Fara í innihald

Stöðumælir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hefðbundinn stöðumælir

Stöðumælir er tæki sem tekur við peningum og sýnir hversu lengi ökumaður hefur leyfi til þess að leggja bíl sínum í bílastæðið þar sem mælirinn stendur.

Carl C. Magee fann upp stöðumælinn og sá fyrsti var settur upp í heimaborg hans, Oklahómaborg 16. júlí 1935. Fyrstu stöðumælarnir voru með rauf fyrir peninga, sveif til að setja klukkuna í gang og vísi sem sýndi hve mikið væri eftir af tímanum. Þessi uppsetning var síðan notuð nánast óbreytt í um 40 ár. Rafrænir stöðumælar með stafrænum skjá sem sýndi tímann komu fram á sjónarsviðið um miðjan 9. áratuginn

Fyrsti stöðumælirinn í London var settur upp við Grosvenor Square 10. júní 1958. Í Reykjavík voru fyrst settir upp stöðumælar 12. ágúst 1957 (í borgarstjóratíð Gunnars Thoroddsen). Þá voru settir upp 274 mælar í miðborg Reykjavíkur. Við flestar götur var gjaldið 1kr fyrir 15 mínútur og 2kr fyrir hálftíma, sem var hámarkstími, en þar sem bílastæðistorg voru (Kirkjutorg, við Hótel Ísland í Austurstræti og á horni Tjarnargötu og Kirkjustrætis) var gjaldið helmingi lægra og hægt að greiða fyrir allt að 2 tíma í einu.