Samgöngur í Færeyjum

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Samgöngur í Færeyjum byggjast á vegakerfi, ferjusiglingum og þyrluflugi. Samgöngur við önnur lönd byggjast á flugi og siglingum og eru kostnaðarsamar vegna vegalengda, farþegafæðar og óhagstæðs veðurfars, einkum að vetrarlagi. Útflutningur og innflutningur er því fremur dýr.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Sögu færeyskra samgangna má skipta í fjögur megintímabil.

Árabátar[breyta | breyta frumkóða]

Frá miðöldum fram á 20. öld voru árabátar helstu samgöngutækin en annars fóru menn fótgangandi og báru flutninga á bakinu. Vel stætt fólk notaði þó stundum hesta þar sem því varð við komið.

Ferjur og bílar[breyta | breyta frumkóða]

Bílferjan Smyril.

Á seinni hluta 19. aldar hófust regulegar ferjusiglingar milli eyjanna og voru lög þar að lútandi sett árið 1865. Þegar kom fram á 20. öld komu fyrstu bílarnir til sögunnar og þeim fjölgaði töluvert á millistríðsárunum. Þegar síðari heimsstyrjöld lauk var hægt að komast til meirihluta byggða á Færeyjum með ferjum og bílum, oft áætlunarbílum og leigubílum.

Bílferjur og flug[breyta | breyta frumkóða]

Þegar leið á 20. öldina urðu ferjurnar fullkomnari og bílferjur komu til sögunnar. Þá var hægt að aka og flytja bílinn með ferju á milli allra stærri bæjarfélaganna á eyjunum, frá Þórshöfn suður til Vágs og Tvøroyrar á Suðurey, norður til Fuglafjarðar á Austurey og Klakksvíkur á Borðey og vestur til Vágaflugvallar á Vágum. Flugvöllurinn var lagður af Bretum í síðari heimsstyrjöldinni. Eftir það var lítið sem ekkert notaður fyrr en 1963, þegar hann var endurnýjaður og gerður að alþjóðaflugvelli. Með honum opnuðust möguleikar á millilandaflugi, auk þess sem hann er miðstöð þyrluflugs á milli eyjanna.

Fyrstu jarðgöngin á eyjunum, Hvalbagöngin, voru gerð árið 1963 og á næstu árum var gerður fjöldi jarðganga sem komu á vegasambandi við byggðir sem áður höfðu verið afskekktar.

Brýr og neðansjávargöng[breyta | breyta frumkóða]

Ljósasýning inni í Norðeyjagöngunum

Á síðustu áratugum 20. aldar hófst ný þróun þegar farið var að tengja eyjarnar innbyrðis algerlega ný þróun. Fyrsta vegtengingin á milli eyja var brú sem byggð var á milli Norðskála á Austurey til Nesvíkur á Straumey. Á Norðureyjum voru Viðey og Karlsey tengdar við Borðey með vegfyllingum.

Nýjasta viðbótin við samgöngunet Færeyja eru neðansjávargöng. 2002 voru Vágagöngin á milli Straumeyjar og Vága opnuð og 2006 voru Norðeyjagöngin á milli Austureyjar og Borðeyjar tekin í notkun. Á báðum stöðum er innheimtur vegatollur. Með tilkomu ganganna geta 85% íbúa Færeyja ekið um mestallar eyjarnar.

Jarðgöng[breyta | breyta frumkóða]

Gásadalsgöngin, einnar akreinar göng í Færeyjum.
Kort af göngunum.

Jarðgöng hafa gegnt mjög mikilvægu hlutverki í vegtengingu færeyskra bæjarfélaga. Hvalbagöngin (opnuð 1963) milli Hvalba og Trongisvágs voru þau fyrstu. Lengstu jarðgöng Færeyja eru Eysturoyargöngin (opnuð 2020) sem tengja saman Þórshöfn, Runavík og Strendur. Í dag eru 21 göng í Færeyjum en áætlað er að gera talsvert fleiri.

Nafn Opnun Lengd (m) Akreinar Liggur á milli

Hvalbagöngin

1963 1450 1 Hvalba–Trongisvágur
Árnafjarðargöngin 1965 1680 1 Klakksvík–Árnafjörður
Hvannasundsgöngin 1967 2120 1 Árnafjörður–Hvannasund
Sandvíkurgöngin 1969 1500 1 Sandvík–Hvalba
Norðskálagöngin 1976 2520 2 Norðskáli–Millum Fjarða
Leynagöngin 1977 760 2 Leynar–Kollfjarðardalur
Villingadalsgöngin 1979 1193 1 Húsar–Mikladalur
Mikladalsgöngin 1980 1082 1 Húsar–Mikladalur
Ritudalsgöngin 1980 683 1 Húsar–Mikladalur
Teymur í Djúpadal 1985 220 1 Mikladalur–Tröllanes
Tröllanesgöngin 1985 2248 1 Mikladalur–Tröllanes
Leirvíkurgöngin 1985 2238 2 Leirvík–Norðragøta
Kunoyargöngin 1988 3031 1 Kunoy–Haraldssund
Kollafjarðargöngin 1992 2816 2 Kollafjørður–Kaldbaksbotnur
Sumbiargöngin 1997 3240 2 Sumba–Lopra
Vágagöngin 2002 4900 2 Leynar–Vágar
Gásadalsgöngin 2005 1410 1 Gásadalur–Bøur
Norðeyjagöngin 2006 6300 2 Klakksvík–Leirvík
Hovsgöngin 2007 2437 2 Øravík–Hov
Viðareiðisgöngin 2016 1939 2 Viðareiði–Hvannasund
Eysturoyargöngin 2020 11.240 2 Tórshavn–Runavík/Strendur
Sandoyargöngin 2023 10.800 2 Sandey–Suðurey

Hafnir[breyta | breyta frumkóða]

Fiskibátar í Fuglafjarðarhöfn.

Flugvellir[breyta | breyta frumkóða]

Aðeins einn flugvöllur er í Færeyjum, Vágaflugvöllur. Verkfræðideild breska hersins lagði flugvöllinn í síðari heimsstyrjöldinni. Flugvöllurinn var afhentur dönsku flugmálastofnuninni að stríðinu loknu og 1963 var hann gerður að alþjóðaflugvelli. Reglubundið áætlunarflug hófst með Maersk Air sem var einráður á markaðnum þangað til Atlantic Airways var stofnað 1987. Í dag er Atlantic Airways eina flugfélagið sem flýgur til flugvallarins og er með samstarfsamning við Flugfélag Íslands um flug til eyjanna. Á árunum 2006 til 2007 voru tvö flugfélög í færeyjum, þegar að FaroeJet veitti Atlantic Airways samkeppni en því lauk með gjaldþroti þess fyrrnefnda 2007. Flugbraut vallarins er 1.799 metrar að lengd.

Rútuferðir[breyta | breyta frumkóða]

Vegir eru meginsamgönguæð Færeyja. Um þær liggur yfirgripsmikið net áætlunarleiða og skiptist í rauðu strætisvagnana, Bussleiðina, sem aka um Þórshöfn og bláu vagnana, Bygdaleiðir, sem keyra á milli þorpa og eyja.

Strandfaraskip Landsins reka Bygdaleiðir. Helsta leiðin er Þórshöfn-Klakksvík, sem fer í gegnum Norðeyjagöngin, en aðrar leiðir þjóna öðrum bæjarfélögum. Rúturnar eru í eigu einstaklinga og smáfyrirtækja en fargjöld, tímatafla og þjónustustig er ákveðið af Strandfaraskipum Landsins og landsstjórninni.

Bussleiðin þjónar Þórshöfn og er stýrt af bæjarstjórn Þórshafnar. Síðan 1. janúar 2007 eru ferðir með vögnunum gjaldfrjálsar og er það gert í þeim tilgangi að auka notkun almenningsamgangna í stað bíla. Strætisvagnarnir eru í einkaeigu en eru með leigusamning við Bussleiðina.

Ferjur[breyta | breyta frumkóða]

Færeyska almenningssamgöngufyrirtækið Strandfaraskip Landsins rekur ferjur eyjanna (ásamt rútum). Flaggskip fyrirtækisins er Smyril, sem siglir á milli Þórshafnar og syðri eyjanna. Skipið var tekið í notkun 2005.

Frá 1980 hefur farþega- og bílaferjan Norræna boðið upp á áætlunarsiglingar til Færeyja frá Seyðisfirði á Íslandi og Hirtshals í Danmörku.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]