Satorarepo

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Galdratalbyrðingurinn Satorarepo gefur öllum galdralestri kraft og er notaður við alls konar gjörningar, særingar, ristur og lækningar. Talbyrðingurinn er forn og hefur fundist meðal annars á töflu frá Pompei. Annað gamalt satorsvers er að finna á vegg í dómkirkjunni í Siena á Ítalíu.

Satorarepo er þannig uppbyggður að hvort sem lesið er fram eða aftur, upp eða niður í byrðingnum þá koma ávallt út sömu orðin: „Sator, Arepo, Tenet, Opera, Rotas“. Ef reiknuð er þversumma talnagilda stafanna í hverri línu miðað við latneska stafrófið, verður hún sú sama (tíu) fyrir allar línurnar.

S A T O R
A R E P O
T E N E T
O P E R A
R O T A S

Við lækningar sjúkdóma eða til að verjast illum öndum, draugum, sendingum, afturgöngum, óvættum, árum eða djöflum, voru þessi fimm orð rist á allar neglur viðkomandi sjúklings eða þess er verjast skyldi og um leið skyldi þylja versið.