Fara í innihald

RES Orkuskóli

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Merki skólans

RES - Orkuskólinn var alþjóðleg háskólastofnun á sviði endurnýjanlegra orkugjafa sem tók formlega til starfa á Akureyri, Sumardaginn fyrsta 20. apríl 2006. Enskt heiti skólans er RES - The School for Renewable Energy Science. Skólinn hætti starfsemi árið 2011.

Meginverkefni RES

[breyta | breyta frumkóða]

Meginverkefni RES er að útskrifa meistaranema í vistvænni orkunýtingu. Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri veita sameiginlega hina formlegu M.Sc. gráðu í endurnýjanlegum orkugjöfum. Það er samkvæmt samstarfssamningi háskólanna við RES.[1][2][3]

Fimm sérsvið endurnýjanlegra orkugjafa

[breyta | breyta frumkóða]

Á vegum RES og samstarfsaðila er boðið upp á meistaranám upp á 45 einingar eða 90 ECTS samkvæmt Bologna-ferlinu um samræmingu háskólastigs í Evrópu.

Á námsárinu 2010 býður skólinn upp á nám á fimm sérsviðum: Jarðhita; efnarafalar og vetni; lífmassi; vatnsafl; og sérstakri braut á sviði orkukerfa og orkustjórnun.

Gert er ráð fyrir því að á komandi árum verði að auki kenndar brautir á sviði vindorku, öldu- og sjávarfallaorku annars vegar og sólarorku hins vegar.

Starfssvæði

[breyta | breyta frumkóða]

Höfuðstöðvar RES eru á Akureyri en að auki starfar skólinn í Reykjavík í samstarfi við Háskóla Íslands og í Reykjanesbæ í samstarfi við Keili. Allmargir meistaranemendur sækja síðan erlenda samstarfsskóla heim vegna lokaverkefna.

Á fyrsta starfsári meistaranámsins 2008-9 útskrifuðust 30 kandídatar frá níu þjóðríkjum. Þeir koma frá Bandaríkjunum, Lettlandi, Portúgal, Póllandi, Rússlandi, Slóvakíu, Slóveníu, Tékklandi, Ungverjalandi og Þýskalandi.

Á öðru starfsári meistaranámsins 2009-10 útskrifuðust 35 kandídatar frá 11 þjóðríkjum. Þeir komu frá Bandaríkjunum (7), Íslandi (2), Finnlandi (1), Eistlandi (1), Póllandi (14), Kazakhstan (1), Slóvakíu (2), Slóveníu (1), Ungverjalandi (2), Mexíkó (3) og Chile (1).

Námsárið 2010-2011 er áætlað að 49 meistaranemar frá 12 þjóðríkjum útskrifist frá skólanum. Þeir koma frá Bandaríkjunum (8), Frakklandi (1), Íslandi (4), Eistlandi (1), Póllandi (27), Rússlandi (1), Malasíu (1), Slóvakíu (1), Slóveníu (1), Kanada (2), Spáni (1) og Þýskalandi (1).

Að auki hafa ýmsir sótt einstaka námskeið einkum yfir sumartímann.

Starfslið og kennarar RES

[breyta | breyta frumkóða]

Stór hluti kennara RES er alþjóðlegur en að skólanum koma einnig prófessorar og kennarar frá Háskólanum á Akureyri, Háskóla Íslands, ÍSOR, og innlendum orku- og verkfræðifyrirtækjum. Af alþjóðlegu starfsliði skólans eru flestir með prófessorstöðu við samstarfsskóla RES. [4]

Á starfsárinu 2010-11 eru samtals 65 alþjóðlegir sérfræðingar að kenna við meistaranám RES. 35 þeirra koma erlendis frá og 30 þeirra eru íslenskir. Því til viðbótar koma 16 sérfræðingar einkum frá íslenskum orku- og verkfræðifyrirtækjum að lokaverkefnum nemenda.

Einkarekin háskólastofnun

[breyta | breyta frumkóða]

RES Orkuskólinn er einkarekin mennta- og vísindastofnun, en starfar án ágóðasjónarmiða. Það er einkahlutafélagið Orkuvörður sem starfrækja RES Orkuskóla. Eigendur Orkuvarða ehf. eru Þekkingarvörður ehf., RARIK, KEA, Gift fjárfestingafélag, Landsvirkjun, Norðurorka, Akureyrarbær og Landsbanki Íslands. Að stofnun RES hafa komið margvísleg innlend fyrirtæki og stofnanir en að auki byggir skólinn byggir á formlegu samstarfsneti bæði innlendra- og erlendra rannsóknar- og háskólastofnanna.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Samstarfsyfirlýsing RES og Háskóla Íslands“. Menntamálaráðuneytið. 27. apríl 2006. Afrit af upprunalegu geymt þann 26. apríl 2012. Sótt 11. september 2007.
  2. „Samstarfsyfirlýsing RES og Háskólans á Akureyri“. Menntamálaráðuneytið. 27. apríl 2006. Afrit af upprunalegu geymt þann 26. apríl 2012. Sótt 11. september 2007.
  3. „Samstarfsyfirlýsing RES og Íslenskra orkurannsókna(ÍSOR)“. Menntamálaráðuneytið. 27. apríl 2006. Afrit af upprunalegu geymt þann 26. apríl 2012. Sótt 11. september 2007.
  4. „Yfirlit yfir kennara RES“. RES. 1. febrúar 2010. Afrit af upprunalegu geymt þann 11. janúar 2010. Sótt 1. febrúar 2010.