Stóra stökkið fram á við

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sveitafólk var hvatt til að framleiða stál í litlum málmbræðsluofnum.

Stóra stökkið fram á við (einnig nefnt stóra stökkið, framfarastökkið mikla, og kínverska framfarastökkið) var efnahags- og þjóðfélagsáætlun sem stuðst var við í Alþýðulýðveldinu Kína frá 1958 til 1961. Tilgangur hennar var að breyta bændasamfélagi á meginlandi Kína í nútíma iðnvætt kommúnistaríki á sem stystum tíma. Maó byggði þessa áætlun á kenningu um framleiðsluöflin.

Eftir að kommúnistastjórnin tók við í Kína 1949 var voru landareignir strax gerðar upptækar og úthlutað til fátækra bænda. Innan kommúnistaflokksins var deilt um hvort best væri að ríkið iðnvæddist fyrst og breytingar væru gerðar á landbúnaðarfyrirkomulagi smám saman, eða hvort að best væri að fjármagna inðvæðinguna með því að ríkið tæki strax yfir allan landbúnað (sem var álit Maós). Frá árunum 1949–58 var samyrkjubúskap smám saman komið á í sístækkandi einingum. Árið 1958 var þá búið að afnema allan eignarrétt í Kína.

Kínastjórn vann eftir fimm ára áætlunum líkt og Sovétríkin. Önnur fimm ára áætlunin var kynnt til sögunnar 1958–63, framfarastökkið mikla. Stefnt var að gríðarlega örum breytingum og framförum í landbúnaði og iðnaði. Þetta átti að gerast með fólksflutningi í stórum stíl, félaglegum jöfnuði, og minna skrifræði.[1]

Árið 1958 var öllum landbúnaðarhéröðum gert að gerast samyrkjubú (kommúnur) og þeim sett háleit markmið í framleiðni. Kína lagði mikla áherslu á að ríkið yrði sjálfu sér nægt um stál, verandi nauðsynlegt fyrir mannvirkjagerð og annan iðnað. Öll samyrkjubú og hvert þéttbýlishverfi var því hvatt til þess að byggja litla málmbræðsluofna í bakgarðinum hjá sér sem nota átti til að framleiða hágæðastál úr brotajárni.[2] Maó vissi sjálfur ekkert um málmvinnslu og þaggað hafði verið niður í menntafólki. Þegar Maó lærði loks að ekki væri hægt að framleiða gott stál nema með stórum verksmiðjum vildi hann ekki draga úr barráttuanda fólksins, en hætti þó við bakgarða-málmbræðsluofna-verkefnið í lok árs 1959.

Kínastjórn hætti við framfarastökks-áætlunina árið 1961.

Framfarastökkið er núna talið bæði innan Kína og utan hafa mistekist hrapallega og valdið hungursneyð og hörmungum. Í þokkabót höfðu þurrkar geisað á svæðinu og saman leiddi þetta til þess að á milli 18 til 55 milljón manns létust úr hungri.[3]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Lieberthal (1987). bls. 304.
  2. Li Zhi-Sui (22. júní 2011). The Private Life of Chairman Mao. Random House Publishing Group. bls. 272–274, 278. ISBN 978-0-307-79139-9.
  3. „La Chine creuse ses trous de mémoire“.
  Þessi sögugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.