Refskák
Refskák er borðspil eða tafl þar sem tveir tefla. Annar leikmaður hafði tófu en hinn 13 (eða 15) lömb. Tófan var sett á mitt taflborðið og lömbin á 13 (eða 15) reiti. Tófan átti að reyna að drepa sem flest lömb með að hoppa yfir þau ef auður reitur var við hliðina á reit lambsins. Lömbin áttu hins vegar að reyna að króa tófuna af þannig að hún gæti ekki hreyft sig. Refskák virðist skyld hneftafli. Reitir voru oft strikaðir með krít á rúmfjöl og gler og kaffibaunir eða þorskkvarnir notaðar fyrir lömb og fingurbjörg eða gimburskel fyrir ref.
Tveir spilarar tefla refskák og er annar smalinn sem þarf að sjá um að lömbin haldi hópinn en hinn refurinn sem reynir að tvístra hópnum og hremma lömbin. Smalinn má færa eitt lamb í hverju leik annað hvort áfram eða til hiðar en ekki á ská og ekki til baka. Refurinn má hins vegar líka færa til baka. Ef refur er á næsta reit við lamb og það er auður reitur hinum megin við það þá má hann hoppa yfir lambið og drepa það þannig. Smalinn á því að halda lömbunum í hnapp svo refurinn komist ekki inn í hópinn og reyna að króa refinn þannig af að hann geti ekki hreyft sig.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Guðrún Kvaran. „Af hverju er orðið refskák dregið?“. Vísindavefurinn 4.2.2011. http://visindavefur.is/?id=57859. (Skoðað 1.1.2014).
- Jón Árnason og Ólafur Davíðsson, Íslenzkar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur, bls. 298-299.
- „Refskákin“, Fálkinn 8. árg., 47. tölublað (23.11.1935), blaðsíða 11