Stökkhafur
Stökkhafur | ||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
[[image:|frameless|Bukkur í Etosha þjóðgarðinum í Namibíu]] Bukkur í Etosha þjóðgarðinum í Namibíu
| ||||||||||||
Ástand stofns | ||||||||||||
Vísindaleg flokkun | ||||||||||||
|
Stökkhafur (Antidorcas marsupialis) er meðalstór antílópa sem lifir í suðvestanverðri Afríku. Hann heldur sig einkum á þurrum grassléttum frá norðvestur hluta Suður-Afríku upp eftir Kalahari-eyðimörkinni inn í Namibíu og Botsvana og finnst einnig syðst í Angóla. Stökkhafurinn er vinsælt veiðidýr og þykir gott til matar. Stökkhafurinn er þjóðardýr Suður-Afríku.[1]
Stökkhafur er frekar grannvaxin antílópa með tiltölulega langa fætur. Fullvaxta verður hæð á herðakambi á milli 71 og 86 sm. Stökkhafur vegur á bilinu 18 og 45 kg, kvendýr töluvert léttari en bukkar. Bæði kyn hafa tvö svört horn, ögn bogsveigð, um 30-50 sm löng. Horn kvendýra eru styttri og beinni en á karldýrum. Stökkhafur hefur hvítt andlit með svartar rákir frá augum að munnvikum. Grunnlitur hans er rauðbrúnn og er hann með breiða og greinilega dökkbrúna gasellurák, sem markar skil við hvítan kviðinn. Stökkhafurinn er hvítur aftan á lærunum. Halalengd er um 20-35 sm. Hámarksaldur stökkhafra er 10-15 ár í náttúrulegu umhverfi, en 20-25 ár í dýragörðum.
Fæða stökkhafra er aðallega ungir sprotar og blöð af jurtum og smávöxnum runnum. Geta þeir lifað án drykkjarvatns svo árum skiptir og svala þá þorsta sínum með neyslu þykkblöðunga.[2]
Stökkhafrar lifa hjarðlífi. Iðulega eru kvendýr og kálfar saman í 5-20 dýra hópum. Yfir fengitímann, sem er frá apríl til júní, þá safna ráðandi bukkar sér einni eða fleiri kvendýrahjörðum. Aðrir bukkar safnast í litlar hjarðir, sem ráðandi bukkarnir leita í utan fengitímans.
Eitt sérkenni stökkhafra eru stökkin sem þeir taka ef þeir verða hræddir. Stökkva þeir þá beint upp í loftið, tvo til þrjá metra, með fæturna þétt saman. Kreppa þeir líkamann í stökkinu og eru kengbognir. Önnur dýr í hjörðinni taka þetta fljótt eftir og endurtaka stökkin hvað eftir annað. Stökkhafrar á flótta, hins vegar, teygja úr sér eins og þeir geta og ná þá allt að 15 metrum í hverju stökki og geta farið með um 90 km hraða á klukkustund.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „National animal | South African Government“. www.gov.za. Sótt 10. janúar 2021.
- ↑ Nagy, K. A.; Knight, M. H. (18. nóvember 1994). „Energy, Water, and Food Use by Springbok Antelope (Antidorcas marsupialis) in the Kalahari Desert“. Journal of Mammalogy. 75 (4): 860–872. doi:10.2307/1382468. ISSN 1545-1542.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Óskar Ingimarsson og Þorsteinn Thorarensen. Undraveröld dýranna, 17. bindi. Spendýr, sjötti hluti (Reykjavík: Fjölvaútgáfan, 1987)