Paul Martin
Paul Martin | |
---|---|
![]() Martin árið 2006. | |
Forsætisráðherra Kanada | |
Í embætti 12. desember 2003 – 6. febrúar 2006 | |
Þjóðhöfðingi | Elísabet 2. |
Landstjóri | Adrienne Clarkson Michaëlle Jean |
Forveri | Jean Chrétien |
Eftirmaður | Stephen Harper |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 28. ágúst 1938 Windsor, Québec, Kanada |
Stjórnmálaflokkur | Frjálslyndi flokkurinn |
Maki | Sheila Cowan (g. 1965) |
Börn | 3 |
Háskóli | Háskólinn í Torontó |
Starf | Stjórnmálamaður, lögfræðingur, athafnamaður, rithöfundur |
Undirskrift | ![]() |
Paul Edgar Philippe Martin (f. 28. ágúst 1938) er kanadískur stjórnmálamaður sem var forsætisráðherra Kanada og leiðtogi Frjálslynda flokksins frá 2003 til 2006. Hann var jafnframt fjármálaráðherra Kanada í ríkisstjórn Jeans Chrétien frá 1993 til 2002. Martin myndaði minnihlutastjórn Frjálslynda flokksins eftir þingkosningar í Kanada árið 2004 en tapaði kosningum gegn Íhaldsflokknum árið 2006. Stephen Harper, leiðtogi Íhaldsflokksins, tók við af Martin sem forsætisráðherra þann 6. febrúar 2006.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Paul Martin var einn nánasti samstarfsmaður Jeans Chrétien forsætisráðherra og var lengi fjármálaráðherra í stjórn hans. Undir lok stjórnartíðar Chrétiens slettist upp á vinskap þeirra og Martin var vikið úr stjórninni. Chrétien gaf út að hann hygðist setjast í helgan stein sem leiðtogi Frjálslynda flokksins árið 2003 og var Martin þá kjörinn nýr leiðtogi flokksins. Martin tók við af Chrétien sem forsætisráðherra Kanada þann 12. desember 2003.[1]
Þegar Martin tók við stjórnartaumunum stokkaði hann upp í stjórninni og lagði áherslu á að marka skil milli sinnar stjórnar og stjórnar Chrétiens. Hann sagðist sammála ákvörðun Chrétiens um að Kanada tæki ekki þátt í Íraksstríðinu með Bandaríkjunum og Bretum en gagnrýndi þó hvernig Chrétien hefði komið afstöðu Kanada til skila. Hann sagðist mótfallinn því að lögleiða kannabis en vildi þó beita sektum í forvarnarskyni fremur en fangelsisvist.[1]
Martin boðaði til kosninga í júní 2004 og sagðist telja að hann gæti myndað meirihlutastjórn að þeim loknum.[2] Frjálslyndi flokkurinn tapaði þingmeirihluta sínum í kosningunum en var áfram stærsti flokkurinn. Martin varð því að mynda minnihlutastjórn.[3]
Í stjórnartíð Martins andaði áfram köldu milli Kanada og Bandaríkjanna, sér í lagi eftir að Martin neitaði að taka þátt í bandaríska eldflaugavarnarkerfinu. Tilhneiging Martins til að skipta um skoðun í þessu og fleiri málum leiddi til þess að tímaritið The Economist uppnefndi hann „Herra Vingul“ (e. Mr. Dithers).[4]
Hjónabönd samkynhneigðra voru lögleidd í Kanada í stjórnartíð Martins árið 2005.[5]
Martin rauf þing og boðaði til þingkosninga í nóvember 2005 eftir að kanadíska þingið samþykkti vantrauststillögu á minnihlutastjórn hans.[6] Tilefni vantrauststillögunnar var ásökun um spillingu meðal forystumanna Frjálslynda flokksins á þá leið að þeir hefðu tekið við greiðslum af auglýsingafyrirtækjum sem ráðin voru til að sinna verkefnum á vegum ríkisins í stjórnartíð Chrétiens. Rannsóknarnefnd taldi Martin sjálfan ekki hafa komið nærri hneykslinu.[7]
Frjálslyndi flokkurinn tapaði kosningunum fyrir Íhaldsflokknum þann 23. janúar 2006. Martin tilkynnti í kjölfarið að hann myndi hætta sem leiðtogi Frjálslynda flokksins.[8]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 „Martin tekur til hendinni“. Morgunblaðið. 11. janúar 2004. bls. 14.
- ↑ „Boðað til kosninga í Kanada“. Morgunblaðið. 25. maí 2004. bls. 15.
- ↑ „Stjórnarflokkur Kanada missir þingmeirihluta“. Morgunblaðið. 30. júní 2004. bls. 13.
- ↑ „Kuldatíð í samskiptum nágrannanna“. Morgunblaðið. 6. mars 2005. bls. 16.
- ↑ „Hjónabönd samkynhneigðra lögleidd í Kanada“. mbl.is. 29. júní 2005. Sótt 18. mars 2025.
- ↑ „Kosningum flýtt í Kanada“. Vísir. 30. nóvember 2005. Sótt 18. mars 2025.
- ↑ Ásgeir Sverrisson (30. nóvember 2005). „Spá harðri kosningabaráttu í Kanada“. Morgunblaðið. bls. 17.
- ↑ „Paul Martin hættir sem leiðtogi Frjálslynda flokksins í Kanada“. mbl.is. 24. janúar 2006. Sótt 18. mars 2025.
Fyrirrennari: Jean Chrétien |
|
Eftirmaður: Stephen Harper |
