Fara í innihald

Staðarhóls-Páll (Páll Jónsson)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Páll Jónsson (skáld))

Páll Jónsson, iðulega kallaður Staðarhóls-Páll, (um 153410. apríl 1598) var af Svalbarðsætt, sonur Jóns Magnússonar ríka á Svalbarði og Ragnheiðar á rauðum sokkum. Hann var sýslumaður og bjó um tíma á Staðarhóli í Dalasýslu en lengst af á Reykhólum í Reykhólasveit.

Páll nam í Munkaþverárklaustri og einnig utanlands. Hann var talinn einn mestur lagamaður á sinni tíð og þótti heldur harðdrægur í viðskiptum. Hann kvæntist Helgu Aradóttur, sem var dóttir Ara sonar Jóns biskups Arasonar 2. janúar 1558, og unnust þau mjög í fyrstu en ástir þeirra kólnuðu brátt og versnaði allur vinskapur. Kvað Páll þá heldur ósnoturlega um hana (sjá hér), en hafði áður ort til hennar eldheit ástarljóð. Þau slitu svo að lokum samvistir. Páll var frumlegt skáld og í kveðskap hans gætir talsvert ljóðrænnar náttúrurómantíkur sem fremur minnir á miðevrópskan skáldskap þess tíma en íslenskan.

Eitt og annað

[breyta | breyta frumkóða]
  • Staðarhóls-Páll fór eitt sinn, að sögn, að finna bróður sinn og reið í skóg nálægt bæ hans. Þar hitti hann smalamenn og spurði sá hver hann væri. Hann lést heita: „Vítt út um veginn og djúpt ofan í jörðina", og bað hann segja það húsbónda sínum, og reið við það heim. Er þetta síðan haft fyrir gátu um Páls nafn.
  • Staðarhóls-Páll kraup Kristjáni 5. konungi aðeins á annað hné, og undruðust þjónlyndir hirðmenn að íslenskur bóndi gerði slíka fúlmennsku. Þá mælti Páll bóndi: „Ég krýp hátigninni með öðrum fætinum, en stend á rétti mínum með hinum."
  • Sýnisbók íslenskra bókmennta frá 1550 til 1900, Kristján Eiríksson tók saman, Reykjavík 2003.