Fara í innihald

Runólfur (ábóti í Viðeyjarklaustri)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Runólfur (d. 1299) var prestur og síðar ábóti í Viðeyjarklaustri, tók við forráðum þar 1250 eftir lát Arnórs Helgasonar, fyrsta ábóta klaustursins, en var ekki vígður fyrr en 1256. Hann átti lengstan embættisferil allra ábóta í Viðeyjarklaustri.

Ekki er ljóst hvers son Runólfur var; hann hefur verið sagður Ólafsson, ef til vill sonur Ólafs Jónssonar á Hofi á Kjalarnesi, en jafnframt er hann sagður hafa verið bróðir Hafurbjarnar Styrkárssonar í Nesi á Seltjarnarnesi, auðugs höfðingja. Kann að vera að þeir hafi verið hálfbræður, sammæðra. Þeir Runólfur og Hafurbjörn voru í liði Þorleifs Þórðarsonar í Görðum í Bæjarbardaga 1237 og særðust þar báðir. Þeir voru einnig heimilismenn Þorleifs um tíma.

Runólfur virðist hafa auðgað klaustrið og haldið vel á fjármálum þess. Hann er getið í ýmsum heimildum og meðal annars er vitað að hann var ásamt fleiri helstu fyrirmönnum landsins í brúðkaupsveislu á Möðruvöllum í Eyjafirði, þar sem Sigurður seltjörn Sighvatsson, stjúpsonur Hafurbjarnar bróður Runólfs, giftist Valgerði Hallsdóttur frá Möðruvöllum, systur Þórðar riddara þar.

Runólfur stýrði klaustrinu til dauðadags og hefur ofðið háaldraður, sennilega fæddur um eða skömmu eftir 1210. Ábóti næstur á eftir honum var Andrés drengur en hann var þó ekki vígður fyrr en 1305.

  • „Viðeyjarklaustur. Sunnudagsblað Tímans, 23. júlí 1967“.
  • „Um klaustrin á Íslandi. Tímarit hins íslenzka bókmenntafélags, 8. árgangur 1887“.