Spjall:Wilhelm Conrad Röntgen

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Set hérna grein sem var gerð undir öðrum titli ef einhver skyldi vilja nota eitthvað úr henni í þessa grein. --Cessator 6. febrúar 2010 kl. 18:25 (UTC)

Wilhelm Conrad Röntgen (27. mars 1845 í Remscheid10. febrúar 1923 í München) var þýskur eðlisfræðingur. Hann var þekktastur fyrir að uppgötva geislana sem við hann eru kenndir. Uppfinning hans olli byltingu í læknisfræðinni. Fyrir vikið varð hann fyrsti maður sögunnar til að hljóta Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði 1901.

Æviágrip Röntgen fæddist í þýsku borginni Remscheid, en fjölskyldan fluttist til Apeldoorn í Hollandi þegar hann var þriggja ára. Þar gekk hann í skóla. 1861-63 lærði hann í Tækniskólanum í Utrecht, en var rekinn sökum þess að skrípamynd af kennaranum fannst og talið var að hann hefði teiknað hana. Ári seinna hóf Röngten nám í Tækniháskólanum í Zürich í Sviss, þaðan sem hann útskrifaðist 1868 með prófgráðu í vélatæknifræði. Eftir það lærði hann efnafræði í sama skóla í eitt ár. Næstu ár starfaði Röntgen við ýmsa háskóla, s.s. í Hohenheim, Strassborg í Frakklandi, Giessen og Würzburg. Til Würzburg kom hann 1888 og varð fyrst prófessor í eðlisfræði í háskólanum, seinna rektor. Röntgen gerði ýmsar tilraunir í eðlisfræði á þessum árum. 1895 uppgötvaði hann sérkennilega geisla sem hann kallaði x-geisla, en síðar voru nefndir eftir honum. Árið 1900 flutti Röntgen til München. Ári síðar var hann fyrsti maður sögunnar til að hljóta Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði, en Nóbelsverðlaun yfirhöfuð voru fyrst veitt þetta ár. Verðlaunaféð, 50 þús sænskar krónur, gaf hann háskólanum í Würzburg. Röntgen bjó í München til dauðadags 1923. Hann hvílir í Gamla kirkjugarðinum í borginni Giessen í sambandslandinu Hessen.

Uppgötvun Röntgengeislanna

Fyrsta röntgenmynd sögunnar. Hönd Önnu Bertu, eiginkonu Röntgens, tekin 22. desember 1895.

Í nóvember 1895 var Röntgen að gera tilraunir í vinnustofu sinni. Hann hafði fengið lofttæmdan lampa (Lenard-lampa) að láni og endurbætt hann með ýmsu móti. Eitt sinn þegar hann setti rafstraum á lampann í myrkri, sá hann útundan sér lítinn blossa í eins metra fjarlægð. Þetta endurtók sig nokkrum sinnum. Þegar hann kveikti ljósið sá hann að blossinn hafði komið frá baríum-platínplötu sem hann ætlaði að nota fyrir tilraunir. Næstu daga gerði hann ýmsar tilraunir með tækið, enda gat hann sér til um að hafa uppgötvað nýja tegund geisla. Hann nefndi þá x-geisla, en x merkir á þýsku máli eitthvað óþekkt. Nokkru síðar gerði hann tilraun með Bertu, eiginkonu sinni. Hann lét hana setja hönd sína á baríum-platínplötuna og sett rafstraum á tæki sitt. Geislarnir fóru í gegnum höndina og skildu eftir sig mynd af beinum hennar á plötunni. Hann hafði tekið fyrstu röntgenmyndina í sögunni. Þegar Berta sá myndina, sagði hún: ‘Ég hef séð dauða minn.’ Röntgen gaf út fyrstu niðurstöður sínar 28. desember 1895. Fréttin barst eins og eldur í sinu, ekki síst þar sem Röntgen ákvað ekki að sækja um einkarétt á tæki sínu. Honum fannst að vísindin ættu að vera í þágu mannkyns. Því fóru aðrir að framkvæma tilraunir með tækið, sem fleygði röntgentæknina hraðar fram en ella. Röntgen gaf fyrirlestra um uppgötvun sína og samdi alls þrjár greinar eða ritgerðir um hana. Geislana kallaði hann ávallt x-geisla. Þetta heiti var tekið upp í nokkrum tungumálum, þ.á.m. ensku (x-rays). En brátt fóru Þjóðverjar að kalla þá röntgengeisla honum til heiðurs. Þannig heita þeir enn á þýsku máli í dag (og reyndar á íslensku einnig).

Fjölskylda Röntgen kvæntist 1872 Önnu Bertu Lúðvík (Anna Bertha Ludwig, d. 1919 í München) í Apeldoorn, dóttir svissnesks veitingamanns. Þeim var ekki barna auðið, en ættleiddu eina stúlku, sem var bróðurdóttir Önnu.

Heimildir