Fara í innihald

Stephen Neale

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Vestræn heimspeki
Heimspeki 20. aldar,
Heimspeki 21. aldar
Nafn: Stephen Neale
Fæddur: 9. janúar 1958 (1958-01-09) (66 ára)
Skóli/hefð: Rökgreiningarheimspeki
Helstu ritverk: Descriptions; Facing Facts
Helstu viðfangsefni: Málspeki, rökfræði, frumspeki, hugspeki, réttarheimspeki
Áhrifavaldar: Noam Chomsky, H.P. Grice, Bertrand Russell, Donald Davidson, J.L. Austin, Gareth Evans, W.V. Quine, John Perry, Jerry Fodor, Saul Kripke, Dan Sperber, Deirdre Wilson

Stephen Roy Albert Neale (fæddur 9. janúar 1958 á Englandi) er heiðursprófessor í heimspeki við City University of New York (CUNY), Graduate Center í New York-borg í Bandaríkjunum þar sem hann gegnir stöðu sem kennd er bæði við fjölskyldu Johns H. Kornblith og heimspeki um vísindi og gildi (e. Kornblith Family Chair in the Philosophy of Science and Values). Hann er sérfræðingur á sviði málspeki og hefur ritað mikið um merkingu, tjáskipti og túlkun, auk annarra efna er varða tengsl heimspeki og málvísinda. Þá hefur hann einnig ritað um sögu rökgreiningarheimspeki og er einn helsti sérfræðingur um lýsingakenningu Bertrands Russell, um heimspeki þeirra Pauls Grice og Donalds Davidson og um kenningarlega ranghala formlegra röksemdarfærlna er nefnast ‚valslöngvur‘ (e. ‚slinghots‘). Þekktust skrifa Neales eru bækurnar Descriptions (1990) og Facing Facts (2001), auk greinanna „Meaning, Grammar, and Indeterminacy“ (1987), „Paul Grice and the Philosophy of Language“ (1992), „Term Limits“ (1993) og „No Plagiarism Here“ (2001).

Ágrip af ferli

[breyta | breyta frumkóða]

Áður en hann tók við stöðu prófessors við CUNY árið 2007 var Neale prófessor í heimspeki við Rutgers-háskóla í New Jersey-fylki, frá 1999 til 2007, og þar áður við Kaliforníuháskóla í Berkeley, frá 1990 til 1999, sem prófessor bæði í heimspeki og í rökfræði og aðferðafræði vísinda. Á tímabilinu 1996-1997 var hann samhliða því prófessor í heimspeki við Birkbeck College Lundúnarháskóla. Á árunum 1988-1990 var Neale lektor (assistant professor) í heimspeki og málvísindum við Princeton-háskóla, en það var fyrsta háskólastaða hans.

Neale útskrifaðist með doktorsgráðu í heimspeki frá Stanford-háskóla árið 1988 undir leiðsögn Johns Perry, prófessors í heimspeki við sama skóla. Einnig stundaði hann rannsóknir við Center for the Study of Language and Information (CSLI) sem er sjálfstætt rannsóknarsetur við Stanford-háskóla. Þá hefur Neale hlotið eftirfarandi styrki til rannsókna: Guggenheim Fellowship árið 2002, National Endowment for the Humanities Fellowship árið 1998 og Rockefeller Foundation Scholar-in-Residence Fellowship árið 1995. Einnig hefur hann hlotið styrki til rannsókna og kennslu frá fjöldamörgum stofnunum, meðal annars frá Kaliforníu-háskóla, Stanford-háskóla, Háskólann í Miami, Oxford-háskóla, Lundúnar-háskóla, Háskólann í Osló, Háskólann í Stokkhólmi og Háskóla Íslands. Þess ber einnig að geta að Neale hefur tvisvar kennt námskeið við Háskólann á Bifröst, annað í rökfræði árið 2006 en hitt í málspeki árið 2007.

Rannsóknir

[breyta | breyta frumkóða]

Segja má að Neale riti mest um málspeki, sé orðið skilið víðum skilningi og nái þannig að hluta til til generatífrar málfræði (e. generative grammar), husgpeki, hugfræði, heimspekilegrar rökfræði, frumspeki, kenninga um lagatúlkun og bókmenntafræði. Helsti þráðurinn í rannsóknum hans eru þau heimspekilegu vandamál er upp koma varðandi túlkun, samhengi, innihald tjáskipta, formgerð og táknun. Hann er rammur málsvari lýsingakenningar Russells, lýsingahyggju um afturvísun (e. anaphora), ætlanakenningar Pauls Grice um merkingu auk tiltekinnar nálgunar á merkingu og túlkun sem hann nefnir ‚málvísindaleg gagnhyggja‘ (e. linguistic pragmatism). Eitt áhrifamesta tillegg Neales til málspekinnar hefur varðað það hversu merkingarfræði svokallaðra 'ófullkominna ákveðinna lýsinga' dugir skammt til að ákvarða notkun þeirra, bæði í þeim skilningi að hún ákvarðar notkunarmöguleika þeirra aðeins að hluta til (e. underdeterminacy) og það er enn fremur óljóst að hversu miklu hún gerir það yfirhöfuð (e. indeterminacy). Um þessi efni fjallar hann sérstaklega um í bókinni Descriptions (1990) og í greinunum „This, That, and the Other“ (2005) og "A Century Later" (2005). Einnig hafa skrif hans um tiltekin valslöngvurök sem Kurt Gödel setti fram haft mikil áhrif. Um þau fjallar hann m.a. í bókinni Facing Facts (2002).

Hugmyndir Neales um túlkun tungumáls, hvort heldur talaðs eða ritaðs, eru undir miklum áhrifum frá H.P. Grice og kalla má hann ‚ætlanahyggjusinna‘ (e. intentionalist) og ‚gagnhyggjusinna‘ (e. pragmatist). Hugmyndir Neales um setningafræði og getu máls og hugar til að tákna veruleikann eiga rætur að rekja til þeirra Noams Chomsky og Jerry Fodor. Hugmyndir hans um merkingu máls, sem gera ráð fyrir tiltekinni óræðni, má að hluta til rekja til Donalds Davidson. Mikilla áhrifa frá setningafræði og formlegrar rökfræði gætir í skrifum Neales og hann aðhyllist raunhyggju um sannleika fremur en gagnhyggju (þótt hann sé undir áhrifum gagnhyggjusinna hvað varðar merkingu og tjáskipti). Þrátt fyrir það tekur hann ekki afstöðu til þess hvort staðreyndir sem slíkar hafi skýringargildi þegar kemur að kenningum um sannleikann.

Neale telur að hefbundna kenningar um túlkun séu gallaðar að mörgu leyti. Meðal ástæðna eru þau átta atriði sem eftir fara. (i) Hann telur að hefðbundnar kenningar um túlkun geri ekki ráð fyrir þeirri ósamhverfu sem einkennir hlutverk talanda og hlustanda þegar kemur að mannlegum tjáskiptum. (ii) Hann telur að greimarmun skorti á því sem ákvarði frumspekilega hvað málnotandi á við þegar hann notar tiltekinn orð og á því hvernig kennsl séu borinn á það hvað talandinn á við. (iii) Þá telur hann að of lítið sé gert úr þeim skorðum sem málnotendum eru settar þegar kemur að því að mynda sér máltengda ætlun (e. linguistic intention). (iv) Einnig telur hann að viðurkenningu skorti á því að hversu takmörkuðu leyti orð og setningar ákvarða það sem segja má með notkun þeirra (líkt og notkunarfræðingar (e. pragmatists) og gildishyggjysinnar (e. relevance theorists) hafa reynt að gera grein fyrir). (v) Enn fremur telur Neale að hefbundnar kenningar um túlkun skori að gera grein fyrir því hvernig sú óræðni sem einkennir það sem gefið er í skyn (e. implied) nær einnig til þess sem við segjum (til dæmis þegar við notum ófullkomnar ákveðnar lýsingar). (vi) Auk þess telur hann að of mikið traust hafi verið lagt á afar formlegt hugtak um samhengi tjáskipta, hugtak sem á rætur að rekja til vísanarökfræði (e. indexical logic). (vii) Einnig telur hann að of mikil trú ríki á vafasöm fyrirbæri á borð við „það sem sagt er“, „það sem gefið er í skyn“ og „það sem vísað er til“. (viii) Síðast en ekki síst telur Neale að almennt sé gert of mikið úr því að hvaða marki hefðbundnar kenningar um samsetningu merkingar (e. compositional semantics) geti skýrt það hvernig mannfólk notar tungumál til að lýsa heiminum og koma milli sín boðum með tjáskiptum. Þessi atriði greina Neale bæði frá afstæðishyggjusinnum og síðformgerðarhyggjusinnum og frá merkingarfræðingum sem aðhyllast formlegar kenningar um merkingu.

Áhrifavaldar

[breyta | breyta frumkóða]

Meðal helstu áhrifavalda Neales eru Noam Chomsky, H.P. Grice, Bertrand Russell, Donald Davidson, J.L. Austin, Gareth Evans, W.V. Quine, John Perry, Jerry Fodor, Saul Kripke, Dan Sperber og Deirdre Wilson. Meðal málspekinga sem skrifað hafa hjá honum doktorsritgerð eru Herman Cappelen (Háskólinn í St. Andrews og Háskólinn í Osló), Josh Dever (Texas-háskóli í Austin, Texas), Eli Dresner (Háskólinn í Tel Aviv) og Angel Pinillos (Fylkisháskólinn í Arizona).

Helstu verk

[breyta | breyta frumkóða]
 • Descriptions (Cambridge, Mass.: MIT Press, 1993). (Kom fyrst út 1990). ISBN 0-262-64031-7
 • Facing Facts (Oxford: Oxford University Press, 2002). (Kom fyrst út 2001). ISBN 0-19-924715-3

Ritstýrðar bækur

[breyta | breyta frumkóða]
 • Mind (ritstj.) (Oxford: Oxford University Press, 2005). (Sérhefti í tilefni aldarafmælis greinarinnar „On Denoting“ eftir Bertrand Russell.)
 • „On Location“, í Situating Semantics: Essays in Honour of John Perry (Cambridge, Mass.: MIT Press, 2007): 251–393.
 • „Pragmatism and Binding“, í Semantics versus Pragmatics (Oxford: Oxford University Press, 2005): 165–286.
 • „A Century Later“, í Mind 114 (2005): 809-871.
 • „This, That, and the Other“, í Descriptions and Beyond (Oxford: Oxford University Press, 2004): 68–182.
 • „No Plagiarism Here“, í Times Literary Supplement 9. febrúar, 2001: 12–13.
 • „Meaning, Truth, and Ontology“, í Interpreting Davidson (Stanford: CSLI, 2001): 155-197.
 • „On Representing“, í The Library of Living Philosophers: Donald Davidson (Illinois, Open Court, 1999): 656-669.
 • „Coloring and Composition“, í Philosophy and Linguistics (Boulder: Westview Press, 1999): 35-82.
 • „Context and Communication“, í Readings in the Philosophy of Language (Cambridge: MIT Press, 1997): 415-474.
 • „Logical Form and LF“, í Noam Chomsky: Critical Assessments (London: Routledge and Kegan Paul, 1993): 788–838.
 • „Term Limits“, í Philosophical Perspectives 7 (1993): 89-124.
 • „Paul Grice and the Philosophy of Language“, í Linguistics and Philosophy 15 (5) (1992): 509–59.
 • „Descriptive Pronouns and Donkey Anaphora“, í Journal of Philosophy 87 (3) (1990): 113-150.
 • „Meaning, Grammar, and Indeterminacy“, í Dialectica 41 (4) (1987): 301–19.

Rit um skrif Neales

[breyta | breyta frumkóða]
 • Facts, Slingshots, and Anti-Representationalism: On Stephen Neale's Facing Facts. Ritstjórara: Gerhard Preyer of Georg Peter, Protosociology, Vol. 23.