Snjóflóðið á Flateyri
Snjóflóðið á Flateyri er snjóflóð sem féll þann 26. október árið 1995 á bæinn Flateyri í Önundarfirði með þeim afleiðingum að 20 manns fórust en 25 björguðust. Tíu karlar, sex konur og fjögur börn létust í flóðinu sem varð rétt eftir 4 um nóttina. [1] Flóðið kom úr Skollahvilft í Eyrarfjalli en í fjallinu ofan bæjarins eru tvö gil, Innra-Bæjargil og Skollahvilft. Það féll á innanverðan bæinn og eyðilagði eða hreif með sér 17 hús við göturnar Ólafstún, Hjallaveg, Tjarnargötu og Unnarstíg. [2] Snjóflóðið kom aðeins 9 mánuðum eftir snjóflóðið í Súðavík sem varð í janúar sama ár.
Stjórnstöð Almannavarna var virkjuð og tiltækt lið var kallað út. Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar, Líf og Sif og tvær þyrlur varnarliðsins fóru á staðinn og lentu um hádegi. Varðskipin Ægir og Óðinn komu undir kvöld. [3]
Eftir flóðið voru reistir gríðarmiklir snjóflóðavarnargarðar ofan við bæinn. Minnisvarði um þá sem fórust var reistur skammt frá enda flóðsins við Flateyrarkirkju.