Síberíuflæðibasaltið
Síberíuflæðibasaltið (rússneska: Сибирские траппы, Sibirskije trappy) er stórt eldvirknisvæði, eða flæðibasaltsvæði í Síberíu í Rússlandi. Hin mikla eldvirkni sem myndaði svæðið (og sem er einn stærsti þekkti eldvirkniatburður síðustu 500 milljón ára jarðsögunnar) varði í milljón ár og náði yfir skilin á milli jarðsögutímabilanna Perm og Trías fyrir um 251-250 milljónum ára.
Landfræðileg útbreiðsla
[breyta | breyta frumkóða]Gríðarlega rúmmálsmikil hraunlög breiddust yfir stórt svæði hinnar fornu Síberíu í flæðibasaltatburði. Í dag er svæðið um 2 milljónir km2 (eða sambærilegt við Vestur-Evrópu að flatarmáli), en það hefur verið áætlað að upphafleg stærð svæðisins hafi verið allt að 7 milljónir km2. Talið er að upphaflegt rúmmál hraunanna hafi verið á bilinu 1 milljón til 4 milljónir km3.
Landfræðileg lega svæðisins er á milli 50° og 75° norðlægrar breiddar og 60° og 120° austlægrar lengdar.
Uppruni
[breyta | breyta frumkóða]Uppruna svæðisins hefur verið talið mega rekja til möttulstróks sem hafði áhrif á jarðskorpuna á svæðinu og braust í gegnum síberíska meginlandsskjöldinn, eða mega rekja til ferla sem tengjast reki jarðskorpufleka. Aðrar mögulegar ástæður hafa einnig verið nefndar en ennþá deila vísindamenn um uppruna Síberíuflæðibasaltsins.
Áhrif eldvirkni á lífkerfi jarðar
[breyta | breyta frumkóða]Sá mikli eldvirkniatburður sem myndaði Síberíuflæðibasaltið náði yfir Perm-Trías mörkin í jarðsögunni fyrir um 250 milljónum ára og er því nefndur sem möguleg ástæða fyrir Perm-Trías fjöldaútdauðanum. Þessi fjöldaútdauði sem er sá mesti í þekktri jarðsögu hafði áhrif á allt líf á jörðinni og er áætlað að um 90 % allra tegunda hafi dáið út. Það tók líf á landi að minnsta kosti 30 milljónir ára að ná sér að fullu af þeim umhverfisáhrifum sem mögulega hafa orðið vegna eldvirkninnar sem myndaði Síberíuflæðibasaltið.
Síberíuflæðibasaltið og myndun nikkels
[breyta | breyta frumkóða]Talið er að gosið hafi á svæðinu á mörgum gosopum á yfir milljón ára tímabili eða meira. Gosin urðu líklega austur og suður af Norilsk í Síberíu. Einstök gos gætu hafa látið frá sér meira en 2000 km3 af hrauni. Norilsk-Talnakh nikkel-kopar-palladíum málmgrýtið myndaðist í gosrásum í meginhluta flæðibasaltsins. Túfflög og gosmöl á svæðinu gefa til kynna að fjöldi stórra sprengigosa hafi orðið á sama tíma eða áður en basalthraunlögin mynduðust. Rýólít sem er súrt gosberg finnst einnig á svæðinu og gefur til kynna að sprengigos hafi átt sér stað.