Ragnar Ásgeirsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Ragnar Ásgeirsson, f. 6. nóvember 1895 á Kóranesi á Mýrum, d. 1. janúar 1973 í Reykjavík, var íslenskur garðyrkjuráðunautur og rithöfundur. Hann var þekktur fyrir starf sitt sem garðyrkjuráðunautur Búnaðarfélags Íslands og fyrir að safna þjóðlegum fróðleik og sögnum, og komu bækur út eftir hann um þetta efni. Auk þess starfaði hann að undirbúningi og stofnun minjasafna víða um land.

Ætt og uppruni[breyta | breyta frumkóða]

Foreldrar Ragnars voru hjónin Ásgeir Eyþórsson, kaupmaður á Mýrum og í Straumfirði, seinna bókhaldari í Reykjavík, og Björg Matthíasdóttir frá Holti í Reykjavík. Árið 1901 flutti Ragnar með foreldrum sínum til Reykjavíkur og ólst þar upp, en dvaldi einnig löngum í Knarrarnesi hjá frændum sínum, og í Vík í Mýrdal hjá föðursystur sinni. Þegar fjölskyldan flutti til Reykjavíkur bjuggu þau í húsinu Holti við Skólavörðustíg. Á þessum tíma rak Einar Helgason garðyrkjumaður Gróðrarstöð Búnaðarfélagsins við Laufásveg, og þar fékk Ragnar Ásgeirsson sumarvinnu í nokkur ár fyrir fermingu. Í Gróðrarstöðinni kynntist hann margvíslegri ræktun sem kveikti hjá honum áhuga sem átti eftir að leggja grundvöll að löngu ævistarfi á þessu sviði.

Nám og starf að garðyrkjumálum[breyta | breyta frumkóða]

Árið sem hann var fermdur hélt Ragnar Ásgeirsson til Danmerkur í garðyrkjunám. Hann hélt til Kaupmannahafnar, en móðursystur hans voru þá búsettar þar. Hann stundaði vinnu hjá ýmsum aðilum þar ytra um sinn, en árið 1914 innritaðist hann í garðyrkjuskólann í Velvorde í Charlottenlund, en sá skóli var þekktur á sínu sviði í Danmörku. Frá þessum skóla útskrifaðist hann með garðyrkjupróf árið 1916. Sama árið og hann útskrifaðist úr þessum skóla var hann ráðinn þar kennari í tvö ár, til ársins 1918. Næstu tvö árin vann hann að garðyrkjustörfum í Danmörku og lagði sérstaka stund á ræktun skrúðgarða, og lauk prófi í skrúðgarðyrkjurækt. Árið 1920 flutti Ragnar aftur til Íslands, fékk starf hjá Búnaðarfélagi Íslands og tók þá að sér yfirumsjón með gróðrarstöð félagsins við Laufásveg. Gróðrarstöðin var flutt frá Laufásvegi þegar stækkun borgarinnar gerði staðsetningu hennar þar óhentuga. Ný gróðrarstöð var reist að Laugarvatni og flutti hann þangað með fjölskyldu sinni árið 1932. Árið 1940, eftir 8 ár á Laugarvatni, var ákveðið að leggja gróðrarstöðina þar niður, því önnur starfsemi, Húsmæðraskóli Suðurlands, þurfti á plássinu að halda. Flutti Ragnar þá til Borgarness þar sem hann bjó í þrjú ár, eða til ársins 1943. Það ár flutti hann til Hveragerðis í hús sem Búnaðarsambandið átti. Þar var nokkur lóð til garðyrkju og jarðræktar en mun minni en verið hafði á Laugarvatni. Í Hveragerði bjó fjölskyldan til ársins 1961, að flutt var til Reykjavíkur, en þar átti Ragnar heima það sem eftir var ævinnar. Ragnar var ritari Búnaðarþings í meira en 30 ár, og sá um að færa allar samþykktir og gjörðir þingsins í fundargerðabækur.

Söfnun muna og minja, skráning sagna og starf að byggðasöfnum[breyta | breyta frumkóða]

Ragnar Ásgeirsson starfaði hjá Búnaðarfélagi Íslands í liðlega hálfa öld, og á þeim starfsferli heimsótti hann allar eða flestar sveitir landsins. Þótt aðalstarfið væri á sviði garðyrkju, þar sem hann fór sem ráðunautur til að aðstoða bændur og aðra við að rækta grænmeti, kartöflur, róur og hvaðeina annað, og að velja hentuga staði fyrir slíka ræktun, var áhugamál hans annað. Ragnar safnaði þjóðlegum fróðleik frá fyrri tímum, gömlum sögnum, frásögnum af fólki og atburðum liðinna alda, vísum og kvæðum. Þetta skráði hann hjá sér og hélt til haga. Á ferðum sínum um landið áratugum saman hafði hann einstakt tækifæri til að gera þetta. Áhugi hans á varðveislu gamalla muna sem tengdust verkmenningu og þjóðlífi liðinna alda var mikill. Söfnun fornra muna og minja einkenndi mjög síðari hluta starfsferils hans hjá Búnaðarsambandinu. Árið 1948 fóru Skagfirðingar þess á leit við Ragnar að hann hefði umsjón með uppsetningu minjasafnins á Glaumbæ, og gerði hann það. Þetta var fyrsta minjasafnið sem hann starfaði að, og sá um söfnun gripa og annarra sögulegra minja fyrir.

Ritstörf og listaáhugi[breyta | breyta frumkóða]

Allt til starfsloka safnaði Ragnar sögnum og fróðleik í sveitum landsins, og árið 1957 kom fyrsta bindi Skruddu út. Búnaðarfélag Íslands gaf bókina út, en hún var prentuð í Prentverki Odds Björnssonar á Akureyri. Bókin er 336 bls., með frásögnum úr öllum sýslum landsins. Margt að því sem þar er hefur Ragnar skráð eftir gömlu fólki sem hann hitti á ferðum sínum. Árið 1958 kom 2. bindi Skruddu út, frásagnir af Páli presti Jónssyni (f.1779) sem þekktur var undir nafninu Páll skáldi. Bókin, sem er 267 bls. að stærð, er í raun ævisaga Páls skálda, en Ragnar Ásgeirsson var einn af afkomendum hans. Þriðja bindi Skruddu kom út árið 1959. Það er safn af sögum, sögnum og kveðskap úr öllum landshornum, eins og fyrst bindið, 241 bls. að stærð. Sumt af því sem varðveist hefur í þessum bókum er hvergi til annars staðar. Páll Ólafsson, skáld, var meðal þeirra skálda sem Ragnar safnaði vísum eftir og birti í Skruddu. Ragnar var í góðu vinfengi við Jóhannes Kjarval, listmálara, átti myndir eftir hann og studdi hann og útvegaði kaupendur að málverkum hans á þeim árum sem Kjarval var enn ekki orðinn þekktur. Höskuldur Björnsson, málari, bjó i Hveragerði þegar Ragnar var þar, og sá Ragnar um kynningar og útvegaði kaupendur að myndum hans.[1]

Bækur, bæklingar og greinar skrifaðar af Ragnari Ásgeirssyni[breyta | breyta frumkóða]

  • Frá Eystri byggð á Grænlandi. Reykjavík 1965.
  • Um kartöflur. Reykjavík 1932.
  • Rejseskildring for deltagere i N.B.C. årsmöde i Reykjavík 4.-5. august 1952.
  • Strákur, hérlendis og erlendis. Lampinn, Akureyri, 1942.
  • Landshorna milli. Geymdar stundir, 4. bindi, bls. 23-29. Reykjavík 1988.
  • Um notkun og ræktun kartaflna. Almanak Hins íslenzka þjóðvinafélags. ; 1933; 59: bls. 67-82.
  • Vígða laugin. Kirkjuritið ; 1940; 6 (2): bls. 59-63.
  • Frístundir, tímaritsgrein, Akranes, 1. árg., 2 tbl. Akranesi 1942.
  • Skrudda I, II og II. Útg. Búnaðarfélag Íslands 1957 til 1959. Prentverk Odds Björnssonar, Akureyri.[2]

Fjölskylda og afkomendur[breyta | breyta frumkóða]

Eiginkona Ragnars Ásgeirssonar var Margrethe Harne Ásgeirsson frá Árósum, g. 11. janúar 1921, f. 20.02.1895, d. 12.01.1971. Þau voru gift í 50 ár eða þar til Gréta, eins og hún var oftast kölluð, andaðist. Börn þeirra voru fjögur: Eva, f. 14.07.1921, d. 12.06.2019, kona Önundar Ásgeirssonar f. 14.08.1920, d. 02.02.2015, forstjóra Olíuverslunar Íslands, Olís, í Rvk. Úlfur, f. 29.09.1923, d. 01.10.2008, læknir, kvæntur Ástu Guðvarðardóttur, f. 29.11.1923, d. 28.10.2017. Sigrún Harne, f. 29.11.1924, d. 11.08.2002, teiknikennari, Rvík., og Haukur, f. 3.10.1929, d. 05.08.2006, skógfræðingur hjá Skógrækt ríkisins að Mógilsá, kvæntur Ásdísi Alexandersdóttur, f. 12.07.1931, d. 15.10.2016, fyrrv. flugfreyju. Þess má geta hér að Ragnar Ásgeirsson var bróðir Ásgeirs Ásgeirssonar, 2. forseta lýðveldisins.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Ragnar Ásgeirsson garðyrkjuráðunautur“.
  2. „Ragnar Ásgeirsson, 1895-1973, höfundur“.