Púðurveldin

Púðurveldin er heiti sem bandarísku sagnfræðingarnir Marshall G. S. Hodgson og William H. McNeill bjuggu til yfir íslömsku stórveldin Mógúlveldið, Safavídaríkið og Tyrkjaveldi, á blómaskeiði þeirra frá 16. öld til 18. aldar.[1][2] Þetta voru með stærstu og stöðugustu ríkjum heims á árnýöld og ríktu yfir svæði sem náði frá Mið-Evrópu í norðri að Norður-Afríku í suðri, og að Bengal og Arakan í austri. Hodgson og McNeill röktu velgengni þessara ríkja til þess að þau tóku snemma að nota byssupúður í hernaði, bæði fallbyssur og handskotvopn. Þessi nýjung átti þátt í að skapa stöðug miðstýrð konungsríki, þar sem verslun, listir og menning blómstruðu.
Tilgáta þeirra Hodgsons og McNeill hefur verið gagnrýnd frá ýmsum hliðum, meðal annars þeirri að notkun skotvopna virðist ekki hafa verið forsenda uppgangs þessara ríkja. Safavídar héldu til dæmis áfram að notast aðallega við eggvopn í hernaði fram á 18. öld. Aðrar skýringar gætu til dæmis verið samruni ríkis og trúarbragða. Hugtakið er samt enn víða í notkun.[3]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Hodgson, Marshall G. S. (1974). The Venture of Islam: Conscience and History in a World Civilization'. Chicago: University of Chicago Press. ISBN 978-0-226-34677-9.
- ↑ McNeill, William H. (1993). „The Age of Gunpowder Empires, 1450-1800“. Í Adas, Michael (ritstjóri). Islamic & European Expansion: The Forging of a Global Order. 44. bindi. Philadelphia: Temple University Press. bls. 103–139. ISBN 978-1-56639-068-2. JSTOR 544368.
- ↑ Streusand, Douglas E. (2011). Islamic Gunpowder Empires: Ottomans, Safavids, and Mughals. Philadelphia: Westview Press. ISBN 978-0-8133-1359-7.