Ristill (sjúkdómur)

Ristill eða herpes zoster er veirusjúkdómur sem orsakast af hlaupabólu-ristilveiru (Varicella zoster) og birtist með sársaukafullum smáblöðrum. Sjúkdómurinn er endurvakning á hlaupabóluveirunni sem kemur venjulega upp mörgum árum eftir upprunalegu sýkinguna.[1]
Eftir að hlaupabóla gengur yfir fer hlaupabóluveiran úr húðinni eftir taugum inn að taugarótum og leggst í dvala. Veiran fer sömu leið út í húðina aftur þegar hún er endurvakin. Ekki er ljóst hvaða þættir endurvekja veiruna. Ristill er algengastur hjá fólki yfir sextugt og fólki með veiklað ónæmiskerfi en sjúkdómurinn getur komið upp hjá fólki á öllum aldri. Sjúkdómurinn getur verið vísbending um að ónæmiskerfið starfi ekki rétt vegna ónæmisbælingar, til dæmis vegna lyfjameðferðar eða alnæmis.[1]
Ristill er smitandi og getur valdið hlaupabólu hjá fólki sem ekki hefur fengið hlaupabólu áður. Hjá 90% fólks leggst veiran aftur í dvala innan mánaðar frá því að sjúkdómseinkennin birtust.[1] Flestir fá ristil aðeins einu sinni eða tvisvar á ævinni.[2]
Einkenni ristils eru sársaukafull útbrot sem birtast venjulega sem stök rönd eða svæði á annarri hlið líkamans, oft á bol eða andliti. Yfir þau myndast blöðrur sem rofna og sporpa. Áður en útbrotin koma fram finnst kláði, náladofi eða sviðatilfinning. Ristill getur valdið fylgikvillum eins og viðvarandi taugaverkjum sem geta varið í nokkra mánuði eða ár. Ef ristill hefur áhrif á augu getur það leitt til augnsýkinga eða sjónskerðingar.[3] Einkennin eru mismikil og fara yfirleitt eftir staðsetningu útbrotanna og aldri og heilsu hins smitaða. Útbrotin eru yfirleitt einungis öðru megin á líkamanum, fylgja ákveðnu taugasvæði og fara ekki yfir miðlínu.[4] Útbrotið er vanalega eins og band eða belti í laginu.[5]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 1,2 Doktor.is (8. janúar 2009). „Hvað er ristill lengi að ganga yfir?“. Vísindavefurinn. Sótt 27. mars 2025.
- ↑ „Ristill“. www.doktor.is. Doktor.is. Sótt 27. mars 2025.
- ↑ „Ristill (Herpes zoster)“. vaccination-info.europa.eu. Evrópska upplýsingagáttin um bólusetningu. Sótt 27. mars 2025.
- ↑ „Ristill“. www.hudvaktin.is. Húðvaktin. Sótt 27. mars 2025.
- ↑ „Ristill“. www.heilsuvera.is. Heilsuvera. Sótt 27. mars 2025.