Svartur húmor

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
„Óminnisparís“ á þaki í Barselóna á Spáni.

Svartur húmor, svört kímni eða grátt gaman er tegund kímni þar sem umfjöllunarefnið er viðkvæmt, sorglegt eða bannhelgt. Gálgahúmor er tegund af svörtum húmor þar sem gert er grín að dauðanum, stríði, sjúkdómum og glæpum. Svartur húmor gengur út á að tala af léttúð um hluti sem vekja ótta, viðbjóð og hrylling eða þykja siðlausir. Grínið byggist á ósamræminu milli umfjöllunarefnisins og umfjöllunarmátans. Svartur húmor getur falið í sér forlagahyggju og kaldhæðni.

Franski súrrealistinn André Breton notaði hugtakið í umfjöllun um verk Jonathan Swift 1935. Hann gaf síðan út safnritið Anthologie de l'humour noir árið 1940 sem innihélt verk 45 höfunda, þar á meðal Edgar Allan Poe, Lewis Carroll, Arthur Rimbaud, Franz Kafka og Marcel Duchamp.

Íslensk dæmi um svartan húmor[breyta | breyta frumkóða]

Í Skarðsárannál Björns Jónssonar má finna eftirfarandi frásögn af aftöku árið 1602, sem höfð hefur verið til dæmis um íslenskan gálgahúmor, í bókstaflegri merkingu:

„Tekinn af á alþingi Björn Þorleifsson fyrir kvennamál og svall, fékk góða iðran. Biskupinn herra Oddur áminnti hann sjálfur. Hann kvaddi menn með handabandi, áður sig niður lagði á höggstokkinn, og bauð svo öllum góða nótt. Var hann með öllu óbundinn. Jon böðull, er höggva skyldi, var þá orðinn gamall og slæmur og krassaði í höggunum, en Björn lá kyr á grúfu, og þá sex höggin voru komin, leit Björn við og mælti: Höggðu betur, maður! Lá hann svo grafkyr, en sá slæmi skálkur krassaði ein 30 högg, áður af fór höfuðið, og var það hryggilegt að sjá. Voru þá áminningar gerðar yfirvöldunum þeim veraldlegu, að hafa örugga menn til slíks embættis, svo landið yrði ekki að spotti í þeirri grein.“[1]

Þó má finna enn eldri dæmi um svartan húmor í íslenskum bókmenntaarfi, meðal annars í Fóstbræðra sögu, en úr eftirfarandi frásögn af þarflausu morði er komið það orðatiltæki að einhver liggi vel við höggi:

„Þorgeir hafði riðið undan suður og er hann kom til Hvassafells stóðu þar menn úti. Sauðamaður var þá heim kominn frá fé sínu og stóð þar í túninu og studdist fram á staf sinn og talaði við aðra menn. Stafurinn var lágur en maðurinn móður og var hann nokkuð bjúgur, steyldur á hæli og lengdi hálsinn. En er Þorgeir sá það reiddi hann upp öxina og lét detta á hálsinn. Öxin beit vel og fauk af höfuðið og kom víðsfjarri niður. Þorgeir reið síðan í brott en þeim féllust öllum hendur er í túninu höfðu verið. Litlu síðar komu þeir frændur eftir. Voru þeim þá sögð þessi tíðindi og þótti þeim þetta eigi hafa vel til borið. Er svo sagt að þeir frændur bættu víg þetta fyrir Þorgeir. Riðu þeir síðan til móts við Þorgeir. Hann fagnar þeim vel. Þeir spurðu hví Þorgeir hefði þetta víg vegið eða hvað Þorgeir fyndi til um mann þenna. Þorgeir svarar: „Eigi hafði hann nokkurar sakar til móts við mig en hitt var satt að eg mátti eigi við bindast er hann stóð svo vel til höggsins.““

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Björn Jónsson, Annalar Þess froma og velvitra Sauluga Biørns Jonssonar á Skardsau Fordum Løgrettumanns í Hegranes-Sýslu, 1774. Ritið finnst á bækur.is. Frásögnin er skrásett með nútímaletri í: Alþingisbækur Íslands III. bindi, 1595-1605.
  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.