Fara í innihald

Spaðadrottningarnar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Spaðadrottningarnar var hljómsveit sem íslenski tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens stofnaði árið 2015. Með honum í sveitinni voru þær Ingibjörg Elsa Turchi á bassa, Brynhildur Oddsdóttir á gítar, Sólrún Mjöll Kjartansdóttir á trommum og Margrét Arnardóttir á harmonikku. Hljómsveitin var ekki langlíf. Bubbi gaf bara út eina plötu með hljómsveitinni, plötuna 18 konur, árið 2015.

Spaðadrottningarnar (2015-2016)

[breyta | breyta frumkóða]

Ingibjörg Elsa Turchi, sem spilaði á bassa í hljómsveitinni, rekur söguna þannig að Bubbi hafi nálgast hana baksviðs á tónleikum í Hörpu 19. júní 2015 sem haldnir voru í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna, og spurt hana hvort hún væri til í að gera með sér plötu, en hann var nú þegar búinn að tala við Brynhildi Oddsdóttur, sem spilaði á gítar í sveitinni. Bubbi á svo að hafa haft samband við Ingibjörgu og Brynhildi um haustið sama ár og þá slóst Sólrún Mjöll Kjartansdóttir, sem spilaði á trommum á plötunni, með í hópinn. Æfingar fyrir plötuna fóru fram í Hlégarði og, að sögn Ingibjargar, gekk vinnan hratt fyrir sig: "Enda hafði Bubbi greinilega vitað hvað hann vildi." Bubbi á svo að hafa komist að því að Ingibjörg kunni á harmonikku. Þá hafði hún bent Bubba á Margréti Arnardóttur, samleigjanda sinn, og hún slóst þannig í hópinn. Platan, 18 konur, kom út 1. desember og Spaðadrottningarnar spiluðu með Bubba á nokkrum tónleikum, til dæmis á aðfangadagstónleikum Bubba á Litla Hrauni.