Samskiptakenningar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Samskiptakenningar eru þriðja meginkenningin eða sjónarhornið innan félagsfræðinnar og þær skoða og lýsa samskiptum milli einstaklinga og hópa. Samskiptakenningar eru á „míkróplani“, þær fjalla um samskipti við ákveðnar aðstæður og því er sjónarhornið þröngt. Það er mikilvægt að átta sig á muninum á „míkró-“ og „makrófélagsfræði“. Samskiptakenningar fjalla því fyrst og fremst um hegðun í daglegu lífi en ekki um stærri þætti eins og menntakerfi, trúarbrögð eða stéttaskiptingu. Stóru þættirnir eru til umfjöllunar í samvirkni- og átakakenningum.

Eins og aðrar meginkenningar félagsfræðinnar greinast samskiptakenningar í nokkrar undirkenningar eða sjónarhorn en þau algengustu eru kenningar um félagslegar athafnir eða túlkunarsjónarhorn sem hafna vanalega þeirri skoðun að samfélagið hafi skýra félagsgerð sem stýri heðgunarferli einstaklinga eftir ákveðnum brautum. Einfaldasta skilgreiningin á félagsgerð eru tvö félagsleg öfl eða þættir og tengslin milli þeirra. Í félagsfræði er hins vegar hugtakið víðara og vísar til stórra félagslegra kerfa, fylkingaskipana eða mynstra. Samvirkni- og átakakenningar eru kenningar um félagsgerð.

Reyndar viðurkenna sumir kenningasmiðir samskiptakenninga að félagsgerð sé til en þeir álíta að þessi uppbygging stýrist og mótist af aðgerðum einstaklinga. Max Weber var einn þeirra en hann brúaði bilið að hluta á milli kenninga um félagsgerð (samvirkni- og átakakenninga) og félagslegra athafna. Weber viðurkenndi tilvist stétta og hópa en hafnaði kenningum Emiles Durkheim um að samfélög eigi sér sjálfstætt líf óháð einstaklingunum sem hafa skapað það. Þeir kenningasmiðir sem beita sjónarhorni táknrænna samskipta viðurkenna tilvist félagslegra hlutverka en hafna því að þessi hlutverk séu föst og ósveigjanleg eða þá ákvörðuð út frá hugsanlegum „þörfum“ samfélagsins. Í fyrirbæra- og félagsháttafræði koma fram mun róttækari skoðanir gegn sjónarhorni samvirkni- og átakakenninga því þær hafna öllum hugmyndum um félagsgerðir. Samskiptakenningar eiga það sameiginlegt að leggja áherslu á að félagsfræðingar einbeiti sér að skilningi og túlkun mannlegrar hegðunar. Í þessu felst að í félagsfræðinni fást menn við að uppgötva og öðlast skilning á hvaða merking búi að baki hegðun.

Puzzle stub.svg  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.