Fara í innihald

Rashtriya Swayamsevak Sangh

Hnit: 21°08′46″N 79°06′40″A / 21.146°N 79.111°A / 21.146; 79.111
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Rashtriya Swayamsevak Sangh
Meðlimir RSS á göngu í Bhopal.
SkammstöfunRSS
Stofnun27. september 1925; fyrir 98 árum (1925-09-27)
GerðSjálfboðasamtök, hernaðarhreyfing
HöfuðstöðvarFáni Indlands Dr. Hedgewar Bhawan, Sangh Building Road, Nagpur, Maharashtra - 440032
StaðsetningIndland
Hnit21°08′46″N 79°06′40″A / 21.146°N 79.111°A / 21.146; 79.111
Sarsanghchalak (höfðingi)Mohan Bhagwat
LykilmennK. B. Hedgewar (stofnandi)
Vefsíðawww.rss.org

Rashtriya Swayamsevak Sangh, skammstafað RSS (ísl. „Þjóðarsjálfboðasamtökin“[1] eða „Þjóðarsamtök föðurlandsvina“[2]) eru sjálfboða- og hernaðarsamtök hægrisinnaðra hindúskra þjóðernissinna á Indlandi.[3][4][5] Samtökin voru stofnuð árið 1925 að undirlagi indverska læknisins Keshav Baliram Hedgewar og helgast formlega af ósérhlífinni þjónustu í þágu indversku þjóðarinnar. Gagnrýnendur hreyfingarinnar hafa gjarnan útmálað RSS sem öfgahægrihreyfingu.[6][7] Auk þess að leggja áherslu á mikilvægi trúarbragðanna ganga meðlimir RSS út frá kynþáttamiðaðri skilgreiningu á indversku þjóðerni. Núverandi stjórnarflokkur Indlands, Bharatiya Janata-flokkurinn, hefur ætíð átt í nánu sambandi við RSS-samtökin og er stundum talinn stjórnmálaarmur þeirra.

Rashtriya Swayamsevak Sangh var í upphafi stofnað sem fræðsluhópur til þess að auka samheldni innan hindúasamfélagsins[8] og berjast gegn nýlendustjórn Breta og gegn aðskilnaðarstefnu indverskra múslima.[9] Hreyfingin hafði ýmsar evrópskar öfgahægrihreyfingar að fyrirmynd,[10][9] meðal annars Nasistaflokkinn í Þýskalandi.[11] Meðlimir RSS voru virkir í ýmsum stjórnmála- og þjóðfélagshreyfingum, meðal annars í indversku sjálfstæðisbaráttunni.[5] RSS varð þannig ein umsvifamesta þjóðernishreyfing hindúa.[9] Á breska nýlendutímanum áttu samtökin þó ekki í alslæmu sambandi við nýlenduyfirvöldin og sumir meðlimir RSS aðhylltust þá stefnu að starfa með breska heimsveldinu til þess að geta barist gegn indverskum múslimum, sem þeir álitu höfuðóvini hreyfingarinnar.[12]

Samtökin voru bönnuð einu sinni af bresku nýlendustjórninni[9] og þrisvar af ríkisstjórn Indlands eftir sjálfstæði landsins: Árið 1948 eftir að Nathuram Godse, meðlimur í RSS,[13][14][15] myrti Mahatma Gandhi,[9][16][17] árin 1975 til 1978 á tíma neyðarástandsins og loks árið 1992 eftir að hindúskir þjóðernissinnar lögðu moskuna Babri Masjid í Ayodhya í rúst.

Á öðrum áratugi 21. aldar kom RSS á fót andlegri og læknisfræðilegri fæðingarhjálp undir nafninu Garbh Vigyan Sanskar fyrir hindúskar konur. Hjálpin er innblásin af Lebensborn-áætlun (ísl. „Lífslind“) nasista og gengur út á að hjálpa konunum að ala „sérsniðin“ börn svo þau verði „fullkomin, hávaxin og ljós yfirlitum“ og gædd mikilvægum „hugrænum eiginleikum“.[11][18]

Samtökin hafa á síðustu árum borið ábyrgð á ofbeldi og drápum gegn kristnum Indverjum[19] og gegn kommúnistum.[20] Í mótmælum sem fóru fram árið 2020 gegn nýrri lagasetningu sem gagnrýnendur telja beinast gegn indverskum múslimum stóðu meðlimir RSS fyrir ofbeldisfullum hefndaraðgerðum gegn mótmælendum og múslimum. Mörg tilvik pyntinga, íkveikja og annars áreitis náðust á myndband og var dreift á samfélagsmiðlum. Sum myndböndin benda til þess að lögregla hafi tekið þátt í hefndaraðgerðunum ásamt meðlimum RSS. Í átökum sem stóðu frá 23. til 28. febrúar voru 42 manns drepnir og rúmlega 200 særðir.[21]

RSS-samtökin njóta verulegra áhrifa innan indverska menntamálaráðuneytisins og hafa staðið fyrir útgáfu nýrra kennslubóka þar sem mörg atriði í sögu Indlands eru endurskoðuð. Í kennslubókunum er aukin áhersla lögð á innrásir múslimaþjóða í Indland og ýkt mynd dregin upp af blóðsúthellingum þeirra á hindúum. Jafnframt er hlutverk tiltekinna leiðtoga í sjálfstæðisbaráttu Indlands, sér í lagi forsætisráðherrans Jawaharlals Nehru (sem var hlynntur veraldlegu og fjölþjóðlegu Indlandi), talað niður í bókunum og aukin áhersla lögð á hlutverk hindúskra þjóðernissinna. Samtökin eru mótfallin ríkisafskiptum af efnahagslífinu og því hafa mörg fyrirtæki og viðskiptamenn veitt þeim fjárstyrki.[12]

Sjá einnig[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. „Rashtriya Swayamsevak Sangh (RSS)“.
 2. James Lutz M.; Brenda J. Lutz (2008). Global Terrorism. Taylor & Francis. bls. 303. ISBN 978-0-415-77246-4. Sótt 5. mars 2021.
 3. Julien Bouissou (25. mars 2016). „En Inde, des ultranationalistes rêvent d'une nation hindoue « pure »“ (franska). Le Monde. Sótt 5. mars 2021.
 4. John McLeod (2002). The history of India. Greenwood Publishing Group. bls. 209. ISBN 978-0-313-31459-9. Sótt 5. mars 2021.
 5. 5,0 5,1 Walter K. Andersen; Shridhar D. Damle (1987). The Brotherhood in saffron: the Rashtriya Swayamsevak Sangh and Hindu revivalism (enska). Boulder: Westview Press. bls. 111. ISBN 0-8133-7358-1.
 6. Eric S. Margolis (2000). War at the Top of the World : The Struggle for Afghanistan, Kashmir and Tibet. Taylor & Francis Group. bls. 95. ISBN 978-0-415-93062-8. Sótt 5. mars 2021.
 7. The RSS: Militant Hinduism eftir Jean A. Curran, Jr. Far Eastern Survey, Vol. 19, No. 10 (17. maí 1950), bls. 93-98. Institute of Pacific Relations.
 8. Walter K. Andersen; Shridhar D. Damle (1987). The brotherhood in saffron : the Rashtriya Swayamsevak Sangh and Hindu revivalism. Westview Press. bls. 2.
 9. 9,0 9,1 9,2 9,3 9,4 Stephen E. Atkins (2004). Encyclopedia of modern worldwide extremists and extremist groups. Greenwood Publishing Group. bls. 264. ISBN 978-0-313-32485-7. Sótt 5. mars 2021.
 10. Julien Bouissou (9. mars 2018). „L'Inde dans une bataille identitaire“ (franska). Le Monde. Sótt 5. mars 2021.
 11. 11,0 11,1 Lina Sankari (30. júlí 2017). „Inde. Modi rêve d'une race supérieure“. L'Humanité. Sótt 5. mars 2021.
 12. 12,0 12,1 „Christophe Jaffrelot : «Modi ne parle plus d'emploi ni de développement, il se concentre sur la sécurit黓. Libération.fr (franska). 1. maí 2019. Sótt 5. mars 2021.
 13. Dr. Krant'M.L.Verma Swadhinta Sangram Ke Krantikari Sahitya Ka Itihas (Part-3) bls. 766
 14. Jha, Dhirendra K. „The Apostle of Hate“. The Caravan. Delhi Press. Sótt 8. janúar 2020.
 15. Venugopal, Vasudha (8. september 2016). „Nathuram Godse never left RSS, says his family“ – gegnum The Economic Times.
 16. „RSS releases `proof' of its innocence“ (enska). Chennai, India: The Hindu. 18. ágúst 2004. Afrit af upprunalegu geymt þann 5. september 2004. Sótt 5. mars 2021.
 17. Gerald James Larson (1995). India's Agony Over Religion: Confronting Diversity in Teacher Education. State University of New York Press. bls. 132. ISBN 0-7914-2412-X.
 18. „RSS wing has prescription for fair, tall 'customised' babies“ (enska). The Indian Express. 7. maí 2017. Sótt 5. mars 2021.
 19. Isabelle Goepp (18. desember 2016). „Inde : des chrétiens brutalement battus après avoir chanté Noël“ (franska). Journal Chrétien. Sótt 5. mars 2021.[óvirkur tengill]
 20. Akhel Mathew (19. desember 2016). „A dozen RSS men in Kerala get life terms for murder of CPM activist“. GulfNews. Sótt 5. mars 2021.
 21. „Inde : qui sont les RSS, les nationalistes hindous accusés de violence et d'humiliations envers les musulmans“. Les Observateurs de France 24. 28/02/2020.