Fara í innihald

Róbert Wessman

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Wilhelm Róbert Wessman (f. 4. október 1969) er íslenskur viðskiptafræðingur og forstjóri og eigandi, stofnandi og forstjóri lyfja- og líftæknifyrirtækjanna Alvotech og Alvogen.

Róbert ólst upp á Seltjarnarnesi til sex ára aldurs en fluttist þá í Mosfellsbæ. Foreldrar hans eru Wilhelm Wessman framkvæmdastjóri og Ólöf Svafarsdóttir Wessman snyrtifræðingur. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Sund og útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands árið 1993. Að útskrift lokinni hóf hann störf hjá Samskip þar sem hann starfaði í sjö ár, fyrst í fjárreiðudeild og síðar í söludeild en starfaði einnig í eitt og hálft ár fyrir félagið í Þýskalandi. Um tíma kenndi hann stærðfræði í Háskóla Íslands.

Starfsferill[breyta | breyta frumkóða]

 • Stofnandi og sjórnarformaður, Alvogen
 • Stjórnarmaður, Fuji Pharma Co. Ltd.
 • Stjórnarformaður, Lotus
 • Stofnandi og stjórnarformaður, Alvotech
 • Forstjóri, Actavis

Alvogen[breyta | breyta frumkóða]

Róbert hóf störf í lyfjageiranum árið 1999[1] er hann var ráðinn forstjóri Delta sem síðar sameinaðist Pharmaco en varð svo að fyrirtækinu Actavis árið 2002 en þá tók Róbert við starfi forstjóra þess og gegndi starfinu til ársins 2008.[2] Árið 2009 stofnaði Róbert samheitalyfjafyrirtækið Alvogen í Bandaríkjunum. Eignarhald á félaginu var lengi nokkuð óljóst en árið 2018 birti Morgunblaðið gögn sem sýndu fram á að þriðjungshlutur í félaginu væri undir sjálfseignarstofnun sem Róbert hafði komið á fót á aflandseyjunni Jersey árið 2015.[3]

Í upphafi árs 2021 steig fyrrum samstarfsmaður Róberts hjá Alvotech fram og bar hann þungum sökum og gagnrýndi stjórnarhætti og ósæmilega hegðun Róberts.[4] Stjórn Alvogen rannsakaði starfshætti Róberts og taldi ekki ástæðu til að aðhafast frekar. Alvogen stefndi starfsmanninum fyrir trúnaðarbrot í starfi.[5] Starfsmaðurinn dróg ásakanir sínar til baka 2022 og lýsti yfir trausti á niðurstöður stjórnar um starfshætti Róberts. Sættir í málinu náðust haustið 2022 og Alvogen felldi niður málshöfðunina.[6]

Alvotech[breyta | breyta frumkóða]

Árið 2013 stofnaði Róbert líftæknilyfjafyrirtækið Alvotech. Höfðustöðvar og hátæknisetur Alvotech er í Vísindagörðum Háskóla Íslands í Vatnsmýri í Reykjavík. Fyrirtækið er einnig með starfsemi í Bandaríkjunum, Þýskalandi og Sviss. Alvotech framleiðir og selur líftæknilyfjahliðstæður um allan heim. Róbert er starfandi stjórnarformaður fyrirtækisins.[7] Alvotech var skráð á Nasdaq New York 2022 og á First North markaðinn í Kauphöll Íslands.


Tilvísanir

 1. Vb.is, „Róbert Wessman hættir hjá Actavis“ (skoðað 29. mars 2021)
 2. „Alltaf að spá í næsta leik“, Tímarit Morgunblaðsins, 18. júlí 2004 (skoðað 29. mars 2021)
 3. Mbl.is, „Ljósi varpað á eignarhald Alvogen“ (skoðað 29. mars 2021)
 4. Mbl.is, „„Morðhótanir og líkamsárásir““ (skoðað 29. mars 2021)
 5. „Alvogen stefnir Halldóri Kristmanssyni“. RÚV. 7. apríl 2021. Sótt 7. maí 2021.
 6. freyrgigja (22. nóvember 2022). „Alvogen fellur frá málsókn gegn Halldóri eftir sættir“. RÚV. Sótt 25. nóvember 2022.
 7. „Róbert Wessman - Home | Alvotech | Betra aðgengi. Betra líf“. www.alvotech.is (enska). Sótt 25. nóvember 2022.