Stokksnesganga

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Stokksnesganga eða Friðargangan Stokksnes-Höfn var fundur og mótmælaganga gegn kjarnorkuvopnum sem haldin var dagana áttunda og níunda ágúst árið 1981 í og við Höfn í Hornafirði. Aðgerðirnar voru á vegum Austurlandsdeildar Samtaka herstöðvaandstæðinga.

Aðdragandi[breyta | breyta frumkóða]

Frá árinu 1955 rak Bandaríkjaher ratsjárstöð á Stokksnesi við Hornafjörð. Þar sem stöðin var hluti af vígbúnaðarkerfi Bandaríkjanna á Íslandi var hún þyrnir í augum íslenskra friðarsinna.

Sumarið 1981 voru fjölmennar mótmælagöngur haldnar víða um Evrópu til að mótmæla áformum um uppsetningu skamm- og meðaldrægra kjarnaflauga. Voru aðgerðir þessar kallaðar friðargöngur og bar áttunda Keflavíkurgangan fyrr um sumarið sama heiti. Innblásin af þessari bylgju efndu herstöðvaandstæðingar á Austurlandi til fundar og mótmælagöngu í samvinnu við móðursamtökin í Reykjavík. Allnokkur hópur friðarsinna af höfuðborgarsvæðinu lagði leið sína austur til að taka þátt í aðgerðunum.

Dagskrá og ræðumenn[breyta | breyta frumkóða]

Laugardagskvöldið 8. ágúst var kvöldvaka í Mánagarði í Nesjum. Þar var m.a. haldinn fundur um hlutverk og eðli ratstjárstöðvarinnar á Stokksnesi. Frummælendur voru: Guðmundur Georgsson læknir, Jón Ásgeir Sigurðsson blaðamaður og Ólafur Ragnar Grímsson alþingsmaður.

Sunnudaginn 9. ágúst var safnast saman að morgni í Stokksnesi þar sem Sævar Kristinn Jónsson frá Rauðabergi flutti ávarp. Því næst var gengin um 20 kílómetra leið til Hafnar. Á leiðinni var stoppað við Hellnanes, þar sem Sigurður Ó. Pálsson á Eiðum flutti ræðu. Í göngulok var útifundur með ræðum frá Torfa Steinþórssyni frá Hala í Suðursveit og rithöfundinum Pétri Gunnarssyni. Að sögn dagblaða tóku um 250 manns þátt í göngunni.