Holt í Svarfaðardal

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Syðra-Holt í Svarfaðardal, Bæjarjall í baksýn

Syðra-Holt er bújörð í utanverðum Svarfaðardal um 2 km frá Dalvík. Jörðin hefur vafalaust byggst snemma þótt hennar sé ekki getið í Landnámu eða fornritunum. Syðra-Holt hefur jafnan þótt góð bújörð með grasgefið tún og mikla beitarhaga og lyngmóa í Holtsdalshálsi. Þar eru berjalönd góð, bláber, aðalber og krækiber. Holtsdalur skerst inn á milli fjallanna ofan bæjar. Þetta er langur afdalur á Svarfaðardal og þar er sauðland gott. Hotlsá kemur úr Holtsdal og rennur niður með túninu og bæjarhólnum og fellur í Svarfaðardalsá. Hún skilur að lönd Syðra-Holts og Ytraholts og var jafnframt á hreppamörkum Svarfaðardals- og Dalvíkurhrepps meðan þeir voru tvö sveitarfélög.