Fara í innihald

Rafeindapappír

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Rafrænn pappír)
Stafrænn bókalesari sem notar rafeindapappír.

Rafeindapappír[1] (líka rafpappír eða rafrænn pappír) er ákveðin gerð af tölvuskjá sem birtir mynd eða texta með því að líkja eftir bleki á venjulegum pappír. Ólíkt flatskjám sem eru upplýstir og nota bakljós til að lýsa upp díla, endurkastar rafeindapappír ljósi eins og venjulegur pappír og getur haldið texta og myndum stöðugt á skjánum án þess að eyða rafmagni. Rafmagn þarf til að skipta um mynd á skjánum.

Til eru nokkrar ólíkar gerðir af rafeindapappír, sumar eru úr plasti og eru því sveigjanlegar. Talið er þægilegra að lesa af rafeindapappír en af venjulegum skjá, vegna þess að myndin er stöðug, en á tölvuskjá endurnýjast myndin með ákveðinni tíðni. Einnig er hægt að skoða rafeindapappír frá fleiri sjónarhornum en er hægt á venjulegum skjá, af því að notað er umhverfisljós í staðinn fyrir bakljós. Einnig er hægt að lesa af rafeindapappír í beinu sólarljósi án þess að myndin dofni. Rafeindapappír er léttur og meðfærilegur og getur sýnt myndir í litum. Frá og með 2008 er skerpa rafeindapappírs svipuð því sem er í prentuðum bókum og dagblöðum, en ný tækni er betri.[2] Nú keppast framleiðendur við að finna upp rafeindapappír sem getur sýnt myndir í öllum litum.

Rafeindapappír má nota í margvíslegum tilgangi, til dæmis í verðmiða og skilti í verslunum,[3] tímaáætlanir á biðstöðvum, auglýsingaskilti, farsíma og lestölvu.[4] Rafeindapappír er ólíkur stafrænum pappír, sem er „skjár“ sem hægt er að skrifa á með stafrænum penna og búa til stafræn skjöl.

  1. „Rafeindapappír skrefi nær framleiðslu“. Morgunblaðið. Sótt 22. desember 2009.
  2. „IRex Takes On The Kindle“. Sótt 22. desember 2009.
  3. „SiPix pricing labels“. Sótt 22. desember 2009.
  4. Notkun orðsins „rafrænn bókalesari“, „Sigurvegarar kreppunnar koma úr óvæntri átt - kreppan mótar markað framtíðarinnar“. Pressan. Sótt 22. desember 2009.
  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.