Sáttmálinn um bann við kjarnavopnum

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Sáttmálinn um bann við kjarnavopnum er sáttmáli á vegum Sameinuðu þjóðanna sem samþykktur var þann 7. júlí árið 2017. Aðildarríki hans undirgangast algjört bann við kjarnavopunum, þróun þeirra, framleiðslu, geymslu og umferð. Binda aðstandendur sáttmálans vonir við að með tímanum muni öll ríki, þar með talið kjarnorkuveldin, gerast aðilar að sáttmálanum en fyrirmynd hans eru afvopnunarsáttmálar á borð við samninga um bann við efnavopn, jarðsprengjur og klasasprengjum, sem í fyrstu nutu einungis stuðnings ríkja sem ekki höfðu yfir slíkum vopnum að búa en mótuðu með tímanum almenningsálitið og fengu hin ríkin til að slást í hópinn. Sáttmálinn fær formlega stöðu sem einn af sáttmálum Sameinuðu þjóðanna þegar fimmtíu ríki hafa bæði undirritað hann og fullgilt í þjóðþingum sínum. Samtökin ICAN hlutu Friðarverðlaun Nóbels árið 2017 fyrir þátt sinn í samþykkt sáttmálans.

Aðdragandi[breyta | breyta frumkóða]

Sáttmálinn um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna, NPT, frá árinu 1968 leggur kjarnorkuveldunum þær skyldur á herðar að vinna að kjarnorkuafvopnun. Að margra mati hirtu stjórnir þeirra landa þó lítt um þennan hluta sáttmálans. Á ráðstefnu um framkvæmd sáttmálans árið 2010 var kallað eftir því að stigin yrðu skref í átt til útrýmingar, en Bandaríkin, Rússland, Bretland, Frakkland og Kína sýndu slíkum kröfum lítinn skilning. Í kjölfarið komust ýmsir að þeirri niðurstöðu að vonlaust væri að bíða eftir að kjarnorkuveldin tækju við sér, heldur ættu aðrar þjóðir að hefjast handa um gerð sáttmála og þrýsta síðar á kjarnorkuveldin að gerast aðilar að honum.

Þrjár stórar ráðstefnur um kjarnorkuvopnamál voru haldnar árin 2013 og 2014 í Mexíkó, Austurríki og Noregi. Þar myndaðist ríkjahópur sem sameinaðist um það markmið að semja nýjan sáttmála til hliðar við NPT, í stað þess að reyna einungis að vinna að breytingum á gamla sáttmálanum. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti á árinu 2015 að stofna hóp til að vinna að þessu markmiði. Síðla árs 2016 var svo samþykkt á vettvangi Allsherjarráðsins að halda sérstaka ráðstefnu á árinu 2017 með það að markmiði að ganga frá gerð slíks sáttmála og samþykkja hann.

Aðildarríki[breyta | breyta frumkóða]

93 ríki hafa undirritað sáttmálann. Þar af hafa 70 ríki staðfest hann á þjóðþingum sínum (miðað við 16. janúar 2024) og öðlaðist hann formlega stöðu þann 22. janúar 2021.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]