Skriðuklaustur (klaustur)
![]() | Lagt hefur verið til að þessi grein verði sameinuð við Skriðuklaustur. Hægt er að ræða þessa tillögu á spjallsíðu greinarinnar. |
---|
Skriðuklaustur var munkaklaustur af Ágústínusarreglu sem starfaði frá 1493 til 1552 og var það síðasta klaustrið sem stofnað var á Íslandi í kaþólskum sið. Talið er að Stefán Jónsson Skálholtsbiskup hafi stofnað klaustrið þegar hann var á ferð um Austurland 1493.
Hjónin Hallsteinn Þorsteinsson og Sesselja Þorsteinsdóttir á Víðivöllum í Fljótsdal gáfu klaustrinu jörðina Skriðu í Fljótsdal, þar sem það var síðan starfrækt. Gjafabréfið er undirritað árið 1500 en víst er að klaustrið hafði þá starfað um hríð. Fyrsti príorinn, Narfi Jónsson, var vígður árið 1496 en ári síðar var aðeins einn munkur í klaustrinu. Raunar er talið að munkarnir hafi aldrei orðið fleiri en sex talsins.
Við siðaskiptin í Skálholtsbiskupsdæmi 1542 voru fjórir munkar í klaustrinu auk príorsins. Konungur gaf út bréf um að haldinn skyldi lestrarskóli í klaustrinu en það bréf var síðan tekið aftur og árið 1552 runnu eignir klaustursins til Danakonungs en klaustrið átti þá um 40 jarðir víða um Austurland.
Príorar í Skriðuklaustri[breyta | breyta frumkóða]
- Narfi Jónsson var vígður árið 1496. Hann hafði áður verið kirkjuprestur í Skálholti en varð árið 1506 ábóti í Þykkvabæjarklaustri.
- Þorvarður Helgason tók við 1506 og lét af embætti 1530 en var áfram munkur í klaustrinu.
- Jón Markússon prestur í Vallanesi tók þá við príorsstöðunni. Hann lést árið 1534.
- Brandur Hrafnsson varð síðasti príorinn í Skriðuklaustri. Hann hafði áður verið prestur á Hofi í Vopnafirði í um fjóra áratugi. Hann var sonur Hrafns Brandssonar eldra lögmanns og bróðir Solveigar, síðustu abbadísar í Reynistaðarklaustri, en sonur hans var Hrafn Brandssson yngri, tengdasonur Jóns Arasonar biskups.