Fara í innihald

Skátafélagið Kópar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skátafélagið Kópar
Stofnun1946
StaðsetningDigranesvegur 79, 200 Kópavogur
FélagsforingiHreiðar Oddsson
StarfssvæðiKópavogur

Skátafélagið Kópar er eina starfandi skátafélagið í Kópavogsbæ. Skátafélagið var stofnað 22. febrúar 1946 og er eitt elsta félag Kópavogs [1]. Skátafélagið Kópar er til húsa við Digranesveg 79 í skátaheimili sem heitir Bakki.

Saga Skátafélagsins Kópa[breyta | breyta frumkóða]

Upphafið að stofnun Skátafélagsins Kópa var að innan Skátafélags Reykjavíkur var starfandi einn flokkur drengja sem bjuggu allir í Kópavogi eða Fossvogi. Þessi flokkur sem kallaðist Kópar stækkaði hratt og varð á endanum heil skátasveit. Á einum sveitarfundi kom upp sú hugmynd að hafin yrði samvinna við kvenskáta úr Kópavogi sem störfuðu í Kvenskátafélagi Reykavíkur og að þau myndu stofna sitt eigið félag í Kópavogi.

Það rættist úr þessari hugmynd og 22. febrúar 1946 var Skátafélagið Kópar formlega stofnað í heimahúsi þáverandi flokksforingja. Með því varð það fyrsta félagið sem stofnað var í Kópavogsbæ ef ekki er talið með sjálft bæjarfélagið. Á fundinum var Jónas S. Jónsson kjörinn fyrsti félagsforinginn og gegndi hann því embætti í fjögur ár áður en Georg Liliberg tók við. Hann var félagsforingi í nokkurn tíma.

Það kom svo tímabil í félaginu þar sem ekki var mikil virkni og var það aðallega vegna húsnæðisvandræða. 1957 verða enn félagsforingjaskipti, en þá tók Friðrik. Haraldsson við því starfi. Hann endurreisti félagið og var félagsforing þessi í tæplega tvo áratugi. Um svipað leyti tók Kársnesskólinn til starfa og fengu Kópar þá að nota herbergi í kjallaranum þar. Félagið flakkaði svo á milli húsnæða í nokkur ár. Það var við Hábraut í nokkur ár og fékk einnig afnot af herbergjum í félagsheimili Kópavogs og kennslustofum í gagnfræðaskólanum og árið 1968 var íbúðarhúsnæði að Hraunbraut 43 leigt. Loks árið 1970 var keypt hús við Borgarholtsbraut 7 sem var íbúðarhús með stórum bílskúr. Þegar gaus í Vestmannaeyjum árið 1973 var skátaheimilið lánað Vestmannaeyingum og allar eigur félagsins fluttar í bílskúrinn. Þá gerðist það leiðinlega óhapp að það kviknaði í skúrnum og því brunnu mörg mikilvæg gögn Kópa. Borgarholtsbrautin var húsnæði félagsins þar til það fluttu í núverandi húsnæði. Það húsnæði kom til á fimmtíu ára afmæli félagsins þegar félagið fékk vilyrði um lóð frá Kópavogsbæ og það tók níu ár að koma því upp. Nýtt skátaheimili var vígt árið 2005.[2]

Kópar hafa verið með virkt starf fyrir fólk á aldrinum 7-25 ára allar götur síðan. Skátarnir í Kópum starfa í sveitum sem funda vikulega.[3] Þar má sérstaklega nefna dróttskátasveitina DS.Andrómedu fyrir skáta á aldrinum 13-15 ára[4], sem var sú fyrsta sinnar tegundar á landinu en hún var stofnuð 1962. Mæðrasveitin Urtur studdi einnig mjög vel við bakið á félaginu en nafninu var svo breytt í Selir þar sem að það þótti úrelt að hafa einungis foreldrafélag fyrir mæður en ekki feður.

Hjálparsveit skáta í Kópavogi var stofnuð þann 4. nóvember 1969 af skátum úr Skátafélaginu Kópum. Fyrstu fundir sveitarinnar voru haldnir í húsnæði skátafélagsins en í dag er sveitin ein af öflugustu björgunarsveitum landsins.[2]

Skátaskálar Kópa[breyta | breyta frumkóða]

Skátafélagið Kópar á tvo skátaskála sem leigðir eru út til almenningsnota ásamt því að skátar félagsins nýta þá í útilegur og dagsferðir.

Bæli[breyta | breyta frumkóða]

Skátaskálinn Bæli að vetri til

Skátaskálinn Bæli er á Hellisheiði. Skálinn var endurbyggður 2011. Ekkert rennandi vatn er í skálanum og þurfa skálagestir að flytja vatn með sér á staðinn.[5]

Þristur[breyta | breyta frumkóða]

Skátaskálinn Þristur að vetri til

Skátaskálinn Þristur er í Þverárdal við Esjurætur. Skálabygging hófst árið 1963. Verkið tók nokkuð langan tíma og var fyrst lokið að fullu í ágúst 1969. Félagið hefur endurnýjað hann nokkrum sinnum í gegnum árin eftir þörfum og hefur hann spilað stórt hlutverk í skátastarfi í Kópavogi. Þristur er enn í mikilli notkun í dag.[2] Skálinn var tekinn í gegn 2008. Ekkert rafmagn er í skálanum en félagsmenn settu upp sólarrafhlöðu sem keyrir loftljós inni í skálanum. Ekkert rennandi vatn er í skálanum en áin Skarðsá/Þverá rennur skammt frá sem má sækja drykkjarvatn í.[5]

Útilífsskóli Kópa[breyta | breyta frumkóða]

Skátafélagið Kópar býður upp á sumarnámskeið fyrir börn á aldrinum 8 til 12 ára hvert sumar.[6]

Vefsíða Kópa[breyta | breyta frumkóða]

Skátafélagið Kópar

  1. Skátafélagið Kópar. „Kópar“. Skátafélagið Kópar.
  2. 2,0 2,1 2,2 Ásgerður Magnúsdóttir. „Skátafélagið Kópar“. Skátasaga.
  3. Skátafélagið Kópar. „Skátastarf“. Skátafélagið Kópar.
  4. Skátafélagið Kópar. „13-15 ára | Dróttskátar“. Skátafélagið Kópar.
  5. 5,0 5,1 Brynjar Bragason. „Skátaskálar“. Skátafélagið Kópar.
  6. Skátafélagið Kópar 2020 (2020). „Útilífsskóli Kópa 2020“. Skátafélagið Kópar 2020.