Fara í innihald

Søren Andersen Norby

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Søren Andersen Norby (d. 1530) var hirðstjóri á Íslandi á öðrum áratug 16. aldar og háttsettur flotaforingi sem fór í marga herleiðangra fyrir Kristján 2. Danakonung.

Søren Norby var Norðmaður af háum stigum sem þjónaði í danska flotanum. Hann tók þátt í refsileiðöngrum gegn Vindum 1509 og 1511 og orrustu milli danskra og lýbskra herskipa við Borgundarhólm 1511. Hann fékk lén í Danmörku að launum fyrir frammistöðu sína og árið 1514 var hann gerður hirðstjóri á Íslandi; þó kann að vera að hann hafi orðið hirðstjóri fyrr og haft þá umboðsmenn fyrir sig. Hannes Eggertsson var líklega umboðsmaður hans, að minnsta kosti tengdist koma hans til landsins Norby.

Hlutverk Norbys var að berja á Englendingum og átti hann að reisa virki til að verjast þeim, bæði í Vestmannaeyjum og á Bessastöðum. Hirðstjóraembættið hafði hann til 1517 en þá var hann gerður að yfirforingja danska flotans og um leið fékk hann Gotland að léni. Hann hélt Stokkhólmi í hafnbanni 1520, reyndi að bæla niður uppreisn Gústafs Vasa og rak Svía frá Álandseyjum og Finnlandi. Kristján 2. lét hann fá Finnland og Norrbotten að léni.

Þegar saminn var friður við Svía 1524 eftir að Kristján 2. var rekinn úr landi og Friðrik 1. var orðinn Danakonungur áttu Danir að afhenda Svíum Gotland en Søren Norby vildi ekki fara þaðan og setti Friðrik konungur eyjuna þá í hafnbann. Norby sigldi þá til Blekinge, tók land og hélt til Skánar, þar sem bændur flykktust að honum og hann lét hylla sig sem fulltrúa Kristjáns 2. á þingi í Lundi. Hann beið þó lægri hlut í bardögum við her Friðriks 1. og varð að semja frið 28. júní 1525 og sleppa Gotlandi.

Hann hélt þó einhverjum ítökum en tapaði loks sjóorrustu við danskar, sænskar og lýbskar flotadeildir við strönd Blekinge 24. ágúst 1526. Sjálfur slapp hann þó og hélt til Hollands til fundar við Kristján 2., sem þar var landflótta. Hann gekk síðar í þjónustu keisarans og féll í umsátri um Flórens árið 1530.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Fyrir 400 árum. Lesbók Morgunblaðsins, 8. mars 1942“.
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Søren Norby“ á dönsku útgáfu Wikipedia. Sótt 21. janúar 2010.


Fyrirrennari:
Hans Rantzau
Hirðstjóri
(15141517)
Eftirmaður:
Týli Pétursson