Súrdoði

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Súrdoði (kallast stundum fóðureitrun í sauðfé) er efnaskiptasjúkdómur vegna orkuskorts sem leggst á mjólkurkýr. Fyrstu 8 vikur mjaltaskeiðs síns er kúnum einkum hætt við sjúkdómnum en einnig eru til þær kýr sem fá sjúkdóminn við lok meðgöngu. Sjúkdómurinn einkennist af lystarleysi, sérstaklega á kjarnfóður, deyfð, minnkandi nyt, hor og hangandi eyrum. Auk þess er væg acetonlykt af andardrættinum og mjólkinni.

Til að komast hjá því mikla tjóni sem sjúkdómurinn getur valdið er best að meðhöndla kúna sem fyrst. Þetta er gert með sykurhrífandi barksterum (einnig kallað súrdoðahormón), auk þess sem kalk, magnesíum og glúkósi er gefið í æð. Þetta ætti að draga úr deyfð kýrinnar. Væg tilfelli er hægt að lækna með því að hella sykurlegi í kúna, svokölluðum framsóknardropum.

Fyrirbyggjandi aðgerðir[breyta | breyta frumkóða]

Ekki er auðvelt að komast fyrir sjúkdóminn með fyrirbyggjandi aðgerðum, en draga má úr líkum sjúkdómsins með eftirfarandi atriðum:

  • Geldkýr ættu ekki að vera feitar fyrir burð, frekar í passlegum holdum.
  • Síðustu 3-4 vikurnar fyrir burð er mjög mikilvægt að kýrin fái að venjast fóðrinu fyrir burðinn. Engar fóðurbreytingar ættu að eiga sér stað á þessu tímabili.
  • Þegar kýrin er borin þarf að gefa henni hlutfallslega meira af kjarnfóðri en áður, til að mæta þörfum mjólkurmyndunar. Einnig er gott að dreifa kjarnfóðurgjöfinni á fleiri máltíðir, svo vömbin verði ekki of súr. Gróffóður skal alltaf gefa á undan kjarnfóðri því ef kjarnfóður kemst í tóma vömb súrnar hún um of og lífverur í henni eiga erfitt uppdráttar.
  • Eftir 6-8 vikur af mjaltaskeiðinu má fara að draga úr kjarnfóðurgjöf, og auka hlutdeild gróffóðurs.