Fara í innihald

Rómversk kveðja

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Eiður Hórasarbræðra (1784) eftir Jacques-Louis David.

Rómversk kveðja eða fasistakveðja er kveðja sem felst í því að rétta fram hægri handlegg, láta lófann snúa niður og hafa útrétta fingurna saman. Í sumum útgáfum er handleggurinn reistur upp en í öðrum er hann hafður láréttur og samhliða jörð. Í dag eru kveðjur af þessu tagi iðulega tengdar við fasisma. Þessi kveðja er gjarnan ranglega sögð byggð á hefðbundinni kveðju sem notuð var í Rómaveldi til forna.[1] Hins vegar er engri slíkri kveðju lýst í neinum rituðum heimildum Rómverja og rómversk listaverk sem sýna kveðjur líkjast lítið hinni svokölluðu „rómversku“ kveðju seinni tíma.[1]

Kveðjan varð fyrst bendluð við Rómverja í málverkinu Eiður Hórasarbræðra (1784) eftir franska listmálarann Jacques-Louis David. Hugmyndin um að kveðjan væri upprunnin frá Rómverjum breiddist út með fleiri nýklassískum listaverkum sem sýndu atriði úr sögu Rómaveldis. Í Bandaríkjunum bjó Francis Bellamy árið 1892 til svipaða kveðju, hina svokölluðu Bellamy-kveðju, til að nota samhliða bandaríska hollustueiðnum. Kveðjan náði auknum vinsældum í kringum aldamót 19. og 20. aldar, sér í lagi í kvikmyndum og leikritum þar sem hún var sögð vera forn rómverskur siður. Þar á meðal má nefna ítölsku kvikmyndina Cabiria frá 1914, sem var skrifuð af þjóðernissinnaða skáldinu Gabriele D'Annunzio. Árið 1919 lét D'Annunzio fylgismenn sína taka upp kveðjuna þegar hann stóð fyrir hernámi í borginni Fiume og stofnaði þar nokkurs konar frum-fasistastjórn.

Áhrif D'Annunzio leiddu til þess að kveðjan var tekin upp af fasistahreyfingu Benito Mussolini. Frá árinu 1923 innleiddi stjórn Fasistaflokksins á Ítalíu kveðjuna smám saman. Kveðjan var síðan tekin upp, sem nasistakveðjan, af Nasistaflokknum í Þýskalandi og var meðlimum flokksins gert skylt að nota hana frá árinu 1926. Kveðjan komst í almenna notkun meðal Þjóðverja eftir valdatöku nasista árið 1933. Kveðjan var tekin upp af fleiri fasískum, öfgahægrisinnuðum og þjóðernisöfgasinnuðum hreyfingum í fleiri löndum.

Frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar hefur nasistakveðjan verið bönnuð með lögum í Þýskalandi, Austurríki, Tékklandi, Slóvakíu og Póllandi. Á Ítalíu gilda vægari reglur um notkun kveðjurnar og deilt hefur verið um lögmæti hennar í réttarframkvæmd.[a][2] Kveðjan er enn notuð af ýmsum hreyfingum nýfasista, nýnasista og falangista.

Neðanmálsgreinar

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Þar sem sögulegur uppruni kveðjunar hefur aldrei verið vefengdur með formlegum hætti er aðeins bannað að nota kveðjuna í því skyni að „vegsama fulltrúa, gildi, viðburði eða aðferðir“ Fasistaflokksins.
  • Winkler, Martin M. (2009). The Roman Salute: Cinema, History, Ideology. Columbus: Ohio State University Press. ISBN 978-0-8142-0864-9.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 Winkler (2009), bls. 2
  2. „Saluto fascista, la Cassazione: "Non è reato se commemorativo" e conferma due assoluzioni a Milano“. la Repubblica (ítalska). Milano. 20 febrúar 2018. Afrit af upprunalegu geymt þann 9 nóvember 2020. Sótt 24 janúar 2025.