Sprengisveppurinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Sprengisveppurinn (franska: Du glucose pour Noémie) er 21. bókin í bókaflokknum um Sval og Val. Hún kom út árið 1971. Höfundur og teiknari hennar var listamaðurinn Fournier. Hún var gefin út á íslensku árið 1980 og telst sjöunda í röðinni í íslenska bókaflokknum.

Söguþráður[breyta | breyta frumkóða]

Svalur og Valur halda til Tókýó í Japan, eftir að hafa fengið boð frá hinum dularfulla Ító Kata, sem er slyngur töframaður. Ító Kata segist hafa fundið hinn þjóðsagnakennda svepp Kókó Sjómón og biður þá um að færa Sveppagreifanum til rannsóknar. Ferðin verði þó ekki hættulaus, þar sem alþjóðlegu glæpasamtökin Þríhyrningurinn muni eflaust ásælast sveppinn.

Við tekur æsilegur eltingaleikur í Japan, þar sem útsendarar Þríhyrningsins (sem bera ekki eigin nöfn heldur raðtölur: númer 1, númer 2 o.s.frv.) reyna að klófesta sveppinn dýrmæta. Í ljós kemur að Ító Kata lék á alla með því að senda Sval og Val af stað með tóman kassa, en freistaði þess á sama tíma að halda sjálfur á fund greifans.

Þegar til Frakklands er komið hafa liðsmenn Þríhyrningsins þó hendur í hári Ító Kata. Þeir hyggjast taka hann af lífi með afar flóknum hætti: koma honum fyrir í stjórnlausri eimreið sem æðir um götur borgarinnar ásamt fjarstýrðri sprengju. Svalur og Valur koma til skjalanna á síðustu stundu og tekst að stöðva lestina áður en hún veldur stórslysi. Í misgripum taka þeir sprengjuna með sér og halda á fund Sveppagreifans með Ító Kata og sveppinn fágæta.

Greifinn og Japaninn uppgötva þann eiginleika sveppsins að framleiða gríðarlega orku úr venjulegum strásykri. Þeim tekst að knýja gamlan bílskrjóð með sveppnum og gera hann að kraftmiklum sportbíl, en ákveða að þegja um uppgötvun sína til að sveppurinn verði ekki notaður í hernaðarlegum tilgangi.

Illu heilli heyrir einn útsendara Þríhyrningsins þetta. Hann stelur bílnum og ekur á fund félaga sinna. Í ofsakæti yfir að hafa eignast sveppinn verðmæta ákveða þeir að sprengja fjarstýrðu sprengjuna. Fyrir runu tilviljana hafði hún hins vegar lent undir höfuðstöðvum glæpasamtakanna og skúrkarnir sprengja því sjálfa sig í loft upp.

Fróðleiksmolar[breyta | breyta frumkóða]

  • Fyrstu blaðsíður sögunnar voru prentaðar aftast í næstu bók á undan, Gullgerðarmanninum, í frönsku útgáfunni. Í íslensku útgáfunni var þessu breytt og sagan sameinuð í einni bók.
  • Engin tilraun er gerð til þess í sögunni að útskýra fjarveru Gormdýrsins.

Íslensk útgáfa[breyta | breyta frumkóða]

Sprengisveppurinn var gefinn út af Iðunni árið 1980 í íslenskri þýðingu Jóns Gunnarssonar. Þetta var sjöunda bókin í íslensku ritröðinni.