Gapastokkur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Stjaki)
Gapastokkur frá 1578

Gapastokkur er refsitól sem var notað til að niðurlægja afbrotamenn og var oft gert úr klofnum og götuðum stokk eða viðarborðum. Refsiþoli hafði hendur og háls í götum gapastokksins og stundum jafnvel fætur eða aðeins fætur. Gapastokkur gat þó einnig verið aðeins staur með hálshring, en þeir gengu undir nafninu stjaki.

Á Íslandi var gapastokkur refsitæki um tíma, sérstaklega við minniháttar afbrotum og óhlýðni. Fyrst er lagt til að hann verði tekinn í notkun til að refsa þeim sem brutu lög um lausamennsku, flakk og betl árið 1685, en komst ekki í almenna notkun fyrr en á 18. öld og sérstaklega eftir að Húsagatilskipunin var lögfest 1746. Þeir voru þá gjarnan við kirkjur og refsiþolinn festur í gapastokkinn honum til niðurlægingar á messudögum. Íslenskir gapastokkar voru ekki eins og gapastokkar erlendis, jafnvel þó þeir hafi verið nefndir gapastokkar. Mætti í raun frekar kalla þá hespur, því þeir voru líkari hand- og fótajárnum sem voru á fjölförnum stöðum. Gapastokkurinn var aflagður á Íslandi með tilskipun árið 1809.