Fara í innihald

Shinzō Abe

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Shinzo Abe)
Shinzō Abe
安倍 晋三
Shinzō Abe árið 2015.
Forsætisráðherra Japans
Í embætti
26. september 2006  26. september 2007
ÞjóðhöfðingiAkihito
ForveriJunichiro Koizumi
EftirmaðurYasuo Fukuda
Í embætti
26. desember 2012  16. september 2020
ÞjóðhöfðingiAkihito
Naruhito
ForveriYoshihiko Noda
EftirmaðurYoshihide Suga
Persónulegar upplýsingar
Fæddur21. september 1954(1954-09-21)
Tókýó, Japan
Látinn8. júlí 2022 (67 ára) Nara, Japan
DánarorsökSkotinn til bana
StjórnmálaflokkurFrjálslyndi lýðræðisflokkurinn
MakiAkie Abe (g. 1987)
ForeldrarShintarō Abe (faðir)
Yōko Abe (móðir)
HáskóliSeikei-háskóli
Suður-Kaliforníuháskóli
StarfStjórnmálamaður
Undirskrift

Shinzō Abe (安倍 晋三 Abe ShinzōIPA: [abe ɕiɴzoː]; 21. september 1954 – 8. júlí 2022) var japanskur stjórnmálamaður sem var 57. forsætisráðherra Japans. Hann gegndi forsætisráðherraembættinu í tvígang, frá 2006 til 2007 og svo frá 2012 til 2020. Í bæði skiptin var Abe forseti Frjálslynda lýðræðisflokksins, sem hefur farið fyrir stjórn Japans að mestu frá því á sjötta áratugnum. Alls sat Abe í um níu ár í embætti og var því þaulsetnasti forsætisráðherra í sögu Japans. Abe var skotinn til bana á útifundi árið 2022 af manni sem kenndi honum um uppgang hinnar umdeildu Sameiningarkirkju í Japan.

Abe var hægrisinnaður þjóðernissinni sem talaði lengi fyrir því að utanríkisstefnu Japans yrði breytt og horfið frá hreinni friðarstefnu sem hefur verið bundin í stjórnarskrá landsins frá lokum seinna stríðs.[1] Abe var margoft gagnrýndur, sérstaklega í Kína og Suður-Kóreu, fyrir að afneita stríðsglæpum Japana í seinni heimsstyrjöldinni.[2][3]

Abe var barnabarn fyrrum forsætisráðherrans Nobusuke Kishi, sem var einn af æðstu embættismönnum japanska stjórnkerfisins á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar.[4] Faðir Abe, Shintarō Abe, var einnig stjórnmálamaður sem sat á þingi í 33 ár og var um skeið utanríkisráðherra Japans. Shinzō Abe var fyrst kjörinn á þing árið 1993 og öðlaðist lýðhylli árið 2002 þegar hann leiddi viðræður við Norður-Kóreu um lausn Japana sem Norður-Kóreumenn höfðu rænt.[5]

Abe varð forsætisráðherra Japans og leiðtogi Frjálslynda lýðræðisflokksins í fyrra sinn árið 2006 þegar Junichiro Koizumi sagði af sér.[5] Fyrri forsætisráðherratíð Abe varði aðeins í eitt ár, en hann tilkynnti afsögn sína í september 2007. Valdatíð hans hafði þá einkennst af hneykslismálum og minnkandi vinsældum og aðeins 30% Jap­ana sögðust hlynntir ríkisstjórn hans. Abe vísaði til þess að hann gæti ekki haldið uppi skilvirkri stefnu með stuðningi og trausti almennings.[6]

Abe sneri aftur til valda árið 2012, þegar hann leiddi Frjálslynda lýðræðisflokkinn til stórsigurs í þingkosningum.[5]

Á seinni valdatíma sínum innleiddi Abe efnahagsstefnu sem þekkt var undir hinu óformlega heiti „Abenomics“. Grunnur að henni voru svokallaðar „þrjár örvar“. Sú fyrsta fólst í því að seðlabanki Japans stórjók grunnfé sitt og dró úr aðhaldi í peningamálastjórn til að auka peningamagn í umferð. Önnur örin fólst í auknum útgjöldum japanska ríkisins með það að markmiði að auka hagvöxt. Þriðja örin fólst í umbótum á stofnanaumhverfi Japans og niðurskurði í regluverki Japans til að draga úr hömlum sem drægju úr hagvexti.[5]

Í ávarpi sem Abe flutti árið 2015 í tilefni af því að 70 ár voru liðin frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar lýsti Abe yfir „djúpstæðri sorg“ vegna gerða Japans í stríðinu. Hann sagði afsökunarbeiðnir fyrri ríkisstjórna „óbifandi“.[7] Abe endurtók hins vegar ekki afsökunarbeiðni úr tímamótaávarpi forvera síns, Tomiichi Murayama, frá árinu 1995 og sagði óþarfi að Japanir héldu endalaust áfram að biðjast afsökunar á gerðum sínum í stríðinu.[8]

Abe sagði af sér af heilsufarsástæðum þann 28. ágúst árið 2020. Hann hafði lengi þjáðst af sáraristilbólgu sem hafði þá nýlega versnað.[9]

Á útifundi í júlí 2022 í borginni Nara var Abe skotinn til bana á meðan hann hélt stuðningsræðu fyrir frambjóðanda. Árásarmaðurinn var fyrrverandi sjóliði á fimmtugsaldri að nafni Tetsuya Yamagami, sem notaði heimagerða byssu til verksins.[10][11] Yamagami sagðist hafa drepið Abe þar sem hann taldi hann tengjast Sameiningarkirkjunni í Japan, sértrúarsöfnuði sem hann kenndi um að hafa keyrt móður hans í gjaldþrot.[12][13]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Burt með sektarkenndina“. Vísir. 21. september 2006. Sótt 8. júlí 2022.
  2. Narusawa, Muneo (7 janúar 2013). „Abe Shinzo: Japan's New Prime Minister a Far-Right Denier of History“. The Asia-Pacific Journal: Japan Focus. Afrit af upprunalegu geymt þann 12. mars 2016. Sótt 10 júlí 2022.
  3. Wingfield-Hayes, Rupert (15. desember 2012). „Japan loses faith in traditional politics“. BBC News. Afrit af upprunalegu geymt þann 8 júlí 2022. Sótt 9 júlí 2022.
  4. Ian Buruma (17. desember 2013). „Syndir feðranna í Austur-Asíu“. mbl.is. Sótt 8. júlí 2022.
  5. 1 2 3 4 Stefán Gunnar Sveinsson (22. maí 2014). „Vantar fleiri örvar í mælinn?“. Morgunblaðið. bls. 4.
  6. „Shinzo Abe segir af sér“. mbl.is. 12. september 2007. Sótt 23. júlí 2025.
  7. Atli Ísleifsson (14. ágúst 2015). „Abe lýsir yfir „djúpstæðri sorg" vegna síðari heimsstyrjaldarinnar“. Vísir. Sótt 24. ágúst 2025.
  8. Guðsteinn Bjarnason (15. ágúst 2015). „Abe biðst ekki afsökunar“. Vísir. Sótt 24. ágúst 2025.
  9. Andri Yrkill Valsson (28. ágúst 2020). „Abe segir af sér af heilsufarsástæðum“. RÚV. Sótt 28. ágúst 2020.
  10. Magnús Jochum Pálsson (8. júlí 2022). „Shinzo Abe skotinn til bana“. Vísir. Sótt 8. júlí 2022.
  11. Svava Marín Óskarsdóttir (8. júlí 2022). „Fyrrverandi forsætisráðherra Japans skotinn til bana“. Fréttablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 8. júlí 2022. Sótt 8. júlí 2022.
  12. Árni Sæberg (9. júlí 2022). „Taldi að Abe tengdist trúar­hópi sem keyrði móður hans í gjald­þrot“. Vísir. Sótt 9. júlí 2022.
  13. „Morðinginn taldi Abe tengjast moonistum“. Fréttablaðið. 11. júlí 2022. Afrit af upprunalegu geymt þann 24. mars 2022. Sótt 2. ágúst 2022.


Fyrirrennari:
Junichiro Koizumi
Forsætisráðherra Japans
(26. september 200626. september 2007)
Eftirmaður:
Yasuo Fukuda
Fyrirrennari:
Yoshihiko Noda
Forsætisráðherra Japans
(26. desember 201216. september 2020)
Eftirmaður:
Yoshihide Suga


  Þetta æviágrip sem tengist stjórnmálum og Japan er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.