Frjálslyndi flokkurinn (Ítalía)
Frjálslyndi flokkurinn Partito Liberale Italiano | |
---|---|
Stofnár | 8. október 1922 |
Lagt niður | 6. febrúar 1994 |
Stjórnmálaleg hugmyndafræði |
Frjálslyndi, íhaldsstefna |
Einkennislitur | Blár |
Frjálslyndi flokkurinn á Ítalíu (ítalska: Partito Liberale Italiano eða PLI) er stjórnmálaflokkur sem á sér mjög gamlar rætur í ítölskum stjórnmálum, þótt núverandi flokkur með þessu nafni hafi formlega verið stofnaður fyrst 5. júlí 1997 sem Partito Liberale. Meginstraumar í stjórnmálastefnu flokksins eru andklerkastefna (sem var eitt af megineinkennum frjálslyndra stjórnmálamanna fyrir tíma skipulagðra stjórnmálaflokka) og frjálshyggja í efnahagsmálum, en innri átök í flokknum hafa oft snúist um það hvaða áherslu skuli leggja á hvort þessara atriða í stefnu flokksins.
Stofnun frjálslynds stjórnmálaflokks
[breyta | breyta frumkóða]Fyrsti frjálslyndi flokkurinn á Ítalíu var stofnaður árið 1921, af stjórnmálamönnum sem litu á sig sem arftaka hinnar frjálslyndu borgarastéttar, manna eins og Camillo Cavour og Giovanni Giolitti. Þessi flokkur leystist upp við valdatöku fasista. Einn af fyrrum ráðherrum þessa flokks, Benedetto Croce, stofnaði svo nýjan frjálslyndan flokk 1943. Þessi flokkur tók virkan þátt í andspyrnuhreyfingunni og átti aðild að þjóðstjórnum Ivanoe Bonomi og Ferruccio Parri og átti meðal annars þátt í að fella þá síðastnefndu. Í þjóðaratkvæðagreiðslunni um konungsvaldið, var flokkurinn hlynntur því að Ítalía yrði áfram konungsríki. Flokkurinn tók þátt í samningu nýrrar stjórnarskrár Ítalíu.
Á þessum tíma áttu frjálslyndir tvo forseta, Enrico De Nicola (1946-1948), fyrsta eiginlega forseta Ítalíu, og Luigi Einaudi (1948-1955).
Flokkurinn náði sér í raun aldrei á strik í ítölskum stjórnmálum á 20. öld og var alla tíð smáflokkur sem aldrei náði 10% fylgi í kosningum. Afstaða flokksins, fyrir trúfrelsi og aðskilnaði ríkis og kirkju og gegn þjóðnýtingu raforkufyrirtækja, skipaði honum ýmist í hóp með hægriflokkum eða róttækum vinstriflokkum, og flokkurinn varð helsti andstæðingur þeirrar vinstri-miðjustefnu sem var ríkjandi á Ítalíu, með stjórnmálabandalagi kristilegra demókrata og sósíalista. Ekki voru allir sáttir við þessa stefnu flokksins og árið 1955 klauf hópur sig út og myndaði róttæka flokkinn, sem þótti nær hefðbundinni frjálslyndri afstöðu Benedetto Croce en frjálshyggju Luigi Einaudi.
Fimmflokkurinn og Mani pulite
[breyta | breyta frumkóða]Á 9. áratugnum gekk flokkurinn inn í Fimmflokkinn sem var bandalag stjórnarflokkanna til 1992. Flokkurinn blandaðist inn í hneykslismálið kringum Mani pulite, þrátt fyrir að hann virtist í fyrstu geta staðið utan við það. Frjálslyndur heilbrigðisráðherra, Francesco De Lorenzo, varð einn af hötuðustu stjórnmálamönnum Ítalíu, þegar í ljós kom að hann hafði stolið fé úr sjóðum heilbrigðisþjónustunnar og gefið leyfi til lyfjasölu á grundvelli mútugreiðslna. Hann þóttist síðan fá taugaáfall til að losna úr fangelsi og birtist í réttarsal órakaður og óhreinn, en reyndist síðan vera alfrískur, þar sem náðust myndir af honum vel til höfðum og brosandi á veitingastað í Róm. Hann hafði þá notað tímann utan fangelsisins til að brenna skjöl sem hefðu getað sakfellt hann frekar.
Endurstofnun
[breyta | breyta frumkóða]Eftir Mani pulite leystist flokkurinn upp og flestir meðlimir hans gengu í nýstofnaðan hægriflokk Silvio Berlusconi, Forza Italia. Nýr flokkur með þessu nafni var svo stofnaður árið 1997 og hefur stefnuskrá sem skipar sér með frjálshyggju Luigi Einaudi og gegn þeirri vinstri-miðjunálgun sem einkenndi flokkinn í Fimmflokknum, og þykir tengjast hnignun hans.
Gengi í kosningum
[breyta | breyta frumkóða]- 1948: 3,8% - 19 fulltrúar
- 1953: 3,0% - 13 fulltrúar
- 1958: 3,5% - 17 fulltrúar
- 1963: 7,0% - 39 fulltrúar
- 1968: 5,3% - 31 fulltrúar
- 1972: 3,9% - 20 fulltrúar
- 1976: 1,3% - 5 fulltrúar
- 1979: 1,9% - 9 fulltrúar
- 1983: 2,9% - 16 fulltrúar
- 1987: 2,1% - 11 fulltrúar
- 1992: 2,8% - 17 fulltrúar
Formenn
[breyta | breyta frumkóða]- Giovanni Cassandro (apríl - júní 1944)
- Manlio Brosio (júní - desember 1944)
- Leone Cattani (desember 1944 - desember 1945)
- Giovanni Cassandro (desember 1945 - desember 1947)
- Roberto Lucifero (desember 1947 - október 1948)
- Bruno Villabruna (október 1948 - febrúar 1954)
- Alessandro Leone di Tavagnasco (febrúar - apríl 1954)
- Giovanni Malagodi (apríl 1954 - júlí 1972)
- Agostino Bignardi (júlí 1972 - febrúar 1976)
- Valerio Zanone (febrúar 1976 - júlí 1985)
- Alfredo Biondi (júlí 1985 - maí 1986)
- Renato Altissimo (maí 1986 - maí 1993)
- Raffaele Costa (maí 1993 - febrúar 1994)
- Stefano de Luca (desember 2004)