Grígoríj Raspútín

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Raspútín)
Grígoríj Raspútín
Григорий Распутин
Fæddur21. janúar 1869
Dáinn30. desember 1916 (46 ára)
ÞjóðerniRússneskur
MakiPraskovja Fjodorovna Dúbrovína ​(g. 1887)
Börn3

Grígoríj Jefímovítsj Raspútín (rússneska: Григорий Ефимович Распутин; 21. janúar 1869 – 30. desember 1916) var áhrifamaður í Rússlandi snemma á 20. öld.

Hann fæddist í litlum bæ, Pokrovskoje, nálægt Tjúmen í Síberíu árið 1869.[1] Það eru ekki til miklar heimildir um æsku hans eða uppvöxt og þær fáu sem til eru skipast mjög í tvennt, skrásetjarar eru annaðhvort mjög með eða á móti honum. En jafnvel hans hörðustu fjandmenn gátu ekki annað en viðurkennt að augnaráð Raspútíns hafi verið dáleiðandi. Hann fór til Sankti Pétursborgar snemma á 20. öld og sagðist helgur maður. Fljótlega átti hann stóran aðdáendahóp sem samanstóð aðalega af konum sem mændu í töfrandi augu hans. Hann fékk síðar starf sem persónulegur græðari keisarafjölskyldunar. Þar varð hann valdamikill maður og hafði mikil áhrif í Rússlandi, hann var svo myrtur af rússneskum aðalsmönnum aðfaranótt 30. desember 1916.[2]

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Yngri ár[breyta | breyta frumkóða]

Pokrovskoje árið 1912. Áin Túra til vinstri.

Lítið er vitað um æsku Raspútíns með vissu. Nítján ára gamall giftist hann Proskovíu Fjodorovnu, sem ól honum fjögur börn. En hjónabandið heillaði ekki Raspútín til lengdar og yfirgaf hann konu sína og börn, hann fór þá á flakk meðal annars til Grikklands og Jerúsalem. Hann lifði af ölmusum og sagðist vera heilagur maður sem gæti læknað þá sjúku og séð í framtíðina. Þar sem svo lítið er um öruggar heimildir um æsku Raspútíns eru til margar goðsagnir um hana. Raspútín var auk þess afar umdeildur maður og bjuggu Rússar til sögur til að geta í eyðurnar, ýmist jákvæðar eða neikvæðar. Þeir sem tortyggðu Raspútín reyndu að sverta mannorð hans og andrúmsloftið í Rússlandi eftir byltingu bolsévika árið 1917 ýtti undir slíkar kjaftasögur, þar sem Raspútín var sérstaklega óvinsæll hjá andstæðingum keisarafjölskyldunnar. Ein sagan er á þá leið að þó að Raspútín hafi gengið í skóla sýndi hann náminu lítinn áhuga en stóð í sífeldu svalli og leiddi þessi lífsstíll hans af sér nafnið Raspútín, sem á rússnesku þýðir sukkari, eða svallari.[3] Þetta er þó ekki rétt, þar sem ættarnafnið Raspútín er eldra en Grígorí sjálfur og faðir hans og forferður báru það líka.[4] Einnig er til saga um að átján ára gamall hafi hann gengið í klaustur, úrkynjað hugmyndir klaustursins og sagt að besta leiðin til að komast sem næst guði væri að drekka og hórast þangað til þú værir útkeyrður.[3] Sú saga er einnig ósönn.

Á þessum tíma voru margir sérstrúarsöfnuðir til staðar í Rússlandi sem stunduðu ýmsan ólifnað svo sem ofsadrykkju, kynsvall, geldingar og aðrar limlestingar í þeim tilgangi að komast nær guði, en Raspútín tilheyrði engum slíkum söfnuði. Hann reyndi þvert á móti að starfa innan rússnesku réttrúnaðarkirkjunnar, en skoðanir á honum þar voru mjög skiptar eins og í samfélaginu öllu. Hann lifði þó engu munkalífi. Margar frásagnir eru til þar sem hann var sagður kyssa og þukla á konum á meðal fylgismanna sinna. Einnig svaf hann gjarnan í herbergi með konum sem komu að heimsækja hann á heimili hans í Pokrovskoje, auk þess sem hann bauð þeim gjarnan að baða sig með sér í ánni Túra. Þegar hann var spurður út í þessa hegðun sagði hann að ekkert kynferðislegt væri þar að baki. Hann vildi aðeins athuga hvort konurnar væru hreinar og móttækilegar fyrir trúarboðskap hans.[4]

Græðari keisarans[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1903 skaut Raspútín svo kollinum upp í Sankti Pétursborg, þar hélt hann predikum sínum áfram og var fljótt komin með hóp fylgdarmanna. Mikill meirihluti þeirra voru konur sem heilluðust af Raspútín og margar þeirra í efstu stétt samfélagsins. Það var því ekki að furða að nafn hans bærist keisarafjölskyldunni til eyrna. En á sama tíma var sonur hans, erfðaprins Rússlands, Aleksej, haldinn dreyrarsýki. Sjúkdóminum var hins vegar haldið leyndum fyrir þegnum landsins og var keisarafjölskyldan haldin þungum áhyggjum. Nikulás II keisari var þar að auki óöruggur í embætti og Alexandra keisaraynja orðin hugsjúk af áhyggjum vegna Aleksei. Keisarahjónin voru því mjög móttækileg fyrir ráðum frá alls konar falsspámönnum og predikurum. Skömmu áður en þau kynntust Raspútin sóttu þau ráðgjöf hjá frönskum falsspámanni. Það vakti miklar deilur innan hirðarinnar og hann var að lokum rekinn frá Rússlandi. Árið 1907 var Raspútín kallaður á fund þeirra Nikulásar keisara og Alexöndru Fjodorovnu, fyrrum prinsessu af Hessen og keisaraynju Rússlands.

Enginn efast um dáleiðslu hæfileika Raspútíns og hafði nærvera hans góð áhrif á Aleksej. Þegar Aleksej var illa haldinn af sjúkdómnum og læknar hans stóðu ráðalausir virtust bænir Raspútíns og handayfirlagningar hans hafa mjög góð áhrif á heilsu drengsins. Með þessu hændi Raspútín Alexöndru keisaraynju að sér en hún trúði því að hann væri í beinu sambandi við æðri máttarvöld og áleit hún hann öðrum mönnum merkari. Því var Raspútin gerður sérlegur ráðsmaður og græðari keisarafjölskyldunnar.[5]

Svall og ólifnaður[breyta | breyta frumkóða]

Raspútín naut lífsins næstu árin og var sídrukkinn og á einhverju siðlausu sukki. Hann átti fjöldann allan af kvenkyns aðdáendum sem fylgdu honum í einu og öllu. Hann sótti oft gufuböð borgarinnar í fylgd kvenna úr ýmsum stéttum samfélagsins. Raspútín svaraði því að konur þyrftu að þvo burt syndir sínar og oft væri eina leiðin til þess sú að sameinast hans heilaga líkama.

Í slúðurblöðum mátti lesa um hamslaust svall hans kvöld eftir kvöld á einhverjum af nautnabúllum borgarinnar en þar dvaldi Raspútín iðulega næturlangt og fannst honum ekki síðra að stíga trylltan dans. Þó að þessir lifnaðarhættir hafi vissulega orðið Raspútín úti um óvini, þá voru það áhrif hans í innanlandsmálum Rússlands sem settu líf hans í hættu.[6]

Ófriðartímar[breyta | breyta frumkóða]

Almenningur í Rússlandi taldi Raspútín hafa slæm áhrif á keisarafjölskylduna.

Miklar breytingar höfðu orðið í Rússlandi á þessum árum og voru byltingarsinnar farnir að vera æ háværari. Nikulás II virtist vera að missa tökin og var löngum sagt að hann hlustaði ekki á neinn nema konu sína. Alexandra var undir áhrifum Raspútíns og varð hann því gífurlega áhrifamikill innan Rússlands.[7][8] Í eyra keisaraynjunar hvíslaði hann svo alls kyns glæfralegu ráðabruggi. Og þegar keisarafjölskyldan fór að sýna Þjóðverjum velvild þá var komið nóg[9] Þessi völd Raspútíns urðu honum að falli. Hann eignaðist marga valdamikla óvini sem sáu sér þá einu leið færa að verða Raspútín að bana til þess að bjarga Rússlandi frá glötun.[10]

Ráðabrugg og morð[breyta | breyta frumkóða]

Það voru aðalsmennirnir Feliks Júsúpov, Vladímír Púríshkevítsj og Dmítríj Pavlovítsj stórhertogi sem hófu að skipuleggja morðið á Raspútín Rússlandi til bjargar, enda voru þeir miklir þjóðernissinnar. Þeir buðu Raspútín í veislu í Majkahöll að kvöldi 29. desember 1916, þar sem hann átti að hitta Írínu, eignkonu Júsúpovs, en hún þótti mjög fögur. Raspútín gat ekki neitað slíku boði enda kvennamaður mikill og hélt því af stað. Þegar komið var til hallarinnar var hann leiddur inn í glæsilegan veislusal þar sem hann þáði vínglas og smákökur. Það sem hann ekki vissi var að þær voru stútfullar af eitri. Eitrið vann þó ekki á hinum heilaga manni og eftir margra tíma bið var ákveðið að nota áætlun B.[11]

Raspútín var þá beðinn að leggjast á bæn fyrir framan kross einn og skaut Júsúpov hann þá í bakið. Raspútín féll fram í grúfu og virtist allur en þegar Júsúpov aðgætti líkið vaknaði Raspútín, stóð á fætur og tók Júsúpov hálstaki. Hann reyndi síðan að flýja en í hallargarðinum beið Púríshkevítsj og lét rigna yfir hann kúlum. Síðan bundu þeir hendur hans og settu hann á sleða sem þeir drógu út að fljótinu. Þar höfðu þeir áður gert stórt gat á ísilagt fljótið og hentu þeir honum undir ísinn. Líkið fannst þremur dögum seinna, með lungun full af vatni. Það var ekki eitrið eða byssukúlurnar sem höfðu banað Raspútín, hann hafði drukknað.[12]

Spádómur Raspútíns[breyta | breyta frumkóða]

Rétt fyrir dauða sinn skrifaði Raspútín bréf til keisarans og spáði fyrir að hann yrði allur áður en árið væri á enda: „Ef venjulegir rússneskir bændur ganga af mér dauðum þarf keisarinn ekkert að óttast, þá ríkja afkomendur hans yfir Rússlandi um aldir. Ef morðingjarnir eru hins vegar af aðalsættum verður öll keisarafjölskyldan tekin af lífi. Ef ættingjar keisarans drepa mig lifa meðlimir keisarafjölskyldunar í mesta lagi næstu tvö ár.“ Spádómurinn reyndist síðan réttur því að byltingasinnar tóku síðar alla keisarafjölskylduna af lífi.[13]

Í dægurmenningu[breyta | breyta frumkóða]

  • Þýska diskóhljómsveitin Boney M samdi lagið Raspútín sem var gefið út árið 1978. Söngvari hljómsveitarinnar lést á tónleikaferðalagi í Sankti Pétursborg 30. desember árið 2010 eftir að hafa lesið bók um Raspútín.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Encylopædia Britannica 2012
  2. Encylopædia Britannica 2012
  3. 3,0 3,1 Sagan öll 2010: 44.
  4. 4,0 4,1 Smith, 2016.
  5. Encylopædia Britannica 2012.
  6. Sagan öll 2010:47
  7. Einar Már Jónsson o.fl. 1981: 53.
  8. Sagan öll 2010: 44.
  9. Sagan öll 2010: 48.
  10. Einar Már Jónsson o.fl. 1981: 53.
  11. Sagan öll 2010: 48-49.
  12. Sagan öll 2010: 49.
  13. Sagan öll 2010: 49.

Heimildaskrá[breyta | breyta frumkóða]

  • Einar Már Jónsson, Loftur Guttormsson og Skúli Þórðarsson. 1981. Mannkynssaga. Tuttugasta öldin. Fyrra bindi (1914-1945). Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík.
  • Encyclopædia Britannica Online, s. v. „Grigory Yefimovich Rasputin“, skoðað 21. mars 2012, http://www.britannica.com/EBchecked/topic/491776/Grigory-Yefimovich-Rasputin.
  • Smith, Douglas. 2016. Rasputin: The Biography. MacMillan.