Fara í innihald

Snjókrabbi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Snjókrabbi

Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Liðdýr (Arthropoda)
Undirfylking: Krabbadýr (Crustacean
Flokkur: Stórkrabbar (Malacostraca)
Ættbálkur: Skjaldkrabbar (Decapoda)
Innættbálkur: Stutthalar (Crab
Ætt: (Oregoniidae)
Ættkvísl: Snjókrabbar (Chionoecetes)
Krøyer, 1838
Tegund:
Snjókrabbi (Chionoecetes opilio)

Tvínefni
Drottningarkrabbi (e. Queen Crab)

Snjókrabbi (fræðiheiti: Chionoecetes opilio) er krabbi af ætt oregoniidae, ættbálki skjaldkrabba. Snjókrabbinn finnst í Vestur-Atlantshafi frá Grænlandi og Nýfundnalandi til Maine-flóa. Í Norður-Kyrrahafi finnst hann frá heimskautasvæði Alaska vestur til Norður-Síberíu og suður með Beringssundi til Aleuteyja, Kamsjatka, Okotsk, Japan og Kóreu. Þeir lifa á þröngu hitabili undir 3–4°C.[1][2]

Skelin er svipuð að lengd og breidd, með litlum kalkhnúðum og króklaga burstum. Stutt og breitt, þverlægt skjaldarnef og tvö flöt horn á milli grunnra og opinna augntófta. Búkurinn er samþjappaður og vel aðskildur frá útlimum. Snjókrabbinn er með fimm pör af fótum; fyrsta eru klær sem eru grennri og annaðhvort jafn langar eða styttri en fyrstu þrjú pörin af ganglimum sem eru breið og þjöppuð. Liturinn getur verið frá brúnum til ljós rústrauðs, sem virðast oft breytast eftir birtu og sjónarhorni, kviður er gulhvítur og hliðar á fótum hvítar.[3]

Lágmarksstærð við kynþroska eru 51 mm í breidd skeljar fyrir karldýr, en 41 mm fyrir kvendýr. Fullorðin karldýr verða allt að 165 mm í skeljarbreidd, 900 mm í heildarþvermál og geta vega um 1,35 kg. Kvendýrin eru mun minni eða um 95 mm í skeljarbreidd, 380 mm í heildarþvermál og vega aðeins um hálft kg. Kynin aðgreinast líka lögunar, karldýr hafa þríhyrningslaga kvið og hlutfallslega stórar klær en kvendýr eru með hringlaga kvið og frekar litlar klær.[4][5]

Lifnaðarhættir

[breyta | breyta frumkóða]

Snjókrabbinn er kaldsjávar botndýr sem lifir í sandi eða aur á dýptarbilinu 20–1200 m, en mestur þéttleiki er á 70–280 m dýpi í Atlantshafsstofninum. Karl- og kvendýrin eru aðskilin mestan hluta ársins, þar sem karldýrin lifa á aurugum djúpum svæðum en kvendýrin í sandi og grjóti á grynnri svæðum.[6]

Snjókrabbar borða botnhryggleysingja s.s. krabbadýr, samlokur, krossfiska og burstorma. Smærri dýrin borða botngróður og götunga. Æxlunartíðnin er mjög há en 100% kvendýra bera egg á hverju ári. Snjókrabbinn getur orðið allt að 16 ára gamall.[7]

Í fyrstu fer krabbinn í gegnum lirfustig þar sem þeir fljóta um með svifi, en setjast svo niður á botninn. Botnlæg ungdýr losa skelina árlega, vanalega seint að vetri til eða á vorin. Bæði karl- og kvendýr fara í gegnum þrískipta þroskun, en hún er þó ekki eins.

Hjá karldýrum:

 1. Ungdýr – Hér virka æxlunarfærin ekki
 2. Unglingar – Æxlunarfærin virka en klærnar hafa ekki náð fullri stærð
 3. Fullvaxin dýr – Kviður breikkar og æxlun verður möguleg

Hjá kvendýrum:

 1. Óþroskað dýr – Hér er kviður mjór og eggjastokkar ekki greinanlegir
 2. Kynþroskun – Myndun eggjastokka
 3. Fullvaxið dýr – Kviður breikkar og æxlun verður möguleg

Flest kvendýr ná kynþroska á bilinu 4–6 ára, þegar þau losa skelina í síðasta skiptið og skeljarbreidd er orðin um 40–75 mm. Karldýr eigna sér kvendýr u.þ.b. þremur vikum áður en það losar skelina í síðasta skiptið og verður kynþroska. Karldýrin munu þá vernda hana gegn öðrum karldýrum og rándýrum og aðstoða við losun skeljarinnar. Samkeppni um kvendýr er hörð og karldýr slasast oft við hana, kvendýr eru einnig mjög valvísar og deyja oft við að verja sig gegn karldýrum.[8]

Á vorin fara pör á grennri svæði fyrir mökun. Kvenkynsdýr í fyrstu pörun (e. primiparous) makast eftir síðustu losun skeljar, frá febrúar til miðs mars, og karldýr frjóvga eggin áður en þau eru losuð. Eggin eru síðan geymd í sundlim kvendýrsins, undir kviðnum, og hún ber þau þar þar til þau hafa náð lifrustigi og klekjast einu til tveim árum seinna. Hitastig vatnsins ræður hve langan tíma það tekur fyrir eggin að klekjast. Kvendýr getur gefið af sér 12.000 til 16.000 egg, sem fer eftir stærð. Sæði karldýra getur safnast fyrir við mökun og er þá geymt í sáðgeymslu kvendýrsins og eftir að eggin verða að lirfum ræður hún hvort hún makist aftur eða notið uppsafnaða sæðið til að frjóvga næstu egg. Lirfur klekjast frá apríl til seinni hlutar maí og finnast allstaðar á milli yfirborðs og botnar. Sviflæga lirfustigið varir í þrjá til fimm mánuði, sem ræðst af hitastigi.[9]

Rándýr og sjúkdómar

[breyta | breyta frumkóða]

Helstu rándýr snjókrabbans eru lúða, skata, þorskur, selur og skrápflúra og eru ungir krabbar og þeir sem eru að losa skel sérstaklega í hættu. Sníkjuþörungar valda „biturkrabbasjúkdóm“ (e. bitter crab disease, BCD) á kröbbum í Beringssjó og við Nýfundnaland sem einkennist af því að krabbarnir verða bitrir á bragðið og kjöt á fótum verður mjólkur hvítt og dánartíðni eykst. Dánartíðni krabba er hæst í ágúst og september en minnkar um miðjan vetur. Aðrir sjúkdómar svo sem skjaldar sjúkdómur vegna sveppa og baktería eru einnig þekktir en eru ekki jafn skaðlegir og biturkrabbasjúkdómurinn.[10]

Veiðar og markaðir

[breyta | breyta frumkóða]

Veiðar eru í dag með gildrum, en upphaflega var snjókrabbinn aðeins meðafli með botnfiskum sem veiddir voru með trolli, og fara að mestu fram vestur af St. Lawrence-skaga og austur og suðaustur af Nýfundnalandi og Suður-Labrador. Snjókrabbinn hefur verið veiddur frá 1960 en í dag má aðeins veiða karldýr sem eru stærri en 95 mm í skeljarbreidd og ólöglegt er að veiða og landa kvendýrum. Auk þess eru reglugerðir um kvóta, fjölda gildra og veiðar eftir árstíðum. Lang mestar veiðar fara fram í Kanada, eða um tveir þriðju hlutar af heimsafla, og eru næst verðmætasta sjávarafurð þeirra í útflutningi. Árið 2011 fóru 73% af útfluttum snjókrabba frá Kanada til Bandaríkjanna.[11][12]

Skip fyrir krabbaveiðar eru misjöfn að stærð sem fer eftir því hvort þau eru á strandveiðum, grunn- eða djúpslóðum. Til að ná kröbbunum í gildrur er notað beitur sem yfirleitt eru síld, makríll eða smokkfiskur. Eftir að krabbarnir eru veiddir eru þeir geymdir lifandi á ís um borð, sum skip eru komin með saltvatnsstraumrásarkerfi til þess að halda gæðum krabbanna sem mestum áður en þeir eru unnir sem er vanalega nokkrum klukkustundum eftir löndun.[13]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
 1. „Chionoecetes opilio“. Fao. Sótt 27. febrúar 2015.
 2. „Snow Crab“. DFO. Sótt 27. febrúar 2015.
 3. „Chionoecetes opilio“. Fao. Sótt 27. febrúar 2015.
 4. „Chionoecetes opilio“. Fao. Sótt 27. febrúar 2015.
 5. „Snow Crab“. DFO. Sótt 27. febrúar 2015.
 6. „Chionoecetes opilio“. Fao. Sótt 27. febrúar 2015.
 7. „Chionoecetes opilio“. Fao. Sótt 27. febrúar 2015.
 8. „Snow Crab“. DFO. Sótt 27. febrúar 2015.
 9. „Snow Crab“. DFO. Sótt 27. febrúar 2015.
 10. „Snow Crab“. DFO. Sótt 27. febrúar 2015.
 11. „Chionoecetes opilio“. Fao. Sótt 27. febrúar 2015.
 12. „Snow Crab“. DFO. Sótt 27. febrúar 2015.
 13. „Snow Crab“. DFO. Sótt 27. febrúar 2015.