Fara í innihald

Skylduskil

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Samkvæmt lögum um skylduskil á Íslandi ber útgefanda að skila fjórum eintökum af útgefnum bókum.

Skylduskil nefnist lagaleg kvöð sem víða er sett um að útgefandi afhendi bókasafni, oft þjóðbókasafni, eintak eða eintök af útgefnu verki. Í Póllandi er útgefanda skylt að afhenda 19 eintök en á Íslandi eru þau fjögur. Markmiðið með skylduskilum er að varðveita menningarleg verðmæti til framtíðar litið.

Skylduskil á Íslandi[breyta | breyta frumkóða]

Á Íslandi er einnig skilaskylda á hljóðritum, verkum á rafrænu formi, dagskrá Ríkisútvarpsins til Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns auk örgögnum og skyggnum. Kvikmyndum er skilað til Kvikmyndasafns Íslands.

Allt frá maí 1662, sama ár og Kópavogsfundurinn átti sér stað, áttu prentsmiðjur á Íslandi að senda Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn og seinna meir líka bókasafni Kaupmannahafnarháskóla eintök af útgefnu efni.

Fyrstu lög um skylduskil á Íslandi voru sett 1886. Þá fékk Landsbókasafn Íslands afhent tvö eintök af prentuðu efni og amtsbókasöfnin á Akureyri og í Stykkishólmi fengu sitt hvort eintakið. Auk þess voru Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn afhent tvö eintök og háskólabókasafninu þar eitt eintak. Skilaskyldan nam því alls sjö eintökum.

Fjöldi skilasafna jókst á fyrri hluta 20. aldarinnar. Amtsbókasafnið á Seyðisfirði og Bókasafn Ísafjarðar bættust við árið 1909. Árið 1928 bættist Amtsbókasafnið í Færeyjum við og 1939 háskólabókasafnið í Winnipeg, þangað sem margir Vesturfarar frá Íslandi höfðu fluttst. Árið 1941 samþykkti Alþingi að hið nýstofnaða Háskólabókasafn skyldi fá eitt eintak af því efni sem Landsbókasafni bar að fá. Á þessum tímapunkti voru prentskilaeintökin samtals 11 því hætt hafði verið að senda eintak til Háskólabókasafnsins í Kaupmannahöfn.

Sett voru lög um skylduskil árið 1949, þá þurftu prentsmiðjur landsins að afhenda Landsbókasafni fjögur eintök af smáprenti, átta eintök af blöðum sem koma út einu sinni í viku eða oftar og tólf eintök af öllu öðru prentuðu efni. Landsbókasafn átti að varðveita tvö eintök, eitt átti að fara til Háskólabókasafns og eitt til bókasafns Norðurlands á Akureyri. Öðrum eintökum átti Landsbókasafn að ráðstafa til annarra bókasafna og vísindastofnana. Samkvæmt reglugerð áttu bókasöfnin í Stykkishólmi, á Ísafirði og á Seyðisfirði að hafa rétt til að velja úr þeim ritum sem væru ein örk eða stærri og úr tímaritum sem kæmu út mánaðarlega eða sjaldnar. Því sem afgangs yrði átti að úthluta til erlendra bókasafna og vísindastofnana og ættu þjóðbókasöfn Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar að sitja í fyrirrúmi, en vestan hafs háskólabókasafnið í Winnipeg.

Ný lög um skylduskil voru sett af Alþingi vorið 1977. Skyldueintökum var þá fækkað í fjögur sem yrði skipt á milli Landsbókasafns sem fengi tvö eintök og Amtsbókasafnsins á Akureyri og Háskólabókasafnsins sem fengu sitt hvort eintakið. Nýmæli í þeim lögum var skylduskil á þremur eintökum af hljómplötum og öðrum útgefnum tón- og tal-upptökum. Skyldi Landsbókasafnið varðveita tvö eintök en Amtsbókasafnið á Akureyri eitt.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.