Sonnetta

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Sónháttur)

Sonnetta er ítalskur bragarháttur sem var mótaður á 13. öld. Stundum hefur sonnettan verið kölluð sónháttur eða sónhenda á íslensku.

Sonnettan er fjórtán ljóðlínur sem hver um sig er oftast fimm jambar. Ítalska sonnettan, sem kennd er við Petrarca, er í tveimur hlutum. Fyrri hlutinn er átthenda (eða tvær ferhendur), þar sem saman ríma fyrsta, fjórða, fimmta og áttunda lína, og með öðru rími önnur, þriðja, sjötta og sjöunda lína; eða eins og þetta er einatt táknað: abba, abba. Síðari hlutinn er sexhenda (eða tvær þríhendur), og þar ríma saman fyrsta og fjórða lína, önnur og fimmta, og þriðja og sjötta lína, eða: cde, cde. Þó getur rímröð sexhendunnar verið með öðru móti, t.d.: ccd, eed. Í Ítölsku sonnettunni kemur einatt amfíbrakki í stað síðasta jamba línunnar, sem þá verður kvenlína, og hrynjandin eins og:

Þau Jón /og Gunn-/ a gift-/ a sig / á morgun.
vS------/vS------/vS------/vS------/vSv/

En bæði á íslensku og öðrum málum er allur gangur á því. Fyrsta íslenska Petrarca-sonnettan, og um leið sú frægasta, er ljóð Jónasar Hallgrímssonar: Ég bið að heilsa. Í átthendunni víkur Jónas frá ítalska forminu með því að ríma: abba, acca; þýðum, rísa, ísa, hlíðum, blíðum, friði, miði, fríðum.

Ég bið að heilsa[breyta | breyta frumkóða]

Nú andar suðrið sæla vindum þýðum,
á sjónum allar bárur smáar rísa
og flykkjast heim að fögru landi Ísa,
að fósturjarðar minnar strönd og hlíðum.
Ó! heilsið öllum heima rómi blíðum
um hæð og sund í drottins ást og friði;
kyssi þið, bárur! bát á fiskimiði,
blási þið, vindar! hlýtt á kinnum fríðum.
Vorboðinn ljúfi! fuglinn trúr sem fer
með fjaðrabliki háa vegaleysu
í sumardal að kveða kvæðin þín!
Heilsaðu einkum ef að fyrir ber
engil með húfu og rauðan skúf, í peysu;
þröstur minn góður! það er stúlkan mín.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]