Stjórnsýsluvald

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Stjórnsýsluvald er sá hluti ríkisvaldsins þar sem ákvarðað er um réttindi og skyldur tiltekinna aðila samkvæmt lögum. Þær ákvarðanir eru kallaðar stjórnsýsluákvarðanir. Þegar ákvarðanir eru teknar án þess að um sé að ræða tiltekna aðila kallast þær stjórnvaldsákvarðanir. Ákveðnir aðilar fari með stjórnsýsluvald þegar þeir hafa lagaheimild til að taka slíkar ákvarðanir. Í lögum er tilgreint hvaða aðilar geti tekið hvaða ákvarðanir og eru í flestum tilfellum ríkisaðilar, sveitarstjórnir eða embættismenn, eða aðilar sem framangreindir aðilar hafa veitt umboð til slíkra verka.

Stjórnsýsluákvarðanir þurfa að uppfylla ýmis skilyrði samkvæmt lögum og þeim réttarreglum sem gilda í viðkomandi ríki og vísað er í, kallaðar stjórnsýslureglur, en þær eru byggðar á stjórnsýslurétti.

Framsal stjórnsýsluvalds[breyta | breyta frumkóða]

Venjulega er stjórnsýsluvald veitt tiltekinni stofnun og fer þá forstjóri hennar með stjórnsýsluvaldið. Hann framselur það í mörgum tilvikum til tiltekinna starfsmanna svo þeir geti tekið stjórnsýsluákvarðanir í umboði hans. Stjórnsýsluvald getur lent í höndum einstaklinga eða einkaaðila ef þeir þurfa að taka slíkar ákvarðanir við framkvæmd lagalegra skylda af hálfu hins opinbera.

Handhafar stjórnsýsluvalds[breyta | breyta frumkóða]

Stjórnsýsluvald má finna í öllum þrem greinum ríkisvaldsins en er mest áberandi hjá framkvæmdavaldinu en er þá falið stofnunum, nefndum og embættismönnum. Innan löggjafarþinga má finna einkenni stjórnsýsluvalds þegar kemur að rekstri þeirra og sömuleiðis hjá dómstólum þó ekki sé alltaf kveðið á um það með berum orðum. Á Íslandi fer Hæstiréttur til dæmis með æðsta stjórnsýsluvald þegar kemur að afgreiðslu stjórnsýslukæra vegna framkvæmda forsetakosninga og annarra kosninga þar sem Hæstarétti er sérstaklega falið það vald.

  Þessi hið opinbera grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.