Skýringarstíll

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Hugtakið skýringarstíll vísar til þess hvaða ástæður einstaklingur gefur atburðum í lífi sínu. Einstaklingur með jákvæðan skýringarstíl er þannig líklegri til að segja „ég var óheppinn í þetta skiptið“, eða „mér mistóks þarna og verð því bara að gera betur næst“, á meðan einstaklingur með neikvæðan skýringastíl er líklegri til að segja „aldrei get ég gert neitt rétt“, eða „ég er ómögulegur“. Við skilgreiningu á skýringarstíl er helst þrennt sem þarf að hafa í huga:

  • Innri - Ytri
  • Takmarkaðar - Almennar
  • Skammvinnar - Langvinnar

Þessi atriði ráða eflaust mestu um það hvort skýringarstíll telst jákvæður eða neikvæður.

Neikvæður skýringarstíll[breyta | breyta frumkóða]

Einstaklingur sem notar innri, almennar og langvinnar ástæður fyrir atburðum hefur neikvæðan skýringarstíl. Það kemur kannski ekki á óvart að þunglyndir einstaklingar nota einmitt þessar útskýringar, að ekkert gangi upp og þeir geti allt eins gefist upp. Það ber hjálpaleysi merki.

Að kenna innri ástæðum um eitthvað (s.s. „ég er ómögulegur“) er merki um lágt sjálfstraust. Að nota almennar ástæður er til merkis um að viðkomandi telji sama gilda um öll önnur svið lífs hans. Að telja þær langvinnar dregur úr virkni og áhuga einstaklingsins, það er tilgangslaust að reyna ef þú telur hlutina alltaf eiga eftir að verða þér jafn slæmir.

Jákvæður skýringarstíll[breyta | breyta frumkóða]

Það að nota ytri, takmarkaðar og skammvinnar ástæður er merki um jákvæðni. Ytri ástæður eru til merkis um að ekkert sé að þér, takmarkaðar að jafnvel þó eitthvað gangi illa er það á takmörkuðu sviði lífsins og þarf alls ekki að gilda um önnur svið og skammvinnar að hlutirnir geta og muni sennilega breytast.

Þessi atriði eru einmitt þau sem hugrænar meðferðir byggja á, að leiðrétta rangan skýringarstíl þannig að einstaklingurinn öðlist jákvæðari sýn á lífið.