Stefán Gunnlaugsson (ábóti)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Stefán Gunnlaugsson (d. 1350) var prestur í Saurbæ, ábóti í Munkaþverárklaustri og síðan í Þingeyraklaustri á 14. öld. Þess hefur verið getið til að hann hafi verið sonarsonur Úlfs, sonar Þórðar kakala, en það er þó óvíst.

Stefán var prestur í Saurbæ í Eyjafirði um og eftir 1330 en varð ábóti á Munkaþverá eftir að Björn Þorsteinsson fluttist í Þingeyraklaustur árið 1340. Árið 1345 fluttist hann svo sjálfur til Þingeyra, þegar Ormur Ásláksson biskup vék Eiríki bolla úr ábótastarfinu, og var ábóti þar til dauðadags. Eftirmaður hans í Munkaþverárklaustri var Bergur Sokkason, sem áður hafði verið ábóti þar, en Arngrímur Brandsson tók við á Þingeyrum eftir lát Stefáns.

Synir Stefáns voru þeir Gunnlaugur bóndi í Núpufelli í Eyjafirði, Úlfur og Ólafur, en ekki er vitað hver móðir þeirra var.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „„Þingeyraklaustur". Tímarit hins íslenska bókmenntafélags, 8. árgangur, 1887“.
  • „„Þingeyraklaustur". Sunnudagsblaðið, 20. mars 1966“.