Sýklakenningin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Mynd af kólerubakteríu.

Sýklakenningin eða örverukenningin[1] er sú kenningsmitsjúkdómar berist milli manna með sjúkdómsvaldandi örverum, sem kallast sýklar. Kenningin var fyrst sett fram á 16. öld og var mikið gagnrýnd til að byrja með en hefur síðan undir lok 19. aldar verið almennt viðtekin innan læknavísinda og örverufræði. Hún tók við af míasmakenningunni sem helsta skýring manna á smitburði.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Ignaz Semmelweis var meðal þeirra sem lögðu hornsteina að sýklakenningunni.

Finna má þess merki í fornum ritum hindúa að kenningar sem minna á sýklakenninguna hafi verið við lýði meðal Indverja þegar í forneskju. Telja má nánast fullvíst að hugsuðir frongrikkja hafi haft einhverjar spurnir af slíkum kenningum, en þeir virðast þó ekki hafa tekið þær upp á arma sína og sér þeirra hvergi stað í Corpus Hippocraticum eða „textasafn Hippókratesar“, handritasafni því sem kennt er við Hippókrates og fylgismenn hans. Hins vegar er ekki annað að sjá en rómverski fræðimaðurinn Varró hafi vitað af slíkum hugmyndum og tekið þeim sem sjálfgefnum sannleik þegar hann ræður tilvonandi óðalsbónda frá því að reisa hús sitt í mýrlendi vegna þess að „þar þrífast örsmáar verur sem ekki sjást með berum augum, en komast inn um munn og nasir og valda sjúkdómum“[2]

Sýklakenningin er þó venjulega sögð eiga upphaf sitt hjá Girolamo Fracastoro, en hann hélt því fram árið 1546 að orsaka farsótta væri að leita meðal örsmárra „fræja“ sem gætu borist manna á milli og ollið sjúkdómum. Örverur voru þó ekki þekktar á þeim tíma, en Antonie van Leeuwenhoek lýsti þeim fyrstur manna seint á 17. öld. Það var svo Agostino Bassi sem fyrstur setti sýklakennnguna fram með vísan í örverur og má því segja að kenningin eins og hún er í dag hafi fyrst litið dagsins ljós hjá honum. Kennigin mætti mikilli mótstöðu innan læknastéttarinnar, en tilraunir ýmissa vísindamanna á síðari helmingi 19. aldar leiddu smám saman í ljós að kenningin skýrði bæði smitburð farsótta og sýkingar almennt með hætti sem var að miklum mun meira sannfærandi en fyrri kenningar. Meðal helstu tilrauna í þessa veru ber að nefna rannsóknir Ignaz Semmelweis á smitburði sængursóttar á sjúkrahúsi Vínarborgar á árunum upp úr 1840 og hinar ítarlegu rannsóknir Roberts Koch á sýkingum og smitburði miltisbrands, berkla, kóleru og fleiri sýkinga um og eftir 1870.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Orðið „örverukenning“
  2. Oddur Vilhelmsson (2009) „Stiklað á stóru um sögu lífvísindanna 1. Frá öndverðu til endurreisnar.“ Rit auðlindadeildar Háskólans á Akureyri nr. RA09:07. Háskólinn á Akureyri.

Ytri tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  • „Hver var Louis Pasteur og hvað gerði hann merkilegt?“. Vísindavefurinn.