Qilakitsoq

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita
Kort af Grænlandi sem sýnir hvar Qilakitsoq er

Qilakitsoq heitir byggð, sem nú er farin í eyði, norðan megin á Nuussuaq-skaganum ekki langt frá þorpinu Uummannaq. Qilakitsoq þýðir Himinhátt enda mjög brattar og háar hlíðar. Þar hafa fundist einar merkilegustu fornleifar á Norðurslóðum. Voru það einstaklega vel varðveittar múmíur yfir 500 ára gamlar.

Það var árið 1972 að bræðurnir Hans og Jokum Grønvold voru í veiðileit að þeir fundu múmíur í hellisskúta. Þeir létu yfirvöld vita af fundinum en það var ekki fyrr en 1977 sem vísindamenn hófu rannsóknir og voru allar múmíurnar þá fluttar til Kaupmannahafnar.

Múmíurnar[breyta | breyta frumkóða]

Fornleifafræðingar hafa komist að mörgu um líf þessara einstaklinga, heilsufar og skyldleika. Hins vegar hefur ekki tekist að sýna fram á dánarorsök með nokkuri vissu fyrir þá flesta. Hér var um að ræða átta einstaklinga, sex konur og tvö börn. Með C-14 aldursgreiningu má sjá að þau hafa dáið um 1475. Þau voru öll vel búin og höfðu með sér auka klæðnað, samanlagt sextán selskinspelsa, sjö pelsa gerða úr fuglaskinni, ein hreindýraskinspels, tólf skinnbuxur auk margra sokka og skinnstígvéla (kamik). Allt sem allt 78 plögg. Fötin voru mjög vel saumuð og tilsniðin, má nefna skinnbuxur úr selskinni sem voru saumaðar úr tíu til þess sniðnum skinnbútum. Innripels úr fuglaskinni var gerður úr skinni af fimm fuglategundum þar sem þétt stutt fiður var notað þar sem halda þurfti hita og grófari fjaðraskinn við hálsmál og ermar til að sleppa út hita. Hefur þessi klæðnaður varðveitts einstaklega vel. Múmíurnar voru varðar veðri inn í hellisskútanum og þurrt loftslag og kuldinn höfðu frystiþurrkað líkin.

Múmíurnar voru í tveim gröfum með um það bil metir á milli. Í annarri gröfinni voru þrjár konur, fjögur ára drengur og sex mánaða ungabarn. Tvær kvennanna voru ungar, önnur milli 20 til 30 og hin 25 til 35. Sú þriðja hafði verið á milli 40 og 50 ára þegar hún dó.

Í hinni gröfinni voru þrjár konur. Tvær um fimmtugt og ein milli 18 og 21 árs aldur.

Rannsókn á múmíunum fór eins varlega fram og hægt var. Tannabreytingar sýndu aldur, DNA-sýni voru tekin tekin úr hári og nöglum til að sjá skyldleika og heilsuástand.

Grænlensk kona árið 1654. Húðflúrið samsvarar húðflúri á múmíunum í Qilakitsoq

Fimm af konunum voru með húðflúr á andliti eins og tíðkaðist meðal Inuítakvenna fram á 19. öld. Allar fimm höfðu þær blár eða svartar línur yfir enni og kinnbein. Þrjár höfðu einnig línur á höku. Tvær höfðu hins vegar púnktamerki á enni í staðin. Bendir það til þess að nokkrar kvennanna hafi gifst inn í fjölskylduhópinn.

Heilsufar[breyta | breyta frumkóða]

Öll höfðu þau verið vel nærð fyrir dauðadag. Matarleifar í innyflum og greining á húð sýnir að megnið af fæðunni voru sjávardýr og einungis um 25 % af landjurtum og landdýrum t.d. hreindýrum. En þau höfðu ekki öll verið við góða heilsu. Með gegnumlýsingu sjást að drengurinn hafði skaðað mjaðmabein og þar að auki svo nefndan Legg-Calvé-Perthes sjúkdóm sem gerði honum erfitt um gang. Ein af eldri konunum hafði illa gróið viðbeinsbrot sem gerði henni erfitt að nota vinstri handlegg. Hún hafði þar að auki krabbamein í nefi sem hafði breiðst út til augnanna. Að öðru leiti virðist heilsufar þessara einstaklinga verð ágætt. Meðalhæð kvennanna var 150 cm sem er sama meðalhæð og er enn hjá Grænlenskum konum.

Skyldleiki[breyta | breyta frumkóða]

Ungabarnið í Qilakitsoq

DNA-greining sýnir að flestir einstaklingarnir höfðu verið skildir. Tvær elstu konurnar í gröf tvö hafa sennilegast verið systur og önnur þeirra móðir yngstu konunnar í gröf eitt. Sú kona hefur verið móðir fjögur ára drengsins sem var grafinn með henni. Önnur hvor hinna yngri kvennanna tveggja var sennilega móðir ungabarnsins en þær systur. Elsta konan í gröf eitt virðist hins vegar ekki hafa verið skyld neinum hinna.

En greftrunin og greftrunarstaðurinn er hins vegar óleyst leyndarmál. Það var ekki siður Inuíta að grafa konur og börn aðskilin frá körlum. Heilsufar eldri drengsins og einnar eldri kvennanna hefur kannski leitt þau til dauða. En eingin vísbending hefur hins vegar fundist um dauðaorsök hinna. Það er ekki heldur víst að þau hafi dáið um sama leiti eða verið lögð til hvílu samtímis. Hugsanlegt er að ungabarnið hafi verið grafið lifandi enda siður Inuíta lengi vel að kæfa eða grafa lifandi ungabörn með mæðrum sínum ef að þær létust.

Múmíurnar voru fluttar aftur til Grænlands 1982 og eru nú til sýnis í Þjóðminjasafninu í Nuuk.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Jens Peder Hart Hansen, Jørgen Meldgaard, Jørgen Nordqvist (Hrsg.): The Greenland Mummies. British Museum Publications, London 1991, ISBN 0-7141-2500-8.
  • Jens Peder Hart Hansen, Jørgen Meldgaard, Jørgen Nordqvist: The Mummies of Qilakitsoq. In: National Geographic Society : National Geographic Magazine. 167, Nr. 2, National Geographic Society, Washington Februar 1985, ISSN 0027-9358.
  • Colin Renfrew and Paul Bahn: Archaeology: Theories, methods and practice (1994) Thames and Hudson. ISBN 0500281475
  • Grønlands forhistorie, rits. Hans Christian Gulløv, Gyldendal 2005, ISBN 87-02-01724-5

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]