Fara í innihald

Sprengjuárásin á Bostonmaraþonið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Mynd tekin nokkrum augnablikum eftir fyrstu sprenginguna.

Í hinu árlega Bostonmaraþoni þann 15. apríl 2013, sprungu tvær heimatilbúnar þrýstipottasprengjur með 14 sekúndna og 190 metra millibili klukkan 14:49, nálægt marklínu hlaupsins, með þeim afleiðingum að 3 létust og nokkur hundruð særðust, þar af 16 sem misstu útlimi.

Þremur dögum síðar sendi Bandaríska alríkislögreglan (FBI) út myndir af tveimur grunuðum mönnum sem seinna kom í ljós að voru téténskir bræður frá Kirgistan, Dzhokhar Tsarnaev og Tamerlan Tsarnaev. Þeir drápu lögreglumann í MIT, rændu manni og bílnum hans og háðu skotbardaga við lögregluna í bænum Watertown, þar sem tveir lögreglumenn særðust alvarlega, þar af einn sem lést ári síðar. Tamerlan var skotinn nokkrum sinnum og bróðir hans Dzhokhar ók yfir hann þegar hann flúði á bílnum sem þeir höfðu stolið. Tamerlan lést skömmu síðar.

Þann 19. apríl hófst víðtæk leit að Dzhokhar þar sem þúsundir lögreglumanna leituðu á 20 húsa svæði í Watertown. Íbúar í Watertown og nærliggjandi bæjum voru beðnir um að halda sig innandyra, samgöngur lágu niðri og flest fyrirtæki og opinberir staðir voru lokuð. Um kl. 18:00 fann íbúi í Watertown Dzhokhar sem faldi sig í báti í bakgarði hans. [1] Hann var skotinn og særður af lögreglu áður en hann var handtekinn.

Við yfirheyrslur sagði Dzhokhar að þeir bróðir hans hefðu framið ódæðið þar sem þeir aðhylltust skoðanir öfgasinnaðra íslamista og til að hefna fyrir stríðin í Írak og Afganistan, að þeir hefðu gerst róttækir á eigin vegum og tengdust engum öðrum hryðjuverkahópum, og að hann hefði fylgt fordæmi bróður síns. Hann sagði að þeir hafi lært að smíða sprengju af vefriti Arabíska Al-Qaeda. Hann sagði einnig að þeir hefðu ætlað að ferðast til New York-borgar til að sprengja á Times Square. Þann 8. apríl 2015 var hann sakfelldur í 30 ákæruliðum, þar á meðal fyrir notkun gereyðingarvopns og eignaspjöll sem leiddu til dauða.[2] Tveimur mánuðum síðar var hann dæmdur til dauða. [3]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. "Two unnamed officials say Dzhokhar Tsarnaev, 19, did not have a gun when he was captured Friday in a Watertown, Mass. backyard. Boston Police Commissioner Ed Davis said earlier that shots were fired from inside the boat." The Associated Press Wednesday, April 24, 2013, 8:42 PM.
  2. „Dzhokhar Tsarnaev: Boston Marathon bomber found guilty“. BBC News. 8. apríl 2015. Sótt 8. apríl 2015.
  3. „What Happened To Dzhokhar Tsarnaev? Update On Boston Marathon Bomber Sentenced To Death“. International Business Times. 16. apríl 2017. Sótt 12. mars 2018.