Rómversk kveðja

Rómversk kveðja eða fasistakveðja er kveðja sem felst í því að rétta fram hægri handlegg, láta lófann snúa niður og hafa útrétta fingurna saman. Í sumum útgáfum er handleggurinn reistur upp en í öðrum er hann hafður láréttur og samhliða jörð. Í dag eru kveðjur af þessu tagi iðulega tengdar við fasisma. Þessi kveðja er gjarnan ranglega sögð byggð á hefðbundinni kveðju sem notuð var í Rómaveldi til forna.[1] Hins vegar er engri slíkri kveðju lýst í neinum rituðum heimildum Rómverja og rómversk listaverk sem sýna kveðjur líkjast lítið hinni svokölluðu „rómversku“ kveðju seinni tíma.[1]
Kveðjan varð fyrst bendluð við Rómverja í málverkinu Eiður Hórasarbræðra (1784) eftir franska listmálarann Jacques-Louis David. Hugmyndin um að kveðjan væri upprunnin frá Rómverjum breiddist út með fleiri nýklassískum listaverkum sem sýndu atriði úr sögu Rómaveldis. Í Bandaríkjunum bjó Francis Bellamy árið 1892 til svipaða kveðju, hina svokölluðu Bellamy-kveðju, til að nota samhliða bandaríska hollustueiðnum. Kveðjan náði auknum vinsældum í kringum aldamót 19. og 20. aldar, sér í lagi í kvikmyndum og leikritum þar sem hún var sögð vera forn rómverskur siður. Þar á meðal má nefna ítölsku kvikmyndina Cabiria frá 1914, sem var skrifuð af þjóðernissinnaða skáldinu Gabriele D'Annunzio. Árið 1919 lét D'Annunzio fylgismenn sína taka upp kveðjuna þegar hann stóð fyrir hernámi í borginni Fiume og stofnaði þar nokkurs konar frum-fasistastjórn.
Áhrif D'Annunzio leiddu til þess að kveðjan var tekin upp af fasistahreyfingu Benito Mussolini. Frá árinu 1923 innleiddi stjórn Fasistaflokksins á Ítalíu kveðjuna smám saman. Kveðjan var síðan tekin upp, sem nasistakveðjan, af Nasistaflokknum í Þýskalandi og var meðlimum flokksins gert skylt að nota hana frá árinu 1926. Kveðjan komst í almenna notkun meðal Þjóðverja eftir valdatöku nasista árið 1933. Kveðjan var tekin upp af fleiri fasískum, öfgahægrisinnuðum og þjóðernisöfgasinnuðum hreyfingum í fleiri löndum.
Frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar hefur nasistakveðjan verið bönnuð með lögum í Þýskalandi, Austurríki, Tékklandi, Slóvakíu og Póllandi. Á Ítalíu gilda vægari reglur um notkun kveðjurnar og deilt hefur verið um lögmæti hennar í réttarframkvæmd.[a][2] Kveðjan er enn notuð af ýmsum hreyfingum nýfasista, nýnasista og falangista.
Myndasafn
[breyta | breyta frumkóða]-
Rómverska kveðjan var tekin í notkun af ítölskum fasistum frá árinu 1919. Hér sést fólk heilsa Benito Mussolini í heimsókn í Genúa árið 1932.
-
Fasískir „legíónar“ í Járnverðinum í Rúmeníu heilsast með rómversku kveðjunni við útför flokksleiðtogans Corneliu Zelea Codreanu 1938.
-
Bandarísk skólabörn fara með Bellamy-kveðjuna á meðan þau sverja hollustueiðinn að bandaríska fánanum. Bellamy-kveðjan var notuð frá árinu 1892. Frá árinu 1942 voru börn látin leggja hönd á hjartastað á meðan þau sóru eiðinn þar sem Bellamy-kveðjan þótti of lík nasistakveðjunni.
-
Spænskir falangistar fara með rómversku kveðjuna í Zaragoza á tíma spænsku borgarastyrjaldarinnar árið 1936.
-
Myndskreyting á Trajanusarsúlunni sem reist var árið 113, þar sem fólk sést heilsa Trajanusi keisara með útréttum handleggjum. Kveðjan sem sýnd hér er ekki hin sama og síðar var tekin upp af fasistum.
-
„Tennisvallareiðurinn“ (franska: Le Serment du Jeu de paume) eftir Jacques-Louis David frá 1791 sýnir stjórnmálasamkomu í frönsku byltingunni árið 1789. Fulltrúar þriðju stéttarinnar eru sýndir með útrétta handleggi þar sem þeir sverja eið sín á milli.
Neðanmálsgreinar
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Þar sem sögulegur uppruni kveðjunar hefur aldrei verið vefengdur með formlegum hætti er aðeins bannað að nota kveðjuna í því skyni að „vegsama fulltrúa, gildi, viðburði eða aðferðir“ Fasistaflokksins.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Winkler, Martin M. (2009). The Roman Salute: Cinema, History, Ideology. Columbus: Ohio State University Press. ISBN 978-0-8142-0864-9.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 Winkler (2009), bls. 2
- ↑ „Saluto fascista, la Cassazione: "Non è reato se commemorativo" e conferma due assoluzioni a Milano“. la Repubblica (ítalska). Milano. 20 febrúar 2018. Afrit af upprunalegu geymt þann 9 nóvember 2020. Sótt 24 janúar 2025.