Fara í innihald

Sennheiser

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sennheiser e845s hljóðnemi.

Sennheiser electronic GmbH & Co. KG er þýskt fyrirtæki stofnað árið 1945 sem framleiðir hljóðnema, heyrnartól og annan hljóðbúnað bæði fyrir almenning og atvinnumenn. Höfuðstöðvar Sennheiser eru í Wedemark í Þýskalandi (skammt frá Hannover) en höfuðstöðvar fyrirtækisins í Bandaríkjunum eru í Old Lyme í Connecticut.

Fyrirtækið er í eigu Sennheiser-fjölskyldunnar.

Saga Sennheiser[breyta | breyta frumkóða]

Sennheiser HD280 heyrnatól.
Sennheiser heyrnartól MX400ii
Sennheiser PMX 60

Fritz Sennheiser og sjö verkfræðingar við háskólann í Hannover stofnuðu Sennheiser 1. júní árið 1945, fáeinum vikum eftir að stríðinu lauk í Evrópu, á rannsóknarstofu sem nefndist Labor W (nefnd eftir þorpinu Wennebostel, þangað sem hún hafði verið flutt sökum stríðsins). Fyrsta varan sem fyrirtækið þróaði var voltmælir. Labor W hóf framleiðslu á hljóðnemum árið 1946.

Árið 1955 störfuðu hjá fyrirtækinu 250 manns. Nafni Labor W var breytt í Sennheiser electronic árið 1958. Fyrirtækið var gert að einkahlutafélagi (KG) árið 1973. Framleiðsla á þráðlausum hljóðnemum hófst árið 1982. Sama ár tók Jörg Sennheiser við stjórn fyrirtækisins af föður sínum Fritz Sennheiser.

Fyrirtækið[breyta | breyta frumkóða]

Hjá fyrirtækinu starfa nú um 1670 starfsmenn, um 60% þeirra í Þýskalandi. Sennheiser rekur verksmiðjur í Burgdorf í Þýskalandi, Tullamore á Írlandi (frá 1990) og Albuquerque í New Mexico í Bandaríkjunum (frá 1991). Árið 2003 tóku Sennheiser electronic og William Demant Holding Group höndum saman um stofnun Sennheiser Communications A/S í Danmörku með það að markmiði að þróa og framleiða fjarskiptatæki.

Þróunarstarf Sennheiser er að mestu unnið í Þýskalandi og Palo Alto í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Fyrirtækið rekur verslanir á Bretlandi, í Frakklandi, Belgíu, Hollandi, Danmörku, Indlandi, Singapúr, Kanada, Mexíkó og Bandaríkjunum auk Þýskalands.

Meðal dótturfyrirtækja eru Georg Neumann GmbH, sem framleiðir hljóðnema, og Klein + Hummel, sem framleiðir hátalara og annan hljóðbúnað fyrir fyrirtæki.

Velta fyrirtækisins árið 2006 nam 300 milljónum evra.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]