Fara í innihald

Souphanouvong

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Souphanouvong
ສຸພານຸວົງ
Souphanouvong árið 1978.
Forseti Laos
Í embætti
2. desember 1975 – 15. ágúst 1991
ForsætisráðherraKaysone Phomvihane
ForveriEmbætti stofnað
EftirmaðurPhoumi Vongvichit
Persónulegar upplýsingar
Fæddur13. júlí 1909
Luang Prabang, Laos
Látinn9. janúar 1995 (85 ára) Vientiane, Laos
StjórnmálaflokkurByltingarflokkur Laoskrar alþýðu
MakiViengkham Souphanouvong (g. 1938)
Börn10
HáskóliÉcole nationale des ponts et chaussées

Souphanouvong prins (fæddur 13. júlí 1909, lést 9. janúar 1995) var, ásamt hálfbróður sínum prinsinum Souvanna Phouma og prinsinum Boun Oum frá Champasak, hluti af Prinsaþrenningunni svo nefndu sem urðu eins konar tákn fyrir hinar þrjár stríðandi fylkingar í Laos frá 1945 til 1975, kommúnista, hlutlausa og konungssinna. Hann var einn aðalleiðtogi Pathet Lao og forseti Alþýðulýðveldisins Laos frá desember 1975 til ágúst 1991.

Souphanouvong var einn sona Bounkhong prins, en hann var síðastur varakonunga Luang Prabang. Andstætt eldri hálfbræðrum sínum tveim sem einnig urðu alþekktir, Souvanna Phouma og Phetsarath, var móðir hans, Mom Kham Ouane, ekki af aðalsættum. Faðir þeirra, Bounkhong prins eignaðist þrettán syni og þrettán dætur með ellefu eiginkonum.

Souphanouvong var menntaður byggingarverkfræðingur frá Frakklandi og starfaði sem slíkur bæði í Laos og Víetnam, aðallega við brúarframkvæmdir. Hann var mikill málamaður og hafði gott vald á minnst átta tungumálum, þar á meðal latínu og grísku. Hann var kvæntur víetnömsku konunni Nguyen Thi Ky Nam og átti með henni tíu börn.

Souphanouvong var einn af leiðtogum Lao Issara-hreyfingarinnar sem barðist fyrir sjálfstæði Laos frá Frakklandi. Hann flúði 1945 til Víetnam eftir að tilraun til að skapa sjálfstætt Laos hafði verið barinn niður. Þar kynntist hann Ho Chi Minh og varð fyrir miklum áhrifum af honum og hreyfingu kommúnista.

Hann fékk viðurnefnið „rauði prinsinn“ og varð einn helsti leiðtogi og aðalfulltrúi út á við fyrir Pathet Lao-hreyfinguna og eftir valdatöku hennar varð hann fyrsti forseti Alþýðulýðveldisins. Souphanouvong hafði þó takmörkuð áhrif eftir valdatökuna, sá sem kom í hans stað sem leiðtogi var Kaysone Phomvihane sem fram að því hafði verið nánast óþekktur utan innsta kjarna kommúnista.

  • Stuart-Fox, Martin (1997) A History of Laos. Cambridge: Cambridge University Press.
  • Gunn, Geoffrey C. (1998) Theravadins, Colonialists and Commissars in Laos. Bangkok: White Lotus Press.