Saara Kuugongelwa
Saara Kuugongelwa | |
---|---|
![]() Saara Kuugongelwa árið 2020. | |
Forsætisráðherra Namibíu | |
Í embætti 21. mars 2015 – 21. mars 2025 | |
Forseti | Hage Geingob Nangolo Mbumba |
Forveri | Hage Geingob |
Eftirmaður | Elijah Ngurare |
Persónulegar upplýsingar | |
Fædd | 12. október 1967 Otamanzi, Suðvestur-Afríku (nú Namibíu) |
Þjóðerni | Namibísk |
Stjórnmálaflokkur | SWAPO |
Háskóli | Lincoln-háskóli |
Saara Kuugongelwa-Amadhila (f. 12. október 1967) er namibísk stjórnmálakona sem var forsætisráðherra Namibíu frá árinu 2015 til ársins 2025. Hún er meðlimur í Alþýðusamtökum Suðvestur-Afríku (SWAPO) og hefur átt sæti á namibíska þinginu frá árinu 1995. Hún var fjármálaráðherra landsins frá 2003 til 2015.[1] Kuugongelwa er fyrsti kvenforsætisráðherra Namibíu.
Kuugongelwa er með heiðursdoktorsgráðu í opinberum fjármálum og MSC-gráðu í fjármálahagfræði. Hún var hagfræðingur hjá namibíska forsetaembættinu árið 1995 og framkvæmdastjóri ríkisáætlananefndar frá 1995 til 2003.[2]
Þann 21. mars 2024 var Kuugongelwa-Amadhila kjörinn forseti namibíska þingsins til fimm ára. Hún er fyrsta konan til að gegna embætti þingforseta Namibíu.[3]
Æska og menntun
[breyta | breyta frumkóða]Saara Kuugongelwa fæddist 12. október 1967 í Otamanzi í Suðvestur-Afríku (nú Namibíu). Hún fór í útlegð ásamt öðrum meðlimum SWAPO árið 1980 þegar hún var þrettán ára og hélt til Síerra Leóne árið 1982, aðeins 15 ára gömul.[4] Hún gekk í stúlknaskólann í Koidu frá 1982 til 1984 og í Framhaldsskóla Heilags Jósefs frá 1984 til 1987. Frá 1991 til 1994 gekk hún í Lincoln-háskóla í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum og útskrifaðist með MSc-gráðu í fjármálahagfræði.[5][6]
Stjórnmálaferill
[breyta | breyta frumkóða]Kuugongelwa-Amadhila sneri heim til Namibíu eftir útskrift hennar úr Lincoln-háskóla og var ráðin sem hagfræðingur hjá skrifstofu forsetaembættisins í stjórnartíð Sams Nujoma. Árið 1995, eftir aðeins fáeina mánuði í því starfi og þegar hún var 27 ára, útnefndi Nujoma hana í sæti á namibíska þinginu og skipaði hana framkvæmdastjóra ríkisáætlananefndar Namibíu,[5] sem er embætti með tignarstöðu ráðherra. Árið 2003 hækkaði Nujoma hana í tign og gerði hana fjármálaráðherra.[7][8]
Þegar Hage Geingob varð forseti Namibíu þann 21. mars 2015 tók Kuugongelwa við embætti forsætisráðherra Namibíu.[9] Hún er fyrsta konan sem gegnir því embætti.[7]
Í maí 2016 tók hún þátt í málþingi undir heitinu „Spjall við hina háttvirtu Söru Kuugongelwa-Amadhila, forsætisráðherra Lýðveldisins Namibíu“ á vegum Wilson-miðstöðvarinnar.[10] Hún hefur oft tjáð sig um jafnrétti kynjanna, meðal annars í heimsókn malíska forsætisráðherrans Modibo Keita til Namibíu og í ræðu (sem lesin var af Christine Hoebes í nafni hennar) þar sem hún lýsti því yfir að það myndi taka 70 ár að uppræta kynbundinn launamun í Afríku.[11][12]
Kuugongelwa-Amadhila bauð sig fram í leiðtogakjöri SWAPO á landsþingi flokksins árið 2022 en tapaði fyrir Netumbo Nandi-Ndaitwah, sem varð frambjóðandi flokksins í forsetakosningum Namibíu árið 2024. Þann 21. mars 2025 var Kuugongelwa-Amadhila kjörin forseti namibíska þingsins, fyrst kvenna, með 55 atkvæðum gegn 40 atkvæðum fyrir Bernadus Swartbooi úr Alþýðuhreyfingu hinna landlausu.[3]
Einkahagir
[breyta | breyta frumkóða]Kuugongelwa er gift viðskiptamanninum Onesmus Tobias Amadhila.[8]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Kuugongelwa-Amadhila, Saara“. Namibian Parliament (bandarísk enska). Sótt 24 febrúar 2023.
- ↑ „Saara Kuugongelwa-Amadhila“. World Economic Forum (enska). Sótt 24 febrúar 2023.
- ↑ 3,0 3,1 „Kuugongelwa-Amadhila elected as first woman National Assembly speaker after decade as prime minister“. The Namibian (bresk enska). 20. mars 2025. Sótt 21. mars 2025.
- ↑ „THE PRIME MINISTER OF REPUBLIC OF NAMIBIA“. OPM.gov.na. Afrit af upprunalegu geymt þann 6 júlí 2018. Sótt 6 febrúar 2017.
- ↑ 5,0 5,1 Graham Hopwood:Who's Who, Kuugongelwa-Amadhila, Saara - Swapo Namibian Institute for Democracy Geymt 11 júní 2011 í Wayback Machine
- ↑ „Kuugongelwa-Amadhila, Saara“. Ríkisstjórn Namibíu. Sótt 19 júní 2022.
- ↑ 7,0 7,1 „Profile: Saara Kuugongelwa-Amadhila“. New Era. 12. mars 2015. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. mars 2016. Sótt 9 júlí 2016.
- ↑ 8,0 8,1 Mongudhi, Tileni; Smith, Sonja (17 júní 2022). „Kuugongelwa-Amadhila eyes presidential throne“. The Namibian. bls. 1, 6. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. mars 2016. Sótt 9 júlí 2016.
- ↑ Shinovene Immanuel and Theresia Tjihenuna, "Emotional transition" Geymt 18 október 2022 í Wayback Machine, The Namibian, 23. mars 2015.
- ↑ „A Conversation with The Right Honourable Saara Kuugongelwa-Amadhila, Prime Minister of the Republic of Namibia“. WilsonCenter.org. Sótt 6 febrúar 2017.
- ↑ „Gender equity vital to sustained growth“. Namibia Economist. 19 ágúst 2016.
- ↑ Kahiurika, Ndanki (15 ágúst 2016). „70 years to close gender gap – PM“. The Namibian. bls. 1.
Fyrirrennari: Hage Geingob |
|
Eftirmaður: Elijah Ngurare |