Fara í innihald

Skáneyjar-Lassi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Skáneyjar-Lassi (um 1490 – fyrir 1570) eða Lassarus Matthíasson, Lazarus Matheusson, var þýskur bartskeri sem kom til Íslands til að lækna sárasótt, ílentist á landinu og eignaðist afkomendur.

Ögmundur Pálsson biskup réði Lassa til Íslands, líklega 1525, til að lækna sárasótt, sem gaus upp á landinu snemma á 16. öld. Samkvæmt annálum var veikin „bæði mannskæð og torsótt að græða“. Enginn læknir var á landinu og var því brugðið á það ráð að fá erlendan bartskera hingað en bartskerar stunduðu ýmsar lækningar, meðal annars á sárasótt. Samningur þeirra Ögmundar og Lassa er varðveittur og þar kemur fram að fyrir að lækna hundrað manns á Lassi að fá jörðina Skáney í Reykholtsdal, sem má því ef til vill segja að sé fyrsti læknisbústaður landsins:

„... vér höfum gjört svoddan kaupskap og skilmála við Lazarus Barskera að hann skal græða og heila og um trútt búa fyrir oss tíutigi menn af sárasótt, það sem oss líkar, og fulla borgun hafa. Skal hann kaupa smyrslin sjálfur til það besta hann kann. Enn vér skulum bítala helftina fyrir þau. Hér í móti höfum vér fengið greindum Lazarus barskera til fullrar eignar og frjáls forræðis jörðina alla Skáney er liggur í Reykholts kirkju sókn ...“

Lassi mun einkum hafa notað kvikasilfurssmyrsl við lækningar sínar. Sagt er að hann hafi einungis læknað 50 menn og því aðeins átt að fá hálfa Skáney en hann mun þó hafa haldið jörðinni allri og afkomendur hans bjuggu þar. Hvort sem það var lækningum Lassa og eftirmanna hans að þakka eða það var af öðrum ástæðum, þá lognaðist sárasóttarfaraldurinn á Íslandi út á næstu árum og áratugum og kom ekki upp annar faraldur fyrr en á 18. öld og þá tengdur Innréttingunum.

Þann 24. nóvember 1528 giftist Lassi Guðrúnu eldri Ólafsdóttur, sem var ein af fjömörgum börnum Ólafs Eiríkssonar bónda á Hóli í Bolungarvík og Brigitar Jónsdóttur konu hans. Þau bjuggu í Skáney og eignuðust að minnsta kosti þrjú börn.

Lars Mattheusson er persóna í leikritinu Skollaleik eftir Böðvar Guðmundsson sem er að nokkru leyti byggð á Lassa þótt örlög hans séu ólík ævi Skáneyjar-Lassa.

  • „„Holdsveiki nútímans. Syfilis hér og erlendis." Eimreiðin, 4. hefti 1930“.
  • „„Syfilis - veikin sem nefnd hefur verið „hefnd Ameríku"." Vísir Sunnudagsblað, 19. október 1941“.